Þegar landamærum er lokað verður smygl mikilvægara en nokkru sinni. Vegna þess að hugmyndirnar eru veirurnar sem þurfa að ferðast á milli landa, á milli sálna, á milli okkar. Góðu veirurnar, góðu hugmyndirnar.
En það er auðvitað nóg af vondum veirum líka. Á ensku kallast það að slá í gegn á internetinu að go viral, verða víðförul veira, verða faraldur.

Sumar þessar veirur eru góðkynja, aðrar illkynja – en við þurfm að skilja betur hvernig þessar veirur smitast. Hver er R-tala netveiru? Þessi einkennilega tala sem er byggð á flóknum útreikningum – en þýðir á endanum einfaldlega hvort veira er að fjölga sér eða fækka.
Fólkið á bak við Trump veit það, það reiknaði hann í Hvíta húsið með plágu falsfrétta þar sem tryggt var að R-talan væri nógu há á réttum stöðum.
En hvert er mótefnið? Jú, betri veirur sem líka tekst að dreifa víða. Réttar upplýsingar – en líka upplýsingar sem hampa lífinu og fjölbreytinni og gagnrýninni frekar en dauðanum og óttanum og hatrinu.
Það sem við köllum menning, til aðgreiningar frá ómenningunni.
Menningarsmyglinu er ætlað að smygla menningu, fjalla um hana, greina hana og dreifa henni með ýmsu móti.
En til þess þurfum við stuðning. Til þess að R-tala þessarar hugmyndar verði sem hæst og smitist sem víðast þarf samblöndu af tvennu; fjármagni og deilingum. Að ógleymdum kommentum og lækum.
Vefsíður verða ekki unnar í sjálfboðavinnu til lengdar og því er Menningarsmygl með áskriftarsöfnun á Karolina Fund sem miðar að því að tryggja rekstrargrundvöll miðilsins til framtíðar.
Sem stendur er miðillinn einmenningsmiðill að mestu, í eigu smyglarans og ritsjórans Ásgeirs H Ingólfssonar, og fyrsta vers er einfaldlega að reyna að gera þetta að fullri vinnu – og ef vel gengur að fá lausapenna til að skrifa líka.

Því þótt það sé gott að ríkisstjórnin sé að búa til aðgerðapakka þá getum við líka búið til aðgerðapakka sjálf, ef við höfum eitthvað aflögu. Eytt fjármunum okkar í einyrkja, lítil fyrirtæki, listamenn og aðra sem við viljum að geti haldið áfram sinni vinnu þótt faraldrar geysi. Þannig má sýna gott fordæmi um nýtt verðmætamat í heiminum sem við munum svo reyna að skapa saman eftir kóf.
Síðan og söfnunin
Menningarsmygl er vefsíða um menningu, alls konar menningu, bíómyndir og bókmenntir, tónlist og myndlist, götumenningu og umhverfislistaverk – en líka um ferðalög, fótbolta og pöbbarölt, jafnvel pólitík stöku sinnum.
Smyglarinn Ásgeir H Ingólfsson er blaðamaður, rithöfundur, þýðandi, kennari og allrahanda textasmiður og hefur búið ýmist á Íslandi, í Tékklandi eða á Englandi undanfarin misseri. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri en hefur búið síðan í Reykjavík, á Laugarvatni og á Sauðárkróki, sem og í Längenfeld í Austurríki, Southampton á Englandi og í Prag, Tábor og Zlín í Tékklandi. Hann er skrifandi farandverkamaður og þegar hann er ekki að smygla gefur hann út ljóðabækur á borð við Framtíðina og Grimm ævintýri eða skrifar fyrir Stundina eða RÚV.
Nánar má svo lesa um þetta allt saman á Menningarsmyglinu sjálfu, á Facebook-síðu smyglsins sem og á söfnunarsíðunni.