Núna þegar rómans er víða orðin brot á sóttvarnarreglum er ekki úr vegi að ylja sér við sumarið 2004 – þegar tveir bestu rómansar aldarinnar komu út; Before Sunset og auðvitað meistaraverkið Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Eilíft sólskin hins flekklausa huga, eins og Alexander Pope orti forðum daga.
Hún er orðin sextán ára gömul þannig að auðvitað reikna ég með að þig þekkið öll plottið – en ef þið eigið enn eftir að sjá hana þá lútið þið vitaskuld höfði í skömm, en um leið þakklæti fyrir að eiga hana eftir, og rjúkið svo út á næstu vídjóleigu og horfið strax í kvöld.
En svona byrjar þetta:
Við vöknum, við erum stödd á brautarpalli, við erum stödd í Montauk – já, það er í alvöru staður í veröldinni sem heitir Montauk, ég elskaði myndina strax bara fyrir að kynna mig fyrir þessu göldrótta nafni. Við erum í fylgd með Joel, sem er leikin af Jim Carrey. Carrey hefur aldrei verið jafn lágstemmdur þótt hann hafi leikið fleiri alvarleg hlutverk – seinna komst ég að því að Gondry leikstjóri hefði leyft öllum nema honum að beita spuna. Carrey var sá sem þurfti að vera berskjaldaður, mátti ekki fela sig bak við neitt.
Hann hittir Clementine, sjálfa Kate Winslet með síbreytilegan hárlit. Það eru straumar á milli og henni kemur skemmtilega á óvart að hann þekki ekki lagið sem allir tengja við Clementínur heimsins. Og það er þessi tilfinning, að hafa þekkt einhvern ókunnugan lengi, lengi, sem er upphafið af mörgum dýrmætustu ástar- og vinarsamböndunum. Tilfinning sem vafalaust er oftar en ekki upprunin í flóknum og gleymdum minningum.
Þau hittast á strönd að vetri til. Vetrarstrendur eru einkennilegir staðir – ég man sjálfur eftir óraunveruleikatilfinningunni að labba eftir langri strandlengju í Svartfjallalandi í kulda snemma vors, þegar menn voru að undirbúa ferðamannasumarið. Staðurinn var ekki hann sjálfur, hann var ekki loforðið sem öllum var selt í túristabæklingunum – en einmitt þá var hann sannastur. Hann var berskjaldaður, hingað kom engin nema til þess að elta minningar – eða bara óvart, eins og ég.
En þetta byrjaði samt ekki svona, ekki í alvörunni.
Vegna þess að þarna, einmitt þegar ástarævintýrið er rétt að byrja, kemur kreditlistinn. Nema hvað, það eru heilar sautján mínútur búnar – og núna, eftirá, veit maður að tæknilega séð byrjar myndin ekki fyrr en eftir kreditlistann. Þessi byrjun var hluti af endanum.
En svo fá þau að byrja á byrjuninni – og miðjunni og endanum, þetta er allt í einni kös – enda er bókstaflega verið að tortíma minninu.
Valfrjálst minnisleysi hins kvalda huga
Eitthvað kemur upp á – við vitum ekki hvað fyrr en löngu seinna, og jafnvel þá erum við ekki alveg viss. En nógu slæmt er það til að Clementine leiti á náðir fyrirtækis sem sérhæfir sig í að eyða minningum fólks – og fyrir mistök kemst Joel að því, þegar vinir þeirra sína honum miða frá fyrirtækinu þar sem þau eru beðin um að minnast hvorki á hann né samband þeirra við Clementine: „Clementine Kruczynski has had Joel Barrish erased from her memory. Please never mention their relationship to her again.“

Þess má raunar geta að myndin er byggð á þessum miðum – svona litlir prentaðir miðar um að hjálpa öðrum að gleyma voru hluti af listagjörningi Pierre Bismouth, sem samdi svo söguna ásamt Gondry og Kaufman sem varð svo síðar grunnurinn að handritinu sem Kaufman skrifaði.
Í hefndarhug ákveður Joel svo að gera slíkt hið sama. En auðvitað fær hann bakþanka – en það gerist ekki fyrr en hann er búinn að skrifa undir og það er búið að svæfa hann og tengja hann við maskínu sem hefur það hlutverk eitt að tortíma minningum, einmitt þeim minningum sem hann áttar sig nú á að eru hans dýrmætustu og fallegustu, þótt þær séu sárastar líka.
Við fáum þannig kjarnann úr ástarsögunni, allt það sætasta og súrasta og sárasta, allt það sem skiptir máli – í gegnum minnið á Joel, einmitt þegar það er verið að tortíma þessum minningum. Myndin gerist að stærstum hluta í hausnum á Joel – en það er fullt af raunverulegum atburðum, vitaskuld sumum skökkum og skældum eins og í öllum okkar minningum. Hann er að berjast við að muna. Hún líka, þótt þetta gerist í hausnum á Joel eru þau bandamenn – og auðvelt að ímynda sér speglaða sögu úr huga Clementine nokkrum nóttum fyrr.
Þetta er sannkölluð veisla fyrir hugmyndaríkann kvikmyndagerðarmann eins og Michel Gondry og stórkostlegan klippara eins og Valdísi Óskars; að mála minningar um ástarsamband öllum þeim litum sem hentar út frá tilfinningunni, að leyfa bókstaflega atburðum að leysast upp, tortímast, renna saman – og allt á þann göldrótta hátt sem er aðeins mögulegur ef þú forðast ódýrar tölvubrellur.
Við finnum hvernig ástin býr í minninu, hvernig hún nærir það og minnið nærir ástina. En við finnum líka hvernig minnið er ekki bara hlutir sem við munum, huglægt, heldur ekki síður tilfinningar og vitneskja sem er djúpt, djúpt undir allri okkar praktísku vitneskju, öll bernskutrámun og bernskugleðin sem gerir okkur að þeim manneskjum sem við urðum.
Og þótt ég hafi séð myndina margoft síðan ég sá hana fyrst var orðið dálítið langt síðan. Nógu langt til þess að minnið metur ýmislegt öðruvísi, skilur margt upp á nýtt.
Ég hef til dæmis horft upp á nákominn missa minnið, hægt og rólega. Fundið hvernig það þýðir ekki bara að muna ekki innkaupalista eða minnisatriði, heldur að það verður alltaf erfiðara og erfiðara að muna sjálfan sig, sinn innri kjarna, þú ert alltaf staddur í heilanum á Joel, þar sem það er sífellt verið að tortíma minningum, þetta er eilíf barátta sem þú tapar alltaf. Sem við töpum öll á endanum. Og jafnvel það sem þú manst ennþá, það er fast þarna inni, þú ert fastur inni í sjálfum þér og minningarnar þínar með þér.
Og þótt ég hafi ekki hitt Clementine þá hef ég hitt Lísur og Nínur og Michelle og fleiri stelpur sem er ómögulegt annað en að raula nöfnin þeirra í lögi og hugsa með sér; öll mannanöfn eiga skilið gott dægurlag.

Svo er saga Mary (Kirsten Dunst) af einhverjum ástæðum orðin enn sannarri og raunverulegri. Hún er uppljóstrari sögunnar og um leið tragísk hetja hennar. Hún verður ástfangin, aftur, af lækninum sem hafði sannfært hana um að tortíma minningunum um samband þeirra úr minninu. Hann er miklu eldri – og sú staðreynd að hann getur bókstaflega spilað með minnið hennar dýpkar enn valdaójafnvægið – en Dunst vinnur einfaldlega leiksigur og kjarnar myndina óvænt þegar hún ráðvillt áttar sig á öllu saman og áttar sig á því, að hversu sárar og vondar sem þessar minningar kunna að vera, þá saknar hún þeirra samt og veit að hún verður aldrei heil án þeirra.
Ég hugsaði líka meira um hvernig ég myndi nota þessa tækni, ef ég myndi nota hana. Væri ekki skynsamlegra að tortíma öllu sínu tráma í eitt skipti fyrir öll – og sjá hvort það myndi ekki duga til að losna við alla þessa komplexa sem halda endalaust aftur að manni í lífinu. Mig langar dálítið að sjá þá mynd núna. Þessi snertir vissulega á því, Joel reynir að forða sér aftur í æskuna – það er líklega þess vegna sem hann, einn í hinum vestræna heimi, kannast ekki við lagið um Clementine – það er núna horfin bernskuminning. En um leið má velta fyrir sér hvort það þyrfti ekki að grisja vel í bernskunni til að gera svona aðgerð almennilega; hver veit nema þar megi finna andlega eða útlitslega tvífara Clementine, sem og jákvæðu minningarnar sem valda því að hann heillast strax af lífsglöðum bókabúðastelpum með síbreytilegan háralit sem líta út eins og gellan úr Titanic?
Loks áttaði ég mig á að ég hafði framkvæmt svona aðgerð á sjálfum mér í millitíðinni, nánast án þess að taka eftir því. Ekki bókstaflega vitaskuld, en við gerum ósjaldan akkúrat þetta til þess að komast af, komast yfir áföll, stundum, stundum bara til að fúnkera áfram í lífinu, taka næsta skref – og örugglega oftar en ekki af því lærðum vitlausar lexíur á leiðinni, þar sem bernskutrámu rákust á fullorðinsdrama og lífið ýmist rættist og klúðraðist á víxl. Við getum kallað þetta bælingu, við getum talað um tímann að lækna sár. En allavega, ég áttaði mig á að plottið var lúmskt svipað – enda er það galdurinn við myndina, sem er vísindaskáldsakpur sem virkar aldrei sem slíkur, af því sagan fjallar fyrst og síðast um allt það mennskasta sem við eigum, ástina og minnið, og tæknin minnir okkur bara á það sem við raunverulega alltaf vissum.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Ég er farin út á vídeóleigu!