Ég þori ekki að fara alla leið og setja einhverja ógurlega sumargleði hérna inn, þá verður vafalaust skrifaður harðorður pistil um smyglið í Fréttablaðið á borð við þennan, um hvernig ómögulegt verði að virða samkomubannið með slíkri gleðibombu – þannig að setjum frekar inn eitthvað lag sem er örlítið sumar í, en ekki alltof mikið – lag sem mögulega verður til þess að einhverjir fara óvart 1,98 sentimetra nálægt næsta manni í Bónus, en alls ekki nær!
En Sufjan Stevens gæti verið rétti maðurinn til að fagna sumrinu með. Það er nefnilega alltaf einhverjir óvæntir tónar sem smygla sér inní lögin hans, óvænt hljóðfæri, umhverfishljóð, fuglasöngur, bakraddir þegar síst skyldi – svolítið eins og úti, ólíkt fyrirsjáanlega stúdíóinu eða fyrirsjáanlegu íbúðinni þinni. Þannig verður tónlistin merkilega margradda fyrir meinta sólóplötu.
Ég kynntist Sufjan fyrst í gegnum plötuna Come On Feel the Illinoise, sem hann gerði í kjölfarið á Michigan og fullyrti í kjölfarið að hann ætlaði að gera plötu um öll 50 ríki Bandaríkjanna. Ég hafði nýlokið við að lesa Hendingu, Music of Chance, þar sem aðalpersónan eyðir óvæntum arfi í það að kaupa sér bíl og keyra um öll 50 ríki Bandaríkjanna og eyða viku í hverju. Svo kemst ég að því núna að Sufjan viðurkenndi seinna að hann hefði verið að djóka og hefur nú fimmtán árum seinna ekki samið fleiri fylkjaplötur.
En það er sumar, best að fyrirgefa honum og setja Illinois-plötuna á fóninn. Hún byrjar á laginu „Concerning the UFO Sighting near Highland, Illinois“ – og jú, þetta er líklega meðallengd titla á þessari löngu plötu, bara lagalistinn er eins og langt hetjukvæði, Illinois-kviða.
Þetta er einhver forspá þarna um fordæmalausa tíma, hann syngur um nýtt lífform sem þau ekki skilja – og maður ósjálfrátt fer að hugsa um hvernig fólk skyldi óskiljanlegar farsóttir þegar menn höfðu engin vísindi til að útksýra þær.
Seinna á plötunni yrkir hann um Súpermann (The Man of Metropolis Steals Our Hearts) og zombía og almættið er ósjaldan skammt undan. Undir lokin eru svo endalokin nærri, hann fer í turn sjáandans, The Seer‘s Tower, það er kominn drungi, örlítill heimsendi.
In the tower above the earth,
There is a view that reaches far
Where we see the universe,
I see the fire, I see the end.
Þetta er þó mun einfaldara lag – og til marks um það sem koma skal. Þessi plata er endalaus heljarstökk, líklega er ekki hægt að semja margar svona plötur, enda hefur músíkin hans í kjölfarið verið einfaldari og einlægari, berstrípaðri, húmorinn ekki jafn lærður. En áfram fjandi mögnuð.
Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 13
Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.
* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.
Texti: ÁSgeir H Ingólfsson