Þú ert að verða fertug og lífið er ekki eins og það átti að verða. Einu sinni varstu efnileg, en sú útgáfa af þér hvarf fyrir ótal kílóum og níu árum síðan, þessi útgáfa af þér sötrar megrunardrykki af miklum móð, sem skilar álíka miklum árangri og baráttan við að koma list þinni á framfæri.

Þú býrð í New York, í pínulítill íbúð þar sem þú býrð þig undir að takast á við enn einn daginn. Þar sem þú kennir hortugum nemendum sem hæðast að þér fyrir að hafa ekki meikað það, á milli þess sem umboðsmaðurinn þinn reynir að koma þér á framfæri við hvíta leikhúsfrömuðinn sem vill breyta leikritinu þínu í fátæktarklám.

Velkomin í heim Rödhu Blank, leikstjóra, handritshöfundar og aðalleikkonu The Forty-Year-Old Version. Þetta er sjálfsævisögulegt – þótt maður viti aldrei fyrir víst að hve miklu leyti; fljótlegt gúgl um feril Blank sýnir manni að hún hefur notið öllu meiri velgengni en skáldaða útgáfan, en það er ekki þar með sagt að tilfinningin geti ekki verið nokkuð eins – að vera ekki nóg. Að vera ekki listamaðurinn sem þig dreymdi um að vera, manneskjan sem þú ætlaðir þér að vera, sú sem yngri útgáfan af þér heimtar – óafvitandi um hraðahindranir fullorðinsáranna.

Þetta hljómar allt saman nett niðurdrepandi – en er það samt alls ekki, af því The Forty-Year-Old Version er jafn skemmtileg og fyndin og hún er hugrökk og hrá, harmræn og berskjölduð. Og satt best að segja mjög hressandi og upplífgandi fyrir þau okkar sem skynjum okkur í svipaðri stöðu og Radha, upplifum höfnun, fáum ekki listamannalaun eða stóra breikið, þið þekkið þetta.

Þetta er mynd um ströglið, um blankheitin (já, eftirnafnið Blank fer henni skemmtilega vel) og draumana sem hafa ekki ræst ennþá. En líka um hvernig það er ennþá tími til stefnu til þess að láta þá rætast – og kannski tímabært að taka óvænta u-beygju. En hvaða u-beygju?

Umboðsmaðurinn hennar reynir að fá hana til að svíkja listagyðjuna og ganga í björg með leikhúsfrömuðnum sem vill afskræma verkið hennar, á meðan hún sjálf fær skyndilega endurnýjaða ástríðu fyrir rappi – en hún hafði rappað af miklum móð á unglingsárum áður en hún lagði rímið á hilluna. En núna lætur rappdívan RadhaMUSprime aftur á sér kræla.

Þetta virðist vera barátta á milli hugar og hjarta – en reynist aðallega vera spurning um að finna eigið hugrekki.

Hún finnur líka sjálfa sig í nokkrum yngri útgáfum. Krakkarnir sem hún kennir eru stórskemmtilegur og líflegur hópur, en sannarlega erfiður. Þau kunna flest að meta hana – nema einmitt hæfileikaríkasti nemandinn, stúlka sem kann augljóslega að fara með orð – og kann líka að láta þau stinga. Þannig verður þessi efnilega stúlka spegil á Rödhu, staðgengill hennar táningssjálfs að áminna hana að hún sé ekki að uppfylla eigin væntingar. Á sama tíma er unglingsstúlkan efnilega að reyna að sanna sig – og um leið áttar hún sig á að Radha hefur hæfileika, ekki síður en hún; Radha er óþægileg áminning hennar um að hæfileikarnir einir og sér eru ekki endilega nóg til að láta draumana rætast.

Þetta er samt ekki Dangerous Minds, krakkarnir eru mjög skemmtileg – en þetta er ekki mynd um þau, þau eru í aukahlutverki, bara brot af margbrotnu lífi kennarans. Sem er skemmtileg tilbreyting – en að því sögðu væri ég alveg til í Dangerous Minds: The Radha-Blank-Version.

Myndin nær líka hárfínu jafnvægi í því hvernig þetta er fyrst og fremst saga einnar konu, en gefur samt ótal öðrum persónum pláss til að láta ljós sitt skína. Heimilislausi maðurinn á horninu er kostulegur sem og kjaftfor nágrannakonan, bestur af öllum er samt Peter Kim sem umboðsmaðurinn Archie. Hann vill henni vel, er hennar besti vinur – og fyrrum kærasti. Þau fóru saman á skólaball „þegar ég var ennþá mjó og þú varst ennþá í skápnum.“ Þannig snýr hann vafasömu umboðsmannastaðalmyndinni skemmtilega á haus – og er líka bara endalaust skemmtilegur og sjarmerandi. Það er samt eins og þau þurfi aðeins að endurnýja vinskapinn, taka gott trúnó, þau eru að tala saman á hlaupum, þau vantar núllstillinguna, að líta saman inná við í staðinn fyrir að stuða hvort annað ítrekað.

Eitt kvöldið brýst beiskjan og svekkelsið svo út í rótsterku rappi – og skyndilega finnur hún að þarna er listagyðjan að senda hana á nýjar slóðir. Sem hún þarf að elta – og eftir að hafa loks náð áheyrn færasta bít-skálds hverfisins þá fara hlutirnir að gerast. Hann heitir D, virðist í fyrstu nánast mállaus, en þegar á líður muldrar hann stöku sinnum – og enn frekar þegar hann áttar sig á hversu góð Radha er. Hann er gegnheill og þarf ekki að þykjast neitt, en hann heillast af Rödhu – en hugrekkið dugar henni ekki alla leið, allavega ekki í fyrstu atrennu – og þegar hún mætir andstreymi í rappinu er hún fljót að flýja í leikhúsið og kennsluna aftur.

En D gefst ekki upp, þarna er komin enn ein spegilmynd hennar yngra sjálfs, en þessi sér hvað hún getur, þetta er álíka hæfileikaríkur listamaður sem er laus við komplexana sem Radha er með og vill einfaldlega hjálpa henni – og gott ef hann er ekki smá skotinn í henni líka.

Hann spyr hana af hverju hún gangi alltaf um með þessa skuplu á hausnum. Henni verður svara vart – en jú, það varð bara að vana. En þarna byrjar manni að vitrast að þetta er hennar leið til að undirstrika að henni finnst hún sé að verða ósýnileg, hún trúir því ekki að neinn sjái hana lengur, skuplan er bara til að undirstrika það. Hún verður ósýnileg öðrum og þar með sjálfri sér líka, sér ekki eigin væntingar og drauma skýrt lengur. Og trúir því varla að hann sjái hana.

Þetta er mynd um að hverfa með aldrinum, hverfa sem kynvera, hætta að fá fólk til að líta við þegar þú labbar fram hjá – en um leið staðfesting á að það er ekki náttúrulögmál, og það þarf ekki stranga megrun eða fegrunaraðgerðir til að breyta því – það þarf bara attitjúd, og þegar hún finnur gamla attitjúdið aftur tekur fólk svo sannarlega eftir henni.

Þetta er líka mynd um sorg. Hún hefur tiltölulega nýlega misst móður sína og það læðist aðeins aftan að manni hversu miklu máli það skiptir fyrir söguna, hún þarf að finna aftur hugrekkið sem móðirin veitti henni, hugrekkið sem móðurfaðmurinn og viskan veitir.

Og auðvitað er þetta mynd um að vera svört miðaldra kona. Kona umkring hvítum köllum sem eru hliðarverðirnir, af því þeir eiga peningana og ráða hvað er sýnt og hvað ekki. Við sjáum leikrit með viðbrögðum bæði hvítu góðborgaraáhorfendanna og þeirra svörtu, hlæjum að þeim hvítu og fattlausu – en við bleiknefjarnir áttum okkur um leið á því að við höfum örugglega verið í þeirra hlutverki einhvern tímann.

Blank hefur líst því stolt yfir að titillinn sé menningarnám, þarna sé vísað í titilinn á mynd Judd Apatow, The 40-Year-Old Virgin. Sannleikurinn er þó sá að hún er mun skyldari hinni fertugs-mynd Apatows, hinni angurværu og vanmetnu This is 40, en á sér líka rætur í gömlum svart-hvítum myndum Spike Lee og Jim Jarmusch, sem og jafnvel Clerks, það er eitthvað líkt með húmornum – kannski er þetta myndin sem Kevin Smith hefði gert ef hann hefði einhvern tímann þroskast? Myndin minnir mann aðeins líka á Guð er til og hún heitir Petrúníja, að því leyti að myndin virðist í upphafi ætla að birta mynd af auðnuleysingja, stórgerðri konu sem virðist strand í lífinu – en sýnir okkur svo að við höfum vanmetið hana, eins og heimurinn er gjarn á að vanmeta miðaldra konur sem passa ekki í þröng hólf framakonunnar.

Þetta er samt fyrst og fremst svart-hvítur og gullfallegur óður til listanna allra, til borgarinnar, til nágrannana, til strögslins, til þess að lifa þetta kóf af og skapa eitthvað fallegt.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson