Louise Glück er nýbakaður Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum. Glück er amerísk skáldkona sem fæddist í New York árið 1943, var lárviðarskáld Bandaríkjanna fyrir sextán árum og vann Pulitzer-verðlaunin árið 1993. Samt virtist koma flatt upp á flesta að hún skyldi vinna Nóbelinn.

Eins og oft vill verða eru ákveðið rof á milli þess að lesa um hana og að lesa sjálf ljóðin; sú mynd sem flestar greinar birta af henni er sem þunglynt játningaskáld með áhuga á grískri goðafræði. Og jú, jú, það má finna játningar hér og þar – en harmurinn er ekkert meiri en gengur og gerist hjá mörgum öðrum ljóðskáldum og þótt stöku ljóð virki eins og persónulegar játningar þá er þetta ekki eitt af þeim skáldum sem þér finnst þú vera kominn á trúnó með þegar þú ert búinn að lesa nokkur ljóð.

Það ljóð sem það á kannski best við um er þó Visitors From Abroad. Þetta Abroad eru ekki útlönd, þau koma að handan, foreldrar og látin systir – þetta er ansi magnað draugakvæði með einni stórkostlegri línu: „Every time I say “I,” it refers to you.“ Ég er þú, ég er þið. Seinna finnum við hana í kirkjugarði, aftur er einhver óræður draugagangur á ferð, og járnbraut með járnbrautarverði sem gæti verið dauðinn sjálfur, í ljóðinu Aborignal Landscape. Þessi draugalegu ljóð eru þó frekar sorgleg en ógnvænleg, enda snýst raunverulegur draugagangur meira um sorgina en óttann. Þó eru Drukknuðu börnin meiri hrollur, ljóðið sem hún var skömmuð fyrir, sökuð um að hata börn, enda ljóðið eins og ort í orðastað morðingja – en varla samt mennsks morðingja, meira eins og í orðastað vandræðavatnsins, sem finnur þann tilgang í börnum að drekkja þeim.

Skáldverk, eða A Work of Fiction, byrjar sakleysislega. Ljóðmælandi lýsir því hvernig er að kveðja skáldsagnapersónur eftir margar síður og margar nætur. En svo fer hún út og kveikir sér í sígarettu – og sígarettan verður að stjörnu á himnafestingunni. Tortímir henni, en ólíkt stjörnunum er þessi glóð núna inni í henni, þar sem stjörnurnar geta aldrei verið.

A Work of Fiction

As I turned over the last page, after many nights, a wave of sorrow enveloped me. Where had they all gone, these people who had seemed so real? To distract myself, I walked out into the night; instinctively, I lit a cigarette. In the dark, the cigarette glowed, like a fire lit by a survivor. But who would see this light, this small dot among the infinite stars? I stood a while in the dark, the cigarette glowing and growing small, each breath patiently destroying me. How small it was, how brief. Brief, brief, but inside me now, which the stars could never be.

Seinna komum við að Krossgötum, hittum við fyrir aldraðan ljóðmælanda, sem yrkir til líkama síns. Sorgmædd yfir því sem hún og líkaminn hafa misst – en trúir svo líkamanum að endanum fyrir því að það sé hann sem hún muni sakna, ekki heimsins, bara þessa hylkis sem hafði ferjað hana um heiminn.

Crossroads

My body, now that we will not be traveling together much longer

I begin to feel a new tenderness toward you, very raw and unfamiliar,

like what I remember of love when I was young —

love that was so often foolish in its objectives

but never in its choices, its intensities

Too much demanded in advance, too much that could not be promised —

My soul has been so fearful, so violent;

forgive its brutality.

As though it were that soul, my hand moves over you cautiously,

not wishing to give offense

but eager, finally, to achieve expression as substance:

it is not the earth I will miss,

it is you I will miss.

Í Móðir og barn, eða Mother and Child, sér móðirin samband sitt við barnið sem vísindaskáldskap, sem samband verskmiðju og vöru – og barnið spyr: „Til hvers er ég?“ Eða öllu heldur, móðirin segir henni að spyrja. Stuttu áður hafði móðirin þó svarað þessu sjálf: „Þú kemst í þennan heim til að þagga niður í mér.“

Stundum er hún fyrst og fremst sögumaður minninga, eins og í Midsummer og Nocturne. Goðafræðin kemur vissulega stundum við sögu, oft sem litlar vísanir, en virka best þegar hún er einfaldlega mætt við strendur Tróju að lýsa hugarheimi hermanna sem langar ekki aftur heim eftir langt stríð í Parable of the Hostages.

Hún segir okkur líka að þrátt fyrir alla hennar orðkynngi, þrátt fyrir allar hennar gáfur, ættum við ekki að treysta henni. Hún sé Hinn ótrausti mælandi, The Untrustworth Speaker, vegna þess að „hjartasár er líka heilasár.“

Glück er sjaldnast neinn skemmtikraftur – en hún getur samt alveg verið fyndin, svona einstöku sinnum. Eins og í Dawn, þar sem önd verður skeiðin í The Matrix:

Child waking up in a dark room

screaming I want my duck back, I want my duck back

in a language nobody understands in the least —

There is no duck.

Og til að halda okkur við Keanu Reeves vísanirnar, þá minnir ljóðið Dead End örlítið á glímu þeirra Bill & Ted við dauðan sjálfan.

Ástarljóðin eru sum líka frekar gamansögur en rómönsur, eins og um svanaparið sem sameinast í sjálfhverfu sinni og konuna sem hatar kynlíf, að því kossar mannsins loka munninum og þungi hans er kæfandi – þetta síðara ljóð er á einhverjum óþægilegum mörkum kómíkur og hryllings, það er óvíst hvort hún meini orðið kynlíf sem slíkt, en ekki eitthvað verra.

I hate them as I hate sex,

the man’s mouth

sealing my mouth, the man’s

paralyzing body—

Almennt finnst mér hún ekki mjög sterk í náttúrumyndum, en samt, stundum, finnur hún einfaldleikann í þeim. Eins og í Álmtrjánum, sem munu ekki búa til nein form, önnur en kræklótt, brengluð.

Og á hún Nóbelinn skilið? Ég er ekki viss, ég satt best að segja held ekki; það eru of mörg ljóð sem ég fann í þessu grúski sem eru alltof flöt, alltof fyrirsjáanleg – en þau eru samt flest fyrir aldamót, það eru einhver skil í kringum árið 2000, ljóðin verða skarpari, hugmyndaríkari, óvæntari.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson