Þrátt fyrir ótal misvelheppnuð hliðarspor þá grunar mig að sagan muni á endanum dæma Spike Lee sem einn merkilegasta leikstjóra samtíma okkar – og BlacKkKlansman er myndin sem kemur honum aftur á kortið eftir nokkra lægð. Titillinn er í einu orði og lítið k á milli stóru k-anna, það hefur löngum verið ákveðin uppreisn gegn tungumálinu innifalin í uppreisn Spike Lee gegn næpurhvítum kvikmyndaiðnaðinum.
Hér er hann að segja okkur 40 ára gamla sögu með ótal tengslum við samtímann, hér er hellingur af heilagri reiði og húmor og myndin passlega villt – sumsé Spike Lee upp á sitt besta. Aðalpersónan er hins vegar á mörkunum – blökkumaður sem er miklu hófsamari í sinni pólitík en Lee sem um leið opnar honum leið til þess að verða ekki síðri byltingarmaður. Ron Stallworth var fyrsti svarti lögreglumaðurinn sem starfaði í Colarado Springs og er leikinn af John David Washington, sem jú, er sonur Denzel, sem fyrir rúmum tuttugu árum lék sjálfan Malcolm X fyrir Spike.
Það sem gerist svo er að fljótlega eftir að hann kemst að í rannsóknardeild lögreglunnar svarar hann auglýsingu frá Ku Klux Klan, sem vilja að vísu bara láta kalla sig „Samtökin“ núna, og leikur hvítan rasista nógu sannfærandi í símann til þess að vera boðaður á fund samtakana. Vandinn er auðvitað að hann getur ekki farið sjálfur og í stað hans er samstarfsfélagi hans Flip Zimmermann sendur. Myndin væri raunar hreinlega óraunsæ ef sagan væri ekki sönn – væri ekki einfaldara að láta Flip einfaldlega sjá um þetta allt saman, bæði símtölin og fundinn?
En lögreglan er ekki alltaf rökrétt frekar en aðrar stofnanir og fyrirtæki. Yfirmenn Stallworth höfðu skömmu áður látið hann rannsaka fund róttækra stúdenta þar sem talsmaður Black Panthers var á mælendaskrá – eitthvað sem hvítum yfirmönnum hans finnst stafa möguleg hætta af en Stallworth sjálfum ekki. Hins vegar skynjar hann undirliggjandi hættuna hjá Ku Klux Klan og tekur upp á því upp á sitt einsdæmi að hefja þá rannsókn og fær svo hina í lið með sér þegar hann er kominn aðeins áleiðis. Vissulega hefði verið rökréttara að einhver annar hefði einfaldlega séð um rannsóknina – en vandamálið er að það hefði líklega aldrei gerst, enginn annar hefði verið líklegur til að hafa það frumkvæði sem þurfti.
En þótt Ku Klux Klan sé illa við blökkumenn þá eru þeir ekkert of hrifnir af Gyðingum heldur – og eins og nafnið sem og andlitsfallið gefur til kynna er Flip Zimmermann Gyðingur – og lendir í alls konar klandri gagnvart Ku Klux Klan-liðum vegna þess, þótt hann afneiti eigin gyðingdómi. Sem hann gerir raunar líka að stórum hluta í raunveruleikanum, hann er fæddur Gyðingur en praktíserar ekki og játar fyrir Stallworth að hafa sáralítið hugsað um gyðingdóm sinn fyrr en núna, „en núna hugsa ég stanslaust um þetta,“ bætir hann við. Enda ofsóknir og stanslaus krafa um afneitun ágætis áminning um upprunann.

Rasistarnir eru svo auðvitað óttalega kjánalegir – en um leið óhugnanlegir. Ef myndin hefði verið gerð fimm árum fyrr hefði hún mögulega verið meiri gamanmynd, en núna munum við öll að við hlógum líka að Trump. Myndin dregur ansi skýra línu frá David Duke, smeðjulegum talsmanni klansins, til Trumps – og í magnaðri senu seint í myndinni þá fáum við mannkynssöguna og ekki síður bíósöguna beint í æð frá báðum áttum, á meðan David Duke messar yfir hvítum messar sjálfur Harry Belafonte yfir svörtum – og á meðan rifjar myndin upp tvær vinsælustu myndir kvikmyndasögunnar; The Birth of a Nation og Gone With the Wind, sem eiga rasismann sameiginlegan sem og vinsældirnar.
E.S.: Eftir að þessi pistill var skrifaður kom fram gagnrýni frá Boots Riley, leikstjóra hinnar mögnuðu Sorry to Bother You, um fegraðan þátt lögreglunnar í myndinni. Gagnrýni sem væri vissulega líkleg til að fá meiri athygli núna.
Umfjöllunin var upphaflega hluti af Karlovy Vary umfjöllun ársins 2018.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson