Sufjan Stevens gaf í dag út fyrsta lag væntanlegrar plötu, The Ascension. Uppstigningin. Lagið heitir America, hvorki meira né minna, og er tólf mínútna langur óður. Stevens gaf áður út tvær plötur um tvö mismunandi fylki Bandaríkjanna – sem smyglað var um hér, en nú er heimsveldið allt undir.
Byrjunin er mjög Sufjanísk, hann splæsir saman ástum, hamförum og falli heimsveldis strax í fyrsta erindinu:
Is it love you’re after?
A sign of the flood or one more disaster
Don’t do to me what you did to America
Don’t do to me what you did to America
Það eru ótal biblíuvísanir í laginu, en þó fyrst og fremst þessi vísun, aftur og aftur: „Ekki gera mér það sem þú gerðir Ameríku.“ Það er einhver öfugsnúin lýrík í þessu, Stevens enda amerískur sjálfur og beintengdur þjóðarsálinni á margan hátt ef marka má músík hans – það er ekkert hægt að gera Ameríku neitt nema gera honum það líka. Þannig er yrðingin fantasía, von um að finna vin í eyðimörk.
Biblíuvísanirnar öðlast svo öllu ferskari vídd en oft áður, af því eftir hamfaravetur á heimsvísu upplifir maður kannski óvenju Biblíulega tíma, með heimsfaraldri og öðrum náttúrulegum og pólitískum hamförum.
Stevens bætir svo við:
I have loved you, I have grieved
I’m ashamed to admit I no longer believe
I have loved you, I received
I have traded my life for a picture of the scenery
Don’t do to me what you did to America
Don’t do to me what you did to America
Með öðrum orðum: Fögur er hlíðin og ég fórna lífinu fyrir hana. En samt, orðað öðruvísi. Sel sálina fyrir hana, hann veit að þetta voru vond kaup. Svo játar hann að hafa verið hluti af gangverkinu.
I have broke your bread for a splendor of machinery
Þarna vitrast manni að Biblíuvísanirnar voru á ská, vísuðu til Ameríku, jafnvel stjórnarskráarinnar frægu – þessa ímyndaða samkomulags sem menn hafa löngum viljað trúa á í landi hinna frjálsu, svo vísað sé í enn annan falsspádóm.
Lagið reyndist raunar forspárra en Stevens áttaði sig á í byrjun. Það var nefnilega samið árið 2015, með öðrum orðum, fyrir Trump. Lagið kom honum sjálfum á óvart og það passaði engan veginn á plötuna sem hann var að klára þá, Carrie & Lowell. Honum fannst vera einhver illska, neikvæðni og grimmd í þessu nýja lagi sem rímaði illa við tímana þá, en hann fór svo að tengja betur við síðar.
En lagið fékk rækilegt endurmat söngvaskáldsins sjálfs þegar hann hlustaði aftur nokkrum árum seinna. „Ég gat ekki afskrifað það lengur sem reiðilega kerskni. Það var eitthvað þarna, spádómsleg og satt, jafnvel þótt ég hafi ekki áttað mig á því á sínum tíma.“ Þannig setti lagið tóninn fyrir plötuna alla, hvers erindi er einfalt: „Að yfirheyra umheiminn allan. Setja spurningamerki við allt sem heldur ekki vatni. Eyða öllu kjaftæði. Vera hluti af lausninni eða drulla mér í burtu. Segja sannleikann.“
Það kemur svo í ljós í haust, nánar tiltekið 25. september, hvernig gengur að standa við þau stóru orð.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd: Joe Lencioni – Transferred from en.wikipedia to Commons.; description page is/was here, CC BY-SA 2.5, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=1580709