Kófið kom misvel við okkur. Fyrst var einhverjum huggum að allir væru á sama báti – en þegar á leið áttuðum við okkur á að það undirstrikaði bara hversu vel eða illa við vorum sett. Sumir bjuggu í stóru húsi með stóran garð, aðrir í litlum herbergiskytrum. Skyndilega var hvergi undankomuleið frá lífinu sem þú áttir akkúrat þá stundina. Og jafnvel þótt möguleikinn á að klifra upp úr einni stétt í aðra sé meiri og meiri tálsýn á þessum síðustu og verstu var það samt ennþá mögulegt – og jafnvel ef það var ómögulegt þá gastu farið á næsta bar og fengið jafnstórt borð og næsti maður. Tja, ef þú áttir efni á bjórnum.

En skyndilega vorum við föst – eins og Rilke forðum daga, sem orti svo fallega um kófið:

Sá sem á ekkert hús mun ekkert hús byggja

sá sem er einn mun áfram vera einn

mun vaka, lesa og skrifa löng bréf

og þvælast upp og niður blindgötur

eirðarlaus, á meðan laufin fjúka

Þessi þunglyndislegu orð hljóma í útvarpinu í upphafi Synechdoche, New York – og aðalpersónan finnur að hann er alveg jafn fastur og ljóðmælandi Rilkes, jafnvel þótt enn séu tólf ár í kófið.

Frægasta ljóð úr myndum Charlie Kaufman er þó vitaskuld það sem Eternal Sunshine of the Spotless Mind sækir titil sinn til, ljóðið um Elóísu og Abelard. Það er göldrótt að hlusta á Kirsten Dunst lesa fyrir okkur brot úr ljóðinu, um að gleyma heiminum og vakna með bjartan og flekklausan huga.

En það er sitt hvað fleira í þessu langa ljóði sem á ágætlega við Joel og Clementine. Abelard og Eloísa var svo sannarlega skapað að skilja, þeim var stíað í sundur af fjölskyldu Elóísu á hinum myrku miðöldum og Abelard geldur – og bæði gengu þá í klaustur. Löngu seinna kviknaði ástin aftur í gegnum bréfaskriftir, en á endanum ákváðu þau þó bæði að láta kyrrt liggja, þau eyddu í raun ævinni í að gleyma hvort öðru, með misgóðum árangri.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson