Stundum ganga draugar fortíðarinnar aftur á dularfullan hátt í samtímamenningunni. Í febrúar fyrir rúmu ári var ný útgáfa af gamalli heimildamynd, The Murder of Fred Hampton, sýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín. Myndin var að miklu leyti þögguð niður á sínum tíma, alla vega í Bandaríkjunum. Skiljanlega enda sýnir myndin að Hampton þessi, einn af leiðtogum Svörtu pardusanna, var bókstaflega tekinn af lífi án dóms og laga af alríkislögreglunni.

En svo dúkkar Hampton upp í tveimur Óskarstilnefndum myndum þetta haust; í litlu hlutverki í The Trial of the Chicago 7 og í öðru aðalhlutverkinu í Judas and the Black Messiah.

Þannig virðist spádómur úr ljóði Hamptons hafa ræst en það hljómar svo í lauslegri þýðingu:

Ég hef brugðið mér frá
og líkaminn hefur verið fjarverandi
í örskotsstund
En ég er kominn aftur
og núna er ég ekki að fara neitt.

Hampton er svarti Messías sem titill myndarinnar vísar í, Júdas er uppljóstrarinn William O‘Neal sem sleppur við fangelsi gegn því að gerast uppljóstrari alríkislögreglunnar. Alríkislögreglumaðurinn sem ræður hann og Deborah, kærasta Hamptons, eru svo hinar aðalpersónur sögunnar. Þótt við sjáum lítið af honum er Pontíus Pílatus sögunnar sjálfur J. Edgar Hoover, yfirmaður FBI. En það er þó nokkuð ljóst að Pílatus var öllu geðugri karakter þótt markmiðið sé það sama, að stoppa byltingarmanninn sem náði að sameina fjöldann. Messíasana Jesú og Fred Hampton.

Hoover er rasísk illskan uppmáluð en handbendi hans, lögreglumaðurinn og uppljóstrarinn, deila ekki skoðunum hans nema að litlu leyti. Þeirra synd er miklu frekar sú að þeir eru gungur. Heiglar sem standa ekki uppi í hárinu á yfirvaldinu hversu andstyggilegt sem það kann að vera. Þeir endurspegla hversdagsleika hins illa sem Hannah Arendt lýsti svo vel, fólkinu sem er kannski ekki vont að upplagi en gengur alltaf í takt, hvað sem á dynur.

O‘Neal í meðförum Lakeith Stanfield er í raun leikari að leika leikara. Hann forðast eftir fremsta megni að láta glitta í hver hann sjálfur er í raun og veru og það byrjaði ekki þegar FBI réð hann til starfa, þeir höfðu þegar séð hvað í honum bjó. Jesse Plemons leikur alríkislögreglumanninn sem fjarstýrir honum og það sem einkennir hann er að hann sést ósjaldan með alltof stóran vindil, vindil sem virkar nánast stærri en hann sjálfur eins og smástrákur að leika alvörulöggu.

Þeir tveir eru kannski báðir, hvor á sinn hátt, staðgenglar áhorfandans; bæði svarta og hvíta hversdagsáhorfandans, okkar sem dáumst kannski að hugrekki Hamptons en finnum fæst hugrekkið sem hann hefur til að bera og því má alveg segja að myndin færi okkur hversdagslegri klemmu og skiljanlegri; hvað myndum við gera í þeirra sporum? Sporum þeirra sem eru hluti af gangverki hins illa en þó með nægilega virka samvisku til að stöðva það gangverk ef þeir ættu bara örlítið hugrekki til.

Þessi fókus myndarinnar er þó gallaður. Jú, við fáum ágætis aldarspegil, þetta býr sömuleiðis til ágætis spennumynd úr sögulegum atburðum en þetta gerir myndina óþarflega brotakennda. Vegna þess að þótt þessir tveir séu  athyglisverðar persónur fölna þeir við hliðina á Fred Hampton. Daniel Kaluuya leikur hann og ljær honum heilmikla og sannfærandi vigt en hann fær bara alltof lítið að gera. Mann langar að vita miklu meira um hann, þennan strák sem varð einhver helsti uppreisnarforingi Svörtu pardusanna áður en hann varð tvítugur. Á bak við það er mögnuð saga og manni finnst örlítið misráðið að segja hana fyrst og fremst í gegnum morðingja hans.

En ofbeldið í myndinni er sannarlega einn af styrkleikum hennar. Pardusarnir eru ekkert saklausir af slíku en þeir eru þó algjörir kórdrengir í samanburði við FBI og lögregluna sem birtast okkur hér sem ofbeldistuddar og stundum sem hreinar aftökusveitir.

Hún talar þannig sannarlega inn í tíma #BlackLivesMatter og sýnir vel hvernig þetta hatur á sér rætur í 20. aldar sögu Bandaríkjanna og mjög svo bókstaflega í æðstu embættum landsins. En hún er samt kraftmest þegar hún leyfir sér að dvelja hjá baráttumönnunum sjálfum, með Hampton og ljóðskáldinu kærustu hans, sem seinna eignast Fred Hampton yngri, með Hampton og móður hans í yndislegri senu eða bara hjá krökkunum sem hlusta á þetta stórkostlega grúvaða lag frá árinu sem Fred Hampton kvaddi okkur, í örskotsstund. Hálfa öld eða svo.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 21. apríl 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson