Blóðdroparnir fimm, Da 5 Bloods, er mögulega tímabærasta mynd ársins – og Spike Lee er alltaf bestur þegar hann tengir við tímann. Myndin er líka á einkennilegan hátt hálfgerð systurmynd síðustu myndar Spike, BlacKKKlansman. Byrjunin er nánast eins og framhald; myndbrot úr nasistamyndum á borð við Birth of a Nation og Gone With the Wind voru stór þáttur af lokaspretti BlacKKKlansman – ýmis myndbrot frá réttindabaráttu blökkumanna eru leiðarvísir okkar inn í Da 5 Blood. Það er nánast eins og Spike Lee vilji sýna, núna í seinni tíð, „þetta er það sem ég er að benda á, vitleysingarnir ykkar!“ og byrgja fyrir allar mistúlkanir.

Og það má alveg saka hann um að predika, en hann er nógu andskoti flinkur kvikmyndagerðarmaður til að komast upp með það – og að einhverju leyti er það líka bara hluti af hans fagurfræði.

Eftir þennan formála erum við svo mætt til Víetnam nútímans, þar kynnumst við aðalpersónunum fyrst – en þó í mjög amerísku samhengi, glæsibar í Ho Chi Minh og á bar sem Apocalypse Now! gefur kitsaða og einkennilega stríðsstemmningu – er ekki annars örugglega til Schindler‘s List bar í Berlín? Amerískur Budweiser virðist vera aðalbjórinn og ef það er raunin annars staðar í landinu þá er auðvitað nokkuð ljóst að Víetnamar töpuðu stríðinu eftir allt saman.

En við erum hér í félagsskap fjögurra uppjafarhermanna sem eru við það að detta á eftirlaun – með nafn myndarinnar í huga beið maður alltaf eftir þeim fimmta, en í ljós kemur að hann er týndi blóðdropinn – foringi þessa fóstbræðralags sem fórst í stríðinu. Hinir eftirlifandi eru mættir til þess að endurheimta líkamsleifar hans – og eru með þartilgerða pappíra – en eru samt aðallega mættir til þess að grafa upp löngu gleymt gull.

Allir blóðdroparnir fimm, sem er nafnið sem þeir gáfu herdeildinni í stríðinu, eru blökkumenn og myndin er rétt eins og BlacKKKlansman nösk á að finna óvæntar hliðar á kynþáttaspennu. Hér eru blökkumenn sem eru samt gamlir stríðsherrar í þriðja heims ríki, eiga sína lausaleikskrakka sem þeir hafa aldrei vitað af og eiga alveg til að vera rasistar í garð Víetnamanna. Þetta spilaði útvarpsgoðsögnin Hanoi Hannah inn á í útsendingum sínum í stríðinu, eitthvað sem okkur eru sýnd brot úr hér – og ég skal fúslega viðurkenna að mig dreymir núna um að Spike geri næst heila bíómynd um Hanoi Hönnu.

Þá er eftirminnilegt endurlit þar sem Víetnamskir hermenn kyrja ljóð – og eru svo stráfelldir af blóðdropunum, sem og þegar þeim sinnast við götusala sem er greinilega jafn skemmdur af stríðinu og þeir. Það er helst að Lee skriki fótur þegar nokkrir víetnamskir hermenn eru óþarflega miklir teiknimyndaskúrkar seint í myndinni.

Svarti maðurinn í stríði hvíta mannsins

Þegar á líður mæta þeir félagar hvítum Evrópubúum þegar þeir rata lengra inn í land. Eða nánar tiltekið sonur eins þeirra, sem hafði óvænt slegist með í för. Þetta byrjar eins og fallegur rómans, hún er Hedy hin franska – eins og Hedy Lamarr, sem almennt er talin líklegasta Hollywood-stjarnan til að hafa orðið Nóbelsverðlaunahafi í vísindagreinum í öðru lífi (samanber prýðilega Lemúr-grein um efnið) – og hún birtist okkur fyrst í daðursenu sem er í senn klisjukennd og krúttleg. Þau vinna í góðgerðastarfsemi og eru á yfirborðinu góðmennskan holdi klædd – en eru af góðum ættum, þurfa aldrei að hafa áhyggjur af neinu, Evrópukrakkar að leita sér að sínu stríði.

Fyrst og fremst fjallar myndin samt um svarta manninn í stríði hvíta mannsins, saga sem hefur alltof sjaldan verið sögð. Einmitt þannig talar myndin inn í samtímann. Þeir eru í leit að sínum eigin byltingarleiðtoga, Norman, sem einn þeirra lýsir sem þeirra Dr. King og þeirra Malcolm X. Hann er leikinn af Chadwick Boseman, sem er vitaskuld frægastur fyrir að leika sjálfan Black Panther í einni vinsælustu mynd allra tíma, augljós vísun Lee í að þessi löngu látni fóstbróðir þeirra sé í raun orðin hálfgerð ofurhetja í huga þeirra.

Þetta er undirstrikað með að yngja þá félaga alls ekki neitt í endurlitum myndarinnar (með einni undantekningu) – og undirstrika þannig hvernig þetta er sena úr misjöfnu minni þeirra gömlu og glíma þeirra við eigin æsku, sem krystallast í eilífri æsku þess sem fór áratugum á undan þeim. Þó má alveg velta fyrir sér líka hvort þeir hafi fundið fimmta blóðdropann í laumufarþeganum, áðurnefndum syni aðalpersónunnar, vitaskuld án þess að átta sig á því.

Umfram allt er þetta samt saga Paul, sem Delroy Lindo leikur af stakri snilld. Af hinum eftirlifandi fjórmenningum eru Eddie (Norm Lewis) og Melvin (Isiah Whitlock jr.) mest í bakgrunninum, sagan virðist fyrst um sinn helst ætla að snúast um Otis (Clarke Peters), sem er viðkunnalegastur fjórmenninganna og á að auki víetnamska dóttur með fyrrum ástkonu. Paul er hins vegar augljóslega vandræðagripur, eldheitur Trumpisti sem tekur þó hægt og rólega forystu í hópnum, hreinlega af því þeir eru allir hálfhræddir við hann, þetta er hrein og klár meðvirkni með bully hópsins.

Hann er gangandi áfallastreituröskun, sér drauga í hverju horni, fær taugaáfall þegar Víetnamar – og þar með stríðið sem hann er að reyna að gleyma – stara á hann aðeins of lengi. Hann er Skröggur sem er pikkfastur í klóm drauga fortíðarinnar. Hann er Shakespearsk – eða kannski enn frekar Conradísk – aðalpersóna, með magnaða mónólóga, fulla af órum og mikilmennskubrjálæði.

Fyrst og fremst er hann samt Ameríka. Hann er kjósandinn sem kýs alltaf gegn eigin hagsmunum, hann treystir ekki þeim sem hann ætti að treysta, heldur aðeins þeim sem leika með hann, hann er uppfullur af eitri, bæði gömlu eitri stríðsins og nýju eitri öfgahægrisins, Trumpismans sem kann að nýta sér eitrið. Hann er einn af þeim sem Ameríka hefur brotið svo rækilega niður að þeir geta ekki annað en kosið þann versta, aftur og aftur. Hann er Ameríka sem er staðráðin í að taka sem flesta með sér í dýrðlegu fjöldasjálfsmorði.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson