Við erum stödd á lestarstöð en við förum ekki inn í lestina. Þau Milla og Moses ögra sjálfu sér, fara að brúninni – hún daðrar við brúnina, hann teflir á tæpasta vað. Hann er hvirfilbylur sem kemur inn í líf hennar, lestin siglir af brautarpallinum og ekkert verður aftur samt.

Þetta er blábyrjunin á áströlsku myndinni Babyteeth; Milla er sextán ára en á enn eina barnatönn – Moses er sjö árum eldri, pönkari og dópisti, með risjulegt hár og hálfgerðan rottuhala í tagli. Hún verður að sjálfsögðu heilluð um leið og biður hann auðvitað um klippingu.

Þetta er ljóðræn og orkumikil mynd um fyrstu ástina, en líka um dauðann og lífsleiða foreldra.

Hún minnir um margt á American Honey – en hefur það fram yfir hana að Toby Wallace er miklu meira sjarmerandi sem vandræðagemlingskærastinn en Shia LeBeouf. Hún er samt ekki alveg jafn góð, til þess var erindi American Honey brýnna og sagan sterkari.

Það er samt nánast styrkur Babyteeth að gera söguna ekki að aðalmálinu, Milla er nefnilega með krabbamein og í staðinn fyrir að finna nýja leið til að segja þá sögu er það einfaldlega ekkert aðalatriði framan af, ekki þangað til dauðinn fer að banka harkalega á dyrnar. Milla vill nefnilega fá að gleyma dauðanum yfirvofandi og fá að lifa aðeins og myndin einfaldlega leyfir henni það.

Foreldrar hennar leyfa henni það líka, jafnvel þótt þeim lítist skiljanlega ekkert á nýja vininn – og þau eru lengi að melta það hvort þau eigi að vera vinir eða par – þá átta þau sig fljótlega á að þetta er fyrsta ást Millu, og kannski eins gott að leyfa henni að njóta hennar, þar sem líklega mun hún ekki hafa tíma til að finna skárri kærasta.

Og Moses er sannarlega hlutgerður, þetta er alltaf sagan hennar Millu. Sem er ágætt að því leytinu til að það má vel kolefnisjafna aðeins ástarsögur heimsbíósins að þessu leyti, verra að því leyti að Milla kemur frá efnaðri miðstéttarfjölskyldu og hefði það vafalítið bara helvíti fínt ef væri ekki fyrir krabbann, Moses er svo að segja munaðarlaus, með pabba sem hefur aldrei virt hann viðlits og mömmu sem hleypir honum ekki heim. Og því hefði alveg mátt eyða aðeins meiri tíma í hans harm og hans aðstæður.

En það breytir því ekki að Moses og Milla eru ómótstæðilegir karakterar, þyrst í lífið, ráðvillt og frábærlega leikin af Toby Wallace og Eliza Scanlan, sem var eftirminnileg sem yngsta systirin í Little Women síðasta vetur.

Þá eru Ben Mendelsohn og Essie Davis frábær sem lífsleiðir foreldrar Millu, þótt pabbanum sé lítill greiði gerður með tilgangslitlu daðri við nágrannakonuna, sem er heldur snautleg aukapersóna. Frekar hefði mátt eyða meira púðri í Eugene Gilfedder sem Gidon, tónlistarkennarann sem sameinar mæðgurnar tvær. Tónlist er einmitt í stóru og afgerandi hlutverki í myndinni. Síðasta föstudagslag hér á smyglinu var Come Meh Way og því fylgdi mögnuð sena, skellum öðru frábæru lagi úr myndinni á youtube hér fyrir neðan.

Myndin er byggð á leikriti og hún heldur í þann uppruna, er byggð upp á stuttum senum sem allar eiga sína sérviskulegu kaflatitla sem birtast í upphafi hvers kafla. Einhvern veginn virkar þetta og gerir myndinni cinematískari um leið.

Þetta er mynd um dansinn við dauðann, við lífið, við háskann, en kannski fyrst og fremst um leitina að ástinni, ástinni á öðru fólki og heiminum sjálfum. Með tvær týndar sálir í forgrunni, stjörnur sem við vitum alltaf að eiga ekki eftir að skína lengi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson