Aleksandr Lúkasjenkó í Hvíta-Rússlandi hefur verið við völd fimm árum lengur en sjálfur Pútín og hefur gert Hvíta-Rússland eitt lokaðasta ríki Evrópu á valdatíma sínum. Það var þó ágætlega lokað strax við upphaf valdatíma hans, en árið 1996 er sögusvið hvít-rússensku myndarinnar Krystalsvansins (Khrustal).

Leikstýran Darya Zhuk er uppalin í Hvíta-Rússlandi en býr og starfar í Brooklyn í New York. Þær Velya, aðalpersóna Krystalsvansins, eru augljóslega andlega skyldar hvað útþrána til Ameríku varðar. Velya stingur í stúf frá fyrsta ramma – hún er í litríkri uppreisn gegn grámanum, ákveðin í að ganga í skörpum, ákveðnum litum á meðan allir í kring virðast hafa orðið grámanum að bráð.

En hún er samt föst í grámanum miðjum. Hún sækir um að komast til Bandaríkjanna, en starf hennar sem plötusnúður á hálftómum klúbbum er ekki að skila neinum tekjum, þannig að í umsókn sinni um ferðaleyfi til Ameríska sendiráðsins segist hún vera að vinna í ábátasömu starfi við að framleiða krystalssvani. En gefur óvart upp símanúmer í bænum Krystal – og þegar embættismaðurinn í sendiráðinu segir að hann muni líklega hringja í vinnuveitendurna til að staðfesta söguna þá eru góð ráð dýr. Þannig að Velya fer í smábæinn Krystal – og eftir afar erfið fyrstu kynni við sveitafjölskyldu, sem er í miðjum brúðkaupsundirbúningi, þá leyfa þau henni með semingi að vakta símann. Verst að það er óvíst að hann virki einu sinni.

Megnið af myndinni gerist svo í krummaskuðinu Krystal, einhvern veginn leiddi tilraun Velyu til þess að verða meiri heimsborgari til þess að hún endaði enn fjær glitri amerísku stórbogarinnar. Samskiptin við fjölskyldumeðlimina eru svo köflótt og dramatísk – en í gegnum þetta allt er það aðalleikkonan Alina Nasibullina sem heldur manni föngnum, hún nær einhvern veginn bókstaflega að leika litinn í grámanum og holdgerir baráttu nútímakonu við að losna úr karlrembuþjóðfélagi sem hún veit að er ekki að fara að breytast mikið á næstunni.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Greinin var fyrst birt sem hluti af þessum Karlovy Vary pistli árið 2018.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson