Af hverju ætlið þið að horfa á nýju Borat-myndina, ef þið eruð ekki þegar búin að því? Má ég giska? Af því þið fíluðuð fyrstu myndina? Af því þið viljið sjá hvernig Borat passar inn í Ameríku Trumps? Af því þið viljið sjá Rudy Guilliani gera sig að fífli? Af því þið eruð að vinna ítarlega samanburðarrannsókn á kasakstanskri menningu í Borat og í Kasakstan sjálfu?

Allt prýðilegar ástæður – en samt, ekki ástæðan fyrir því að þið ættuð að sjá myndina. Ástæðan fyrir því að þið ættuð að sjá Borat Subsequent Moviefilm: Delivery of Prodigious Bribe to American Regime for Make Benefit Once Glorious Nation of Kazakhstan er einföld – hún heitir Tutar. Og myndin ætti eiginlega að heita Tutar líka.

Tutar er fimmtán ára dóttir Borats, leikin af Mariu Bakalovu, búlgarskri leikkonu sem á skilið öll verðlaun í heiminum fyrir þetta hlutverk. Og ég er að segja ykkur þetta núna, af því myndin verður svo miklu, miklu betri ef þið skoðið hana út frá Tutar, ef þið áttið ykkur á að þetta er hennar saga, miklu frekar en saga Borats.

Borat veit vel að merkja ekki að tilvist Tutar í upphafi myndar. Við hittum okkar gamla blaðamann fyrst fyrir í kasakstanska gúlaginu, þar er hann búinn að vera í fjórtán ár – og þetta miðalda-Kasakstan er andskoti skemmtilegt helvíti sem maður hefði alveg viljað vera lengur í. En þegar hann sleppur úr haldi og kemur aftur heim þá hittir hann alla sína syni – sem allir afneita honum. Baka til finnur hann svo Tutar í búri, fimmtán ára villibarn sem er uppnefnd „elsta ógifta konan í Kasakstan.“

En þótt Borat vilji ekkert með hana hafa í upphafi eltir hún pabbann auðvitað til Ameríku – og hjarta myndarinnar er akkúrat þarna, þetta er stórfurðuleg en á sinn grófa hátt undurfalleg og drepfyndin mynd um samband föður og dóttur, vegamynd um feðginaferð um Ameríku.

Hitt stöffið er allt þarna líka, vissulega. Rudy Guilliani gerir sig að fífli, þegar kófið skellur á eignast Borat repúblikanavini sem eru furðu ljúfir á margan hátt, þótt þeir séu auðvitað snældugeðveikir. Og Borat er ennþá flinkur að láta fólk afhjúpa fordóma sína, en það er samt miklu minna atriði núna en áður. Og jú, endirinn kemur sannarlega á óvart – þetta er The Usual Suspects okkar daga, Kevin Spacey kemur meira að segja við sögu, en þarna er ég samt ekki að spoila neinu. Allra besta sena myndarinnar þar sem Tutar kemur ekki við sögu er svo þegar gyðingahatarinn Borat hittir tvær yndislegar gyðingafrúr í synagógu, sem taka honum opnum örmum og tekst, ólíkt flestum öðrum, að fræða hann aðeins um raunverulegt ástand heimsins og hvaða gildi raunverulega skipta máli. Myndin er raunar tileinkuð annarri þeirra, Judith Dim Evans, sem lést í sumar.

En þetta eru allt aukaatriði, fyrir utan gyðingakonurnar elskulegu – aðalatriðið er myndin sem dregin er upp af Tutar. Og ég skal játa að ég hugsaði á tímabili: þetta er frábær gamanmynd, en ólíkt flestum myndum Cohen væri hún fyrst og fremst það, frábær kjánaleg gamanmynd og óþarfi að leita að pólitískum skilaboðum frekar í Dumb & Dumber. En svo áttar maður sig á hversu lúmsk sú saga er í raun.

Tutar er nefnilega í fljótu bragði barn sem hvergi er til, að minnsta kosti ekki í okkar sæmilega upplýsta nútíma. Jafnvel í afturhaldsömustu samfélögum heims veit ég ekki til þess að stúlkubörn séu alin á jafn gölnum hugmyndum og Tatu er – og vissulega eru börn sums staðar í búrum, en sjaldnast í boði eigin fjölskyldu.

En það er samt einkennilegt sannleikskorn í þessum karakter. Hún er alin upp á hugmyndum síns eigin afturhaldssama samfélags og brenglaðra hugmynda sem þangað berast af amerískum poppkúltúr, sem getur stundum orðið mjög skringilegur og eitraður kokteill. Og maður sér alveg merki þessa sums staðar í gömlu Austur-Evrópu; Kasakstan Borats er sannarlega hvergi til, það mætti sjálfsagt frekar heita Syldavía, Bordúría eða Latvería. En það hvernig bolir allra landa smyrja amerískri lágmenningu, og þá er ég að tala um botnfallið, yfir á verstu hlutina í eigin kúltúr, það er eitthvað sem finna má víðast í ameríkaníseruðum heimi.

Tutar mætir til Bandaríkjanna með þær ranghugmyndir sem henni hafa verið innrætar – sem eru þó í fullkominni mótsögn við persónuleikann, hún trúir kannski ekki á frelsi kvenna ennþá, en hún er um leið að springa af frelsisþrá og berst hatrammlega fyrir sínu.

Þegar hún kemur til Bandaríkjanna gerist í raun tvennt; henni eru innrætt gildi ameríska fegurðariðnaðarins, þar sem villibarnið er dressað upp, sett í hársnyrtingu og litun og kennt að þóknast karlmönnum – en um leið kynnist hún ýmsum frjálsræðislegri hugmyndum, mest frá barnapíunni sem Borat ræður handa henni – um allt það sem konur geta og mega, eins og að keyra bíla, stunda sjálfsfróun án þess að verða étnar og dansa þjóðlega frjósemisdansa með pabba sínum. Þetta er í raun nánast eins og ýkt og drepfyndin þroskasaga femínisma, allt frá myrkum miðöldum til, tja, ansi ófullkomins nútíma. Og rétt eins og Borat eignaðist sannkallaðan föðurbetrung, þá eignaðist Rudy Guilliani einnig sannkallaðan föðurbetrung. Dæturnar munu sem betur fer erfa heiminn.

Og á þessu skrítna bíóári, þegar Óskarinn fór til kóreskrar myndar rétt áður en Hollywood hrundi (tímabundið?) og bíóiðnaðurinn lamaðist, er þá nokkuð alltof galið að láta sig dreyma um að næsta ár fari Óskarinn fyrir bestu leikkonu til Búlgaríu? Maria Bakalova á ekkert minna skilið.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson