Við sjáum Ameríku 1968. Við fáum svipmyndir af ótal byltingarmönnum, leiðtogum hins villta vinstris í þá daga, auk þess sem teiknuð er upp snöggsoðin aldarfarslýsing – meðal annars af herkvaðningu þar sem einstakir afmælisdagar eru dregnir út eins og í öfugsnúnu lottói.

Fyrir dyrum stendur landsþing Demókrata í Chicago – og þangað skal haldið að mótmæla, mótmæla stríði í Víetnam og mótmæla einum forsetakandídat Demókrata sem þeir hafa litla trú á að muni stöðva stríðið.

Þetta er blábyrjunin á The Trial of the Chicago 7. Skyndilega er hins vegar árið 1969 brostið á – Nixon orðinn forseti og mótmælin löngu yfirstaðin, við sjáum þau aldrei nema í endurliti þegar töluvert er liðið á myndina.

Þessi byrjun segir manni margt en er þó líka ruglandi, fyrir þá sem ekki þekktu mál Chicago-sjömenninganna fyrir (og þeir eru nú líklega ansi margir núna þegar atburðirnir eru orðnir meira en hálfrar aldar gamlir) þá er maður litlu nær þegar þeir eru skyndilega mættir í dómsal að verjast ásökunum um að hafa staðið fyrir óeirðum.

En um leið áttar maður sig á erindi leikstjórans Aarons Sorkins, hann birtir okkur hér tvístraða vinstrið, þessa eilífu endurtekningu þar sem misstór ágreiningsmál sundra einingu byltingarsinna, já, og stundum egóin líka.

Það verður snemma ljóst að þetta eru skringileg réttarhöld. Margir sjömenningana þekkjast lítið eða ekkert, þrátt fyrir ásakanir um samsæri þeirra, og það vekur athygli að sakborningarnir eru átta. Einn átti eftir að verða tekinn út fyrir sviga seinna – en þeir hafa í gegnum tíðina samt oft verið kallaðir áttmenningar, eða jafnvel tímenningar, þegar verjendurnir tveir eru taldir með.

En þetta leikrit snýst um að berja niður andspyrnu – og valið er sumpart handahófskennt en sumpart útsmogið. Þeir velja trúða svo þeir verði ekki teknir alvarlega, blökkumann úr Svörtu pardusunum til að hræða kviðdóminn og tvo sakleysingja til þess að kviðdómurinn hafi einhverja til að sýkna.

Allt þetta minnir ótrúlega mikið á íslenska samtíðasögu, nímenningana sem voru ákærðir fyrir að ráðast gegn Alþingi, þar sem sömuleiðis voru valdir ansi heppilegir blóraböglar á tilviljanakenndan hátt úr mun stærri hópi. Rétt eins og Chicago-sjömenningarnir hafa þeir fengið heimildamynd (Ge9n) – en það væri óneitanlega gaman ef þeir fengju líka leikna mynd einn daginn.

Saksóknarinn reynir að para þá alla saman: „róttæka vinstrið í mismunandi búningum,“ kallar hann þá – og minnir okkur um leið á hversu heitt Ameríka hatar vinstrið. Svona sér hægrið vinstrið – og gleymum ekki að upphafleg ástæða mótmælanna snérist gegn Demókrataflokknum, flokknum sem á að teljast vinstrisinnaðri af stóru flokkunum tveimur. En þeir eiga báðir sömu rætur – og sameinast báðir gegn villta vinstrinu. Og þótt mörgum þyki myndin (sem hefur lengi á leiðinni, Sorkin skrifaði handritið fyrir meira en áratug) smellpassa núna rétt fyrir kosningar, þá er þetta líka ákúra á flokkin sem valdi Biden fram yfir Sanders – flokk sem ítrekað forðast alvöru vinstri stefnu.

Sögulegir tímar sameina þó okkar tíma og þeirra – 2020 virðist líklegt til þess að keppa við árið 1968 í sögubókunum sem eitt eftirminnilegasta ár okkar samtíma. Í apríl 1968 var Martin Luther King myrtur, Bobby Kennedy hlaut sömu örlög í júní og mótmælin í Chicago komu í kjölfar beggja þessara atburða og ótal fleiri sem ekki eru nefndir í myndinni, eins og vorsins í Prag sem skriðdrekarnir völtuðu yfir daginn áður en mótmælin í Chicago hófust.

Byltingarstjörnur og stjörnuleikarar

Það er einvalalið leikara sem túlkar sjömenningana og aðra sem að réttarhöldunum koma – enda í raun stjörnufans róttækra byltingarsinna þess tíma. Þetta er um sumt eins og Avengers-mynd, að því leytinu til að hetjurnar okkar rífast út í eitt þótt þær eigi í grunnin sömu hagsmuna að gæta og berjist fyrir svipuðum hugsjónum. Vandinn er hins vegar að við fáum lítið að kynnast persónunum fyrir fram, þær eiga margar alveg sólómynd skilið – og ég mæli alveg með Wikipediu-gúgli um þær flestar eftir áhorf, til dæmis eiga dómsmálaráðherrarnir tveir ekki síður skrautlegan feril en áttmenningarnir og verjandur þeirra.

Átökin meðal hinna ákærðu eru einna helst á milli hins óheflaða Abbie Hoffman (Sacha Baron Cohen) og hins hófsama Tom Hayden (Eddie Redmayne), sem eru leiðtogar tveggja stærstu mótmælahreyfinganna. Maður skynjar að egóið flækist fyrir báðum ekki síður en mismunandi áherslur. Báðir eru leiðtogar sinna hópa, en aðstoðarmenn þeirra eru þó í raun hálfgerð samviska þeirra og minna þá reglulega á það sem mestu skiptir. Það sama gildir um David Dellinger (John Carroll Lynch), þann aldraðasta í hópnum, sem varð friðarsinni löngu áður en það varð töff og neitaði að berjast í Seinni heimstyrjöldinni. Hinir tveir sjömenningana skipta hins vegar litlu máli, þeir eru aðeins þarna til að leyfa kviðdóminum að náða þá. Sá áttundi er svo Svarti pardusinn Bobby Seale (Yahya Abdul-Mateen II).

En hverjir leika vondu kallana? Það kemur nokkuð á óvart að það er ekki saksóknarinn Richard Schultz (Joseph Gordon-Levitt), hann virðist nefnilega hafa samvisku og tekur að sér málið með óbragð í munni. Dómarinn Julius Hoffman er hins vegar hið versta fól – og það er hrein unun að sjá Frank Langella smjatta á andstyggilegum línunum, maður sem hefur leikið Skeletor, Drakúla og Nixon fer létt með að fara á kostum sem einn andsyggilegasti dómari kvikmyndasögunnar. Og þótt Sorkin leyfi sér skáldaleyfi á stöku stað þá ku Hoffman dómari sannarlega að hafa verið jafn ómálefnalegur og rasískur og hann er í myndinni.

Hann er einfaldlega búinn að gera upp hug sinn áður en sakborningarnir opna munninn, fyrir honum eru þeir eintómur óþjóðalýður – og verst er honum við blökkumanninn Seale og trúðinn Hoffman.

Það er heilmikil orka á milli þeirra nafna – og dómaranum er svo í mun að það sé alveg á hreinu að þeir séu ekki skyldir að hann lætur hreinlega bóka það: „And the record should reflect, that defendant Hoffman and I are not related.“ Háðfuglinn Abbie svarar þá vitaskuld:  „Father, no!“

Þetta atriði er nánast eins og öfug útgáfa af uppljóstrun Svarthöfða í Stjörnustríði – því þótt Hoffman dómari sé ekki pabbi uppreisnar-Hoffmansins þá er hann andstyggilegasti hluti feðraveldisins sem hann er að reyna að brjótast undan holdi klæddur. En hann lifir sig um of inn í hlutverkið, útsmognari dómari sem hefði falið betur eigin fordóma hefði hentað hagsmunum saksóknarinnar betur.

Þegar á líður missir hann sig svo alveg í rasismanum og níðist á Bobby Seale, sem hann hafði neitað um eðlileg réttarhöld allan tímann.

Seale áttar sig raunar á því að hvítu strákarnir eru þegar allt kemur til alls náskyldir, hvaða pólitík sem þeir segjast aðhyllast: „You’ve all got the same father, right? ‘Cut your hair, don’t be a fag, respect authority, respect America – respect me.’ Your life, it’s a ‘fuck-you’ to your father, right? A little?“

Aðrir leikarar eru almennt magnaðir, þótt þessar fáu kvenpersónur sem koma við sögu séu ekkert alltof sannfærandi skrifaðar. Michael Keaton brillerar í litlu en mikilvægu hlutverki, John Carroll Lynch er frábær sem miðaldra friðarsinninn Dellinger og Mark Rylance er rödd skynseminnar sem aðalverjandinn William Kunstler.

Svo er það sjálfur Borat. Sacha Baron Cohen á seint eftir að fá hlutverk raunverulegrar persónu sem rímar jafn vel við hans eigin – því bæði hann og Hoffman eru vel lesnir háðfuglar sem geta skipt úr gríninu yfir í gáfumannafyrirlestur á sekúndubroti. Trúðar sem vita að sökum rauða nefsins verða þeir alltaf vanmetnir – og vita líka að einmitt það getur borgað sig.

Vandinn er samt að þeir eru flestir aðeins of miklir einleikarar – það myndast ekki alveg nógu mikið rafmagn á milli þeirra, hér er enginn að hlusta, það eru allir að sannfæra hina, kviðdóminn, dóm sögunnar, fjölmiðla, hvern annan.

Það glittir líka í myrkrið stundum en Sorkin þorir ekki að fara alla leið þangað, hann heldur sig við Hollywood-útgáfuna, hann þorir ekki að segja berum orðum að kerfinu sé ekki viðbjargandi. Í hvert skipti sem dómarinn sakar sakborninga um að vanvirða réttinn er hann um leið að minna okkur á að verkferlarnir, lögin og hefðirnar eru ekki bara til sýnis, þau standa fyrir eitthvað miklu dýpra – allar þessar reglur eru áminning um að þeir skrifuðu reglurnar – og aðeins þeir geta brotið þær, ekki þú. Valdið vinnur alltaf á endanum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson