Við lifum á guðlausum tímum, allavega á vesturlöndum, og það birtist ágætlega í bíómyndum, þar sem myndir sem bókstaflega fjalla beint um kristni eða aðra trú verða sífellt sjaldgæfari – myndir sem voru Hollywood-stórmyndir langt fram yfir miðja síðustu öld.

Kristin minni má vissulega finna víða, þótt það sé mjög mis-djúpt á þeim, sem er eðlilegt fyrir menningarheim þar sem kirkjan var miðlæg öldum saman. En í Ameríku eru kristnar myndir orðin sérstök gerð b-mynda á jaðrinum, fá sitt trausta áhorf en komast sjaldnast í fjöldadreifingu, enda flestar gerðar af meiri trúarsannfæringu en hæfileikum. Það gerðist þó í kófinu að íslensk bíóhús urðu það örvæntingarfull að þau tóku eina svona mynd til sýninga, sem sýnir hversu alvarlegt ástandið er orðið – já, og hversu heitt og innilega íslensk keðjubíóhús fyrirlíta listrænar myndir, að þau hafi álitið þetta Biblíubeltisbíó skárri kost.

Þetta er vissulega ekkert slæm þróun fyrir okkur trúleysingjana – en það breytir því þó ekki að það má gera forvitnilegar myndir um trúmál frá ýmsum hliðum. Ein sú eftirminnilegasta er hin fransk-kanadíska Jesus de Montreal, um leikhóp sem ætlar að setja upp píslarsöguna – en lenda svo í því að píslarsagan fer að spegla líf leikara-Jésúsins meira og meira. Og já, hana má finna í heild sinni á Þúskjás-hlekknum hér fyrir neðan.

En fyrir einkennilega tilviljun tókst mér sumsé að ramba á tvær ansi magnaðar myndir með kristilega tengingu sama daginn á kvikmyndahátíðinni Febio-fest hér í Prag. Þær voru báðar frá gömlu Austur-Evrópu – og líklega er kirkjan ennþá töluvert miðlægari sums staðar í austrinu en í vestrinu, þótt það sé sannarlega ekki einhlítt (Tékkland er til dæmis langsamlega trúlausasta land álfunnar).

Rilke og kross konunnar

Við byrjum þennan kristilega bíódag með kveðju frá makedónsku leikstýrunni Teona Strugar Mitevska. Hún sendir okkur myndband og harmar það að geta ekki verið á staðnum – en hún sé heima í Skopje með pabba sinn í heimsókn, þau voru að enda við að drekka tyrkneskt te og tala um Rilke. Eins og maður gerir þegar maður er veirutepptur í heimsfaraldri. Fyrri mynd Mitevsku var vel að merkja mögnuð, einhver myrkasta og óþægilegasta mynd sem ég hef lengi séð. Hún hét Þegar dagurinn bar ekkert nafn (When the Day Had No Name) og var innblásturinn úr fréttunum, sex makedónsk ungmenni sem fundust látin úti í skógi. Það fékkst engin niðurstaða í málið, en það var leikstýrunni innblástur til þess að gera mynd um týnda kynslóð, kynslóð sem varð atvinnuleysi og skorti á alvöru framtíðarhorfum – og þar með draumum – að bráð.

En frá Skopje förum við svo í makedónskt krummaskuð. Þar býr Petrúníja og er lítt hress þegar mamman færir henni matinn í rúmið, hún er enn undir sæng – sængin er hennar virkisveggur gegn heiminum. Fyrst heldur maður að hún Petrúníja sé bölvaður auðnuleysingi – enda er það dómur móðurinnar og allra í kringum hana (nema pabbans, sem er ólíkt skilningsríkari) og hún uppfyllir einfaldlega allar klisjurnar um auðnuleysingja í skáldskap, er í yfirvigt og sefur fram eftir. Enda er mamma hennar að vekja hana fyrir atvinnuviðtal og það liggur í loftinu að hún sé aldrei að fara að fá þessa vinnu.

En þegar á líður komumst við að því að hún er sagnfræðimenntuð og útskriftaðist með toppeinkunnir og ástæðan fyrir því að hún er atvinnulaus er út af því vinnuveitendur áreita hana kynferðislega í atvinnuviðtölum og niðurlægja hana og það virðist einfaldlega enginn bera virðingu fyrir konum með menntun í þessu samfélagi. Fyrir utan að atvinnuleysi í massavís eru einfaldlega örlög þessarar kynslóðar í Makedóníu.

En það liggur í loftinu að Petrúníju sé ætlað eitthvað meira, eða öllu heldur: það liggur í titlinum. Guð er til og hún heitir Petrúníja. Á leiðinni heim rekst hún á kyndugt samansafn fáklæddra ungra manna – sem eiga það sameiginlegt að stefna að því að grípa heilagan kross sem æðstipresturinn kastar í ánna á hverju einasta ári. Þetta virðist vera aldagömul hefð, sem er svosem ekki útskýrð í smáatriðum, þótt krossinum fylgi sannarlega einhver upphefð og gæfa – en hingað til hafa aðeins karlmenn hreppt þennan kross.

Nema hvað, þegar á brúna kemur grípur Petrúníju skyndileg þörf til að hætta að vera ósýnileg, að fá að vera með – þannig að hún stekkur út í ánna og grípur krossinn fyrst allra. Hún kemst við krappan leik heim en á endanum hefur lögreglan upp á henni og boðar í skýrslutöku. Málið er hins vegar þetta: Petrúníja hefur ekki framið neinn glæp, þótt hún hafi storkað aldagömlum hefðum. Alls konar prinsipp stangast á á lögreglustöðinni. Presturinn er ágætt dæmi – hann vill að Petrúníja skili krossinum en neitar hins vegar að bera ljúgvitni – að áeggjan lögreglunnar – um að hún hafi stolið honum, sem er það sem þyrfti til að lögreglan geti tekið hann af henni.

Á endanum þurfa þeir því að sleppa henni – en meira að segja það reynist ómögulegt, því úti bíður æstur múgur hennar – æstari og fjölmennari en svo til að fámenn sveitalöggan ráði við. Eða vilja kannski bara ekki takast á við?

Inn í þetta blandast svo mjög hressileg fréttakona sem er bæði annt um málstað Petrúníju og sér þetta sem stóra skúbbið sem komi henni til Skopje – og úr þessu eldfima ástandi verða til alls konar mannlífsstúdíur þar sem mismunandi lífskoðanir og persónuleikar takast á á lítilli lögreglustöð í sveitinni.

Hressi pólski presturinn

Frá makedónsku krummaskuði höldum við svo norður í pólskt fangelsi. Daniel situr inni fyrir morð og í blábyrjun skal ég viðurkenna að ég upplifði Corpus Christi (eða Boże Ciało upp á pólsku) sem örlítið klisjukennt fangelsisdrama, en myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda mynd núna í vor (og er líklega þriðja í gæðaröðinni þar, á eftir Sníkjudýrunum kóresku og Les Miserables).

En í fangelsinu spila messur og kristinfræði stórt hlutverk, enda Pólland kristnasta land Evrópu – og er þar raunar í sérflokki. Það er prestur á staðnum og Daniel verður fljótlega uppáhald klerksins sem messar yfir strákunum, enda getur hann sungið eins og engill. Daniel er þar að auki fljótur að kynna sér ritninguna og er almennt góður nemandi. Hann dreymir um að komast í háskóla en fortíð hans gerir þann draum ómögulegan – þess í stað fær hann reynslulausn og vinnu í sögunarmyllu hinum megin í Póllandi. Nema hvað, þegar hann er rétt ókominn á áfangastað þá hittir hann huggulega stelpu í kirkju nokkurri og er í miðju kafi að daðra við hana þegar hann segir, augljóslega í gríni, að hann sé prestur. Hún trúir honum ekki, en þegar hann dregur upp prestskraga sem honum hafði áskotnast ólöglega trúir hún honum skyndilega og sækir prestinn.

Presturinn trúir líka kerknislegri lyginni – og býður honum gistingu. En málin flækjast þegar presturinn verður alvarlega veikur – og Daniel er beðinn um að leysa af. Og nú kemur sér vel að hafa fylgst vel með í kristnifræðslunni. Daniel les samt í Biblíunni fram á morgun fyrir fyrstu messuna – en á endanum bjargar honum ekki síður að hann kann að spinna, hann er nánast eins og rapparaprestur – andsetinn af réttlætiskennd og orðkynngi og frístælar messu eftir messu.

Hér er kannski rétt að minnast á að róttæki og líbó pólski presturinn er standard-persóna í pólskum bíómyndum þessi misserin – prófið bara að taka stikkprufur, þið eruð ekki að fara að finna margar prestlausar pólskar myndir sem gerðar hafa verið síðasta áratuginn. Það kemur fyrir að presturinn er skúrkurinn eða bæjarfíflið, eins og í sumum myndum Agnieszku Holland og Malgörzötu Szumovsku. Stundum er hann gamall fjölskylduvinur, stundum er hann gamall skólafélagi og jafnaldri sem fór aðra leið í lífinu en aðalpersónan. Þannig er pólsk bíóhetja ekki að fara að hitta félagann á næsta kaffihúsi þegar hann þarf að létta á hjarta sínu, nei, hann er að fara á trúnó með prestinum vini sínum.

Skyndilega er hins vegar þessi staðlaða aukapersóna orðin aðalpersóna – fyrir utan auðvitað þetta litla smáatriði, hann er ekki prestur í alvörunni. Hann tekur hins vegar hlutverk sitt alvarlegar en flestir alvöruprestar, er sál og samviska bæjarins – sem aflar honum vinsælda, en þó um leið tímabundinna óvinsælda þegar hann fer að grafa óþarflega djúpt í leyndarmál sveitarfélagins.

Þá flækjast málin vitaskuld – og sömuleiðis þegar gamlir kunningjar fara að knýja dyra. Það sem er samt kannski forvitnilegast við myndina er hvernig hún birtir sannfærandi mynd af hversdagslífi presta, frá sjónarhóli einhvers sem er einmitt að reyna að venjast slíku hversdagslífi og þykjast vera kunnugur því. Þarna liggur kannski galdurinn í þessari klassísku sögu, af loddaranum sem þarf óvænt að sinna starfi sem hann er ekki tæknilega séð hæfur til, í gegnum hann uppgötvum við hversdagslegri hliðar starfsins, sem og það hvernig það er að standa bak við púltið og þurfa að flytja orð drottins.

Eins sýnir myndin hvernig presturinn getur verið jafnt sálusorgari og samviska samfélaga – en einnig hvernig sá gamli, jafn viðkunnalegur og kammó og hann virtist vera, virðist hafa brugðist þessu hlutverki. Einfaldlega af því það getur verið erfiðara en oft virðist að breyta rétt. Sömuleiðis birtist okkur vafasamt kennivald kirkjunnar í því hvernig allir fara skyndilega að hlusta á hvert orð sem Daniel segir – strákur sem hingað til hefur alist upp við að á hann sé aldrei hlustað.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson