Íslandsstofa frumsýndi í vikunni myndband þar sem fólk var hvatt til að senda inn öskur, sem yrðu svo geymd í hátölurum einhvers staðar á hálendinu næstu vikurnar.

Af hverju? spurðu flestir. Hvernig á þetta að hjálpa túrismanum? Er þögnin ekki einmitt helstu verðmæti íslenskrar náttúru?

Með öðrum orðum: auglýsingin sem slík virðist hafa misst marks. En er þetta auglýsing? Er þetta ekki miklu frekar einhver skrítinn gjörningur um erfitt ár, um fólk sem er hrætt við að missa vinnuna, um fólk sem hefur týnd tilgangnum sínum, um fólk sem veit ekki alveg hvað það á að gera annað en að öskra?

Með öðrum orðum: er þetta ekki í raun myndband um fólk sem vinnur á auglýsingastofu? Fólk sem er oftar en ekki stútfullt af sköpunarkrafti, textafólk, myndlistarfólk, kvikmyndatökumenn, allt þetta fólk sem gafst upp á harkinu og fann sér vel borgaða innivinnu – þar sem sköpunarkrafturinn þarf samt alltaf að snúast um að selja ákveðna vöru. Jafnvel ákveðna vöru sem allir vita að mun seljast sáralítið þetta árið, nánar tiltekið ferðalög. Sköpunarkraftur í spennitreyju kapítalismans.

Með öðrum orðum: þetta er öskur út af flónsku kapítalismans, sem neyðir okkur áfram í að sinna áfram kjaftæðisstörfum sem hann hefur þróað í flónsku sinni, jafnvel í miðjum heimsfaraldri, frekar en að leyfa fólki að finna leiðir til að virkja eigin sköpunarkraft og sjá hvort það komi ekki eitthvað miklu frjórra, skemmtilegra og já, hagkvæmara, út úr því.

En hver veit, kannski þrælvirkar þetta og hálendið verður fullt af gólandi öskuröpum fyrr en varir.

Ég sá hins vegar nýlega auglýsingu frá öðru ferðamálaráði sem hræddi mig mun meira. Þetta var frá egypskum ferðamálayfirvöldum, þeirra Egyptastofu eða Inspired by Egypt, og er ógnvænleg dystópía um kófið sem Orwell og Huxley hefðu báðir verið stoltir af.

Þetta byrjar á mönnum í öryggisklæðnaði að sótthreinsa flugvélina, flugrútuna, flugstöðina og farangursbeltið. Sem og pýramídana, hótelið og sólstólana.

En svo birtir yfir og ungt vestrænt par með grímur stígur út úr flugvél, en er búið að taka grímuna niður um leið og þau eru komin út úr flugstöðinni. Nema hvað, þau virðast vera alein í heiminum. Fyrir utan auðvitað alla grímuklæddu heimamennina sem þjóna þeim og skemmta þeim.

Akkúrat þetta er dystópían sem kófið hótar, ef ástandið verður viðvarandi eða versnar: að við verðum öll sett í vinnu við að þjónusta þá fáu sem eiga efni á að ferðast ennþá, jafnvel á sínum einkaþotum, á meðan allir hinir fá það hlutverk að vera grímuklæddir skemmtikraftar og þjónar. Aðeins þeir ríku geti haldið áfram að djamma eins og það sé 2019.

Svo er auðvitað annað mál að sum þriðja heims lönd gætu alveg fært rök fyrir því að þetta sé ekkert nýtt, svona hafi þetta verið lengi, þau hafi haldið partíinu gangandi og þarna sé bara verið að lyfta tjöldunum.

Kófið er nefnilega próf – próf fyrir bæði kapítalismann og andstæðinga hans. Erum við tilbúin til þess að bregðast við, berjast á móti, berjast fyrir því að heimurinn eftir kóf verði betri en ekki verri? Eða endar þetta eins og alltaf á því að við erum of þreytt eftir nokkra hringi á hamstrahjólinu og gráðugu kapítalistarnir vinni enn og aftur, af þeirri einföldu ástæðu að ríka fólkið var tilbúið, tilbúið til að nota sjokk-aðferðina á okkur enn einu sinni, tilbúnir til að nýta sér ástandið til að kreista síðustu blóðdropana úr okkur vinnuþrælunum fyrir næstu kreppu eða næsta gróðæri?

Eða kannski er bara kominn tími á að öskra þá í kaf?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson