Það getur verið erfitt fyrir okkur nöldrarana þegar umheimurinn fer skyndilega að taka undir með okkur, eins og til dæmis núna þegar allir þykjast alltaf hafa hatað rasísku sápuóperuna Gone With the Wind – og því vil ég bara hafa það skjalfest að ég skrifaði þetta í grein um tíu ofmetnustu bíómyndir sögunnar fyrir meira en áratug síðan:

„Listinn yfir vinsælustu bíómyndir allra tíma miðast oftast við tekjur og er sjaldnast framreiknaður. Það má færa góð rök fyrir því að það sé ósanngjarnt gagnvart eldri myndum en það eru ein mótrök sem trompa allar slíkar sanngirniskröfur – ef við framreiknum verðum við föst með þessa ofmetnustu mynd allra tíma á toppnum til eilífðarnóns.

Hún hefði sloppið fyrir horn ef síðasti klukkutíminn hefði verið skorinn af, hann er fullkomlega óþarfur. Þeim annars ágæta leikara Clark Gable (leigið ykkur It Happened One Night til að sannfærast um leikhæfileika hans) leiðist allan tímann og þótt Vivienne Leigh sýni magnaðan leik þá breytir það engu um að Scarlett O’Hara er, rétt eins og Rhett Butler, ekkert annað en orðheppinn vælukjói á bömmer yfir að geta ekki haldið áfram að lifa þægilegu yfirstéttarlífi með þræl við hvert fótspor. Myndin er í raun ósköp svipuð Scarlett, falleg og vinsæl en alveg skelfilega leiðinleg og siðlaus í kaupbæti.“

Allavega, það þýðir ekki að ég styðji það að hún sé ritskoðuð út af streymisveitum, ekki einu sinni tímabundið – hún er mikilvæg söguleg heimild um hugsunarhátt sinna tíma, og því miður að einhverju leyti okkar tíma.

En svo má líka minnast þess að kvikmyndir eru samvinnuverkefni, ef cancel-menningin vill til dæmis banna allar myndir leikstjóradurga eða aðalleikara sem þykja óhóflega mikil ómenni fyrir siðgæði okkar tíma þá er rétt að muna að um leið erum við að eyða út verkum tæknifólks, aukaleikara og ýmissra fleira sem lögðu líka líf og sál í myndina. Og Gone With the Wind er nefnilega ekki bara sögulega mikilvæg sem heimild um rómantíseringu þrælahalds og þrælastríðs, hún gjörsamlega mölvaði líka eitt glerþakið þegar Hattie McDaniel varð fyrst blökkukvenna til að vinna óskarsverðlaun. Og hún var langt á undan sinni samtíð, það leið hálf öld áður en svört kona fékk næst óskar fyrir leik.

Og hvað sem má segja um mis-smekklegann Óskarinn þá skiptir hann máli, það er mikilvæg varða fyrir undirokaða hópa að vera boðið í það partí – sem sést kannski best á því hvernig hún hefur skipt aðra frumkvöðla máli. Þær Karla Burns og Rita Dove voru frumkvöðlar í sínum listum á svipaðan hátt og Hattie – sú síðarnefnda var fyrsta blökkukonan sem varð lárviðarskáld Bandaríkjanna (poet laureate) og sú fyrrnefnda fyrsta blökkukonan sem fékk frægustu leiklistarverðlaun Breta. Og Hattie McDaniel hefur orðið báðum yrkisefni – sem og þessum prýðilega pistlahöfundi LA Times.

Burns samdi einleikinn Hi-Hat Hattie, söngleik um ævi Hattie McDaniel. Báðar eru þær McDaniel og Burns fæddar í Wichita, stærstu borg Kansas, og léku báðar hlutverk Queenie í söngleiknum Showboat.

Lárviðarskáldið Rita Dove samdi svo ljóð dagsins, „Hattie McDaniel Arrives at the Coconut Grove.“

Það er hlaupaársdagur og Hattie er að mæta á óskarinn – þar sem hún fær að mæta, verandi tilnefnd, en fær vitaskuld ekki að sitja með hvítu stjörnunum.

what can she be

thinking of, striding into the ballroom

where no black face has ever showed itself

except above a serving tray?

Hún rifjar upp að þarna geti þernur klæðst loðfeldum en samt verið þernur áfram – sem kallast á við fræga línu McDaniel, þegar hún var gagnrýnd fyrir að leika of oft þernuna og ýta þar með undir staðalmyndir: „Af hverju ætti ég að kvarta yfir því að fá 700 dollara á viku fyrir að leika þernur? Ef ég gerði það ekki myndi ég fá borgað 7 dollara fyrir að vera þerna í alvörunni.“

Dove skyggnist inn í hausinn á Hattie, gefur sér að hún bölvi hvíta fólkinu um leið og hún brosi til þeirra. Þetta er ljóð um sálufélaga á sitt hvorri öld, frumkvöðla sem leyfa sér að láta fína hvíta fólkið bíða eftir sér.

Ljóðið má svo hlusta á hér fyrir ofan – og lesa hérna:

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson