Josef skutlar mér niðrí bæ og rifjar upp þegar hann hitti Gregory Peck, Nastössju Kinski, Claudiu Cardinale og Oliver Stone og minnir mig á hvað þessi litli bæheimski bær er gegnsósa í kvikmyndasögunni. Josef býr í úthverfi Karlovy Vary um helgar en vinnur sem rafvirki í München á virkum dögum – en á síðasta áratug síðustu aldar vann hann á Hótel Pupp, glæsilegasta hóteli borgarinnar sem heldur öll fínustu partíin.
Þetta er sjötta skiptið sem ég mæti á kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary, en 53 skiptið sem hún er haldin. Þetta veit ég aðallega af því að grafískir hönnuðir hátíðarinnar eru gjarnir á að nota þessar tölur í lógóum hátíðarinnar – og 53 hefur sjaldan litið svona vel út. En eftir að hafa fundið stað í miðbænum öll hin árin gisti ég núna hjá Jósef úti í úthverfi og þarf að læra í fyrsta skipti á strætóana og leigubílana hérna, sem kostaði mig vissulega eina eða tvær myndir.
Fjarlægðin gerir það líka bölvað bras að skjótast heim og ná í jakkafötin – þannig að þegar ég var kominn með óvænt boð í opnunarhófið um hálsinn þurfti finnskur félagi minn ekkert langan tíma til þess að sannfæra mig um að sleppa þeirri gala-vitleysu og koma með honum á úkraínska heimildamynd í staðinn. Það reyndist að vísu vera versta myndin sem ég sá alla hátíðina, alltof léleg til þess að eyða dýrmætum útvarpsmínútum í hana – en besta myndin sem ég sá á hátíðinni reyndist hins vegar líka vera úkraínsk.
Myndin sú heitir Eldfjall (Vulkan) en það er rétt að vara sérlega eldfjallaáhugamenn við, það er ekkert eiginlegt eldfjall í myndinni. Þetta er frumraun Romans Bondarchuk í leiknum myndum, en hann hefur hingað til gert heimildamyndir – og fyrir sýningu minntist hann Oleg Sentsov, félaga í leikstjórastétt sem er í hungurverkfalli í fangabúðum í Síberíu og minnti okkur á að við lifum á einkennilegum tímum þegar gúlög fortíðarinnar verða sífellt kunnuglegri á ný.
Það kallast á við myndina sjálfa, við erum stödd í villta austrinu, á svæði þar sem lögleysan ein ræður ríkjum, enda svæðinu hvorki stýrt af Kænugarði né Kreml. Við erum tæknilega í Úkraínu, en bara tæknilega – og eiginlega varla það. Lukas er túlkur fyrir sendinefnd á vegum ÖSE, sem er mætt til þess að meta ástandið. En svo drepst á bílnum. Lukas fer út og reynir að finna símasamband eða aðstoð, án árangurs. En þegar hann kemur aftur er bíllinn horfinn – með öllum farþegunum.
Dystópía í raunveruleikanaum
Hann fær á endanum far í næsta þorp – en verður svo rækilega fastur þar. Rútur bila eða er rænt af ribböldum, löggan er gerspillt og flestir virðast líta þennan aðkomumann hornauga. Hann eignast þó hálfpartinn nýja fjölskyldu í sérvitringnum Vovo, mömmu hans og dótturinni Marushku.
Þetta er dystópía í raunveruleikanum sjálfum, sumar persónurnar eru nánast eins og þær hafi sloppið af settinu á Mad Max út í raunveruleikann. Myndin er ægifögur og óhugnanleg um leið, sem sést kannski best þegar aðalpersónan verður innikróuð í pínulítilli holu, rétt svo nógu djúpri að hann komist ekki upp úr henni, sem er staðsett í miðju risastóru sólblómaengi.
Stærsti galdur myndarinnar er svo það hvernig hún sýnir hvernig Lukas fer að venjast ástandinu – og fer að hætta að sýna því mikimm áhuga að snúa aftur til Kænugarðs. Maður hefur á tilfinninguna að hann sé Úkraínumaður sem sé orðinn of veraldarvanur fyrir heimalandið, líka Kiev – og eigi því eiginlega hvergi heima. Geti ekki hugsað sér að hvorki fara né vera, svo fastur í eigin rótleysi að það gerir honum nánast ómögulegt að fara neitt. Um leið sjáum hvernig galdur hins villta nær tökum á honum, þarna eru kannski ræturnar sem hann aldrei þekkti.
Örlítið austar er svo rótin af öllu þessu ófremdarástandi. Við erum stödd í Moskvu haustið 1999 og Bóris Jeltsín er að segja af sér. Og þeir sem fylgjast með vita að það getur aðeins þýtt eitt: Vladimir Pútín er að taka við. Við sjáum viðbrögð bæði eiginkonu og dóttur kvikmyndaleikstjórans Vitaly Mansky við fréttunum í myndinni Vitni Pútíns (Svideteli Putina) – og þær eru vægast sagt ósáttar. Ég verð að viðurkenna að þessi byrjun er það langbesta við myndina, ég hefði hálfpartinn viljað að Mansky hefði haldið áfram að gera mynd um fjölskyldu sína, sem staðgengla hins almenna borgara, þöglu vitnin sem lifðu í gegnum öll ár Pútíns. En það hefði sjálfsagt endað með hjónaskilnaði – og Mansky-fjölskyldan eru varla dæmigerðir borgarar, allavega ekki hann sjálfur, hann reynist vera í innsta hring.
Sem þýðir að hann fær það hlutverk að gera heimildamynd um þá alla þrjá, Gorbatsjoff, Jeltsín og Pútín – og er raunar í lykilhlutverki í upprunalegri ímyndarsköpun Pútíns, sem á endanum tryggði völd hans í sessi. Fyrsta kosningasigrinum er fagnað á kosningaskrifstofunni – en yfir fagnaðarlátunum heyrum svo rödd sögumanns rifja upp hvað hefur gerst síðan; nánast allir þessir upprunalegu bandamenn Pútíns hafa snúið við honum bakinu, gengið í stjórnarandstöðuna eða fundið sér einhvern andspyrnufarveg, sem oft hefur verið dýru verði keypt. Mansky sjálfur er til dæmis landflótta í Lettlandi og ólíklegt er að myndin verði nokkru sinni sýnd í Rússlandi. Enda var þetta aðstoðarfólk upp til hópa umbótasinnað og frjálslynt – en veðjaði einfaldlega á kolrangan hest.
Einlægur Pútín
Mansky sjálfur notar gamalt myndefni – og sérstaklega það sem ekki var notað í áróðursmyndirnar á sínum tíma – og það merkilegasta við myndina er einfaldlega hvað þar má finna mikið af spjalli hans við Pútín, þar sem forsetinn virkar tiltölulega einlægur. Við fáum líka góðan skammt af Jeltsín – og ef maður hefði bara frammistöðu þeirra í þessari mynd til að styðjast við, þá er manni hulinn ráðgáta hvernig nokkur maður gæti kosið þennan erkifábjána sem Jeltsín virðist vera, en Pútín ber hins vegar af sér töluvert meiri kjörþokka, en jafnvel þegar maður skynjar að hann sé fullkomlega einlægur þá er hann afskaplega torræður – það er dálítið eins og KGB fortíðin hafi markað sálina á honum þannig að hann verði alltaf aðeins í skugganum, handan skilnings.
Myndin sjálf reynist svo merkilegt plagg fyrst og fremst vegna þessarar miklu nándar sem við fáum við Pútín, eitthvað sem myndi aldrei gerast í dag, en hún er þó of stefnulaus og flausturslega uppbyggð til þess að varpa raunverulegu ljósi á viðfangsefnið.
Litríka hetjan mín
Mörgum finnst eðlilega að Vladimir Pútín hafi verið við völd í heila eilífð, enda bráðum komin tuttugu ár sem hann hefur öllu ráðið í Rússlandi. Kollegi hans Aleksandr Lukashenko í nágrannaríkinu Hvíta-Rússlandi hefur þó verið við völd fimm árum lengur og hefur gert Hvíta-Rússland eitt lokaðasta ríki Evrópu á valdatíma sínum. Það var þó ágætlega lokað strax við upphaf valdatíma hans, en árið 1996 er sögusvið hvít-rússensku myndarinnar Krystalssvansins (Khrustal).
Leikstýran Darya Zhuk er uppalin í Hvíta-Rússlandi en býr og starfar í Brooklyn í New York. Þær Velya, aðalpersóna Krystalsvansins, eru augljóslega andlega skyldar hvað útþrána til Ameríku varðar. Velya stingur í stúf frá fyrsta ramma – hún er í litríkri uppreisn gegn grámanum, ákveðin í að ganga í skörpum, ákveðnum litum á meðan allir í kring virðast hafa orðið grámanum að bráð.
En hún er samt föst í grámanum miðjum. Hún sækir um að komast til Bandaríkjanna, en starf hennar sem plötusnúður á hálftómum klúbbum er ekki að skila neinum tekjum, þannig að í umsókn sinni um ferðaleyfi til Ameríska sendiráðsins segist hún vera að vinna í ábátasömu starfi við að framleiða krystalssvani. En gefur óvart upp símanúmer í bænum Krystal – og þegar embættismaðurinn í sendiráðinu segir að hann muni líklega hringja í vinnuveitendurna til að staðfesta söguna þá eru góð ráð dýr. Þannig að Velya fer í smábæinn Krystal – og eftir afar erfið fyrstu kynni við sveitafjölskyldu, sem er í miðjum brúðkaupsundirbúningi, þá leyfa þau henni með semingi að vakta símann. Verst að það er óvíst að hann virki einu sinni.
Megnið af myndinni gerist svo í krummaskuðinu Krystal, einhvern veginn leiddi tilraun Velyu til þess að verða meiri heimsborgari til þess að hún endaði enn fjær glitri amerísku stórbogarinnar. Samskiptin við fjölskyldumeðlimina eru svo köflótt og dramatísk – en í gegnum þetta allt er það aðalleikkonan Alina Nasibullina sem heldur manni föngnum, hún nær einhvern veginn bókstaflega að leika litinn í grámanum og holdgerir baráttu nútímakonu við að losna úr karlrembuþjóðfélagi sem hún veit að er ekki að fara að breytast mikið á næstunni.
Klikkað költ og mjög, mjög reiður Nicolas Cage
Velya hefði auðvitað ekki nennt að horfa á allar þessar austur-evrópsku myndir sem ég er búinn að segja ykkur frá, því hér í Karlovy Vary eru myndir frá öllum heimshornum og við skulum enda þennan pistil í fyrirheitna landinu hennar Velyu, Bandaríkjum ársins 1983.
Mandy var ein af þessum þremur myndum sem Jóhann Jóhannsson heitinn hafði lokið að semja tónlist við áður en hann lést. Þetta er líka með hans betri verkum – og ég neita því ekki að ég hugsaði stundum með mér; var þetta máski tónlistin sem átti að vera í Blade Runner framhaldinu? Það mætti allavega staðsetja hana einhvers staðar á milli meistaraverks Vangelis og tónlistar Hans Zimmers í nýju myndinni, það er mikið eitís í músíkinni enda Mandy sannarlega mikil eitísmynd, eiginlega meiri eitísmynd en nokkur mynd frá níunda áratugnum. Þetta er mjög meðvituð b-mynd en með mjög ýkta og heillandi mynduppbyggingu, ekki síður en hljóðheim.
Myndin gerist í eldrauðum heimi einhvers staðar í Bandaríkjunum árið 1983. Nicolas Cage leikur Red og Andrea Riseborough leikur Mandy, ástfangið par sem býr í fáförnum skógi. Framan af er einkennileg fegurð þessa fagurrauða heims alveg nóg til þess að halda manni – og þá erum við að tala um fyrsta kortérið eða svo. En svo koma jesúnötterarnir til sögunnar, einkennilegt költ með einhverja ofurnáttúrulega ribbalda sér við hlið. Og þetta eru bara svo tilgerðarlegir og óþolandi vondu kallar að það er ákveðin þrekraun að lifa næstu 45 mínútur af, þegar költið og illska þess er í aðalhlutverki.
En um miðbik þessarar 2 klukkutíma myndar gerist svo atburður sem breytir öllu. Nicolas Cage verður reiður. Mjög, mjög reiður. Mögulega reiðari en nokkurn tímann áður á gjörvöllum ferli sínum, sem þýðir líklega reiðari en nokkur maður í kvikmyndasögunni. Og þá er gaman. Af því það er einfaldlega eitthvað stórkostlega skemmtilegt við að fylgjast með Nicolas Cage svona reiðum, fylgjast með honum toppa sjálfan sig endanlega í stórkostlegum ofleik. Og allan tímann er svo auðvitað unaður að hlusta á tónlist Jóhanns heitins, við skulum hlusta á aðeins meira af henni fyrir helgina.
Upphaflega flutt í Tengivagninum á RÚV 22.júlí 2018.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson