Ímyndaðu þér að þú sért í bandi sem er klassískt one-hit-wonder. Og þessi eini smellur var kannski ekkert svakalega stór. En lagið er gott, þótt ákveðnir eitís synþastælar dragi það stundum aðeins niður.

En svo, aldarfjórðungi síðar, þá kemur ábreiða – ekki sú fyrsta og alls ekki sú síðasta – en ný útgáfa sem er svo miklu betri að allar aðrar útgáfur falla í skuggann, líka sú upprunalega. Þetta eru sumsé örlög bresku hljómsveitarinnar Korgis, sem gáfu út lagið „Everybody’s Got To Learn Sometime“ árið 1980 – og ýmislegt fleira, en ekkert sem öðlaðist viðlíka vinsældir.

En svo leikstýrði Michel Gondry Eternal Sunshine of the Spotless Mind og fékk Beck til að syngja lagið – og það verður seint betur flutt.

Lagið heyrist þegar kreditlistinn byrjar – þegar 17 mínútur eru liðnar af myndinni – og við sjáum Joel berja höfðinu við stýrið, klökkur. Þarna er forspilið á myndinni, sem er um leið endirinn, að ljúka og við erum að nálgast upphafið.

Laglínan er einföld – fyrst: breyttu hjartanu, líttu í kringum þig. Fyrst og fremst er svo aðallaglínan endurtekin í sífellu – og hún er merkilega göldrótt í réttu samhengi. Við þurfum öll að læra einn daginn – og það er eitthvað við þá pælingu að þetta taki tíma, þetta sé ekki eitthvað sem lærist strax í barnaskóla eða jafnvel háskóla, þarna er sungið einhverja sára lexíu sem stundum getur tekið hálfa eða heila ævina til að læra almennilega.

Lagið smellpassaði líka við ástarsögu Clementine og Joel – og er sjálfsagt í hugum flestra ástarballaða, en það var þó aldrei ætlun höfundarins, James Warren, söngvara og bassaleikara Korgis. Hann hefur rifjað upp að á þessum árum var hann á kafi í nýaldarfræðum um að finna sjálfan sig og verða betri maður, hugleiðslu og slíku. „Lagið kom þaðan. Þetta var aldrei hugsað sem rómantískt lag. Fyrir mér snérist þetta um að einstaklingurinn breytist og verði öðruvísi manneskja – reyni að finna rót síns innri óróa og verða betri manneskja eftir þá baráttu.“

En það er auðvitað kjarni myndarinnar líka, ekkert síður en ástarsagan – stundum ertu bara með einhvern með þér í að skora trámatíska dreka fortíðarinnar á hólm, og í tilfelli Joel þurfti hann líklega Clementine með sér í þann slag.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson