Stundum semur vont fólk góð ljóð. Stundum semur fólk ljóð þar sem það talar þvert um hug sér – nema vera skyldi að hugur þeirra komi raunverulega fram í ljóðunum sem virðast þvert á meinta heimssýn þeirra.
Ljóð vikunnar er nefnilega án nokkurs vafa slammljóð Paulu White, andlegs ráðgjafa Donalds Trump. Paula var líka fyrsta konan til að blessa forseta við innsetningarathöfn, þótt hún hafi aðeins verið ein sex sem blessaði hann, ásamt fimm karlkyns trúarleiðtogum.
White átti erfiða æsku með fjarverandi foreldrum og hefur talað um misnotkun í æsku. En hún fann sig á endanum sem sjónvarpspredikari og þar uppgötvaði Trump hana – sumir segja jafnvel að hún hafi snúið honum til kristni. Kannski af því hún aðhyllist útgáfu af kristni sem höfðar vafalítið til ríkisbubba eins og hans, þar sem hún aðhyllist svokallaða hagsældarguðfræði – sem snýst um að það sé bein tenging á milli trúarhita og trúariðkunar og efnahagslegrar velsældar einstaklinga. Þess ber hins vegar að geta að flestir kirkjunar menn telja hagsældarguðfræði villutrú.
En ræðum ljóðið, þetta þversagnakennda ljóð þar sem hún ákallar sigur og rigningu og talar tungum á óræðri tungu, þangað til hún ákallar herskara engla – en ekki bara hvaða engla sem er, heldur engla frá Afríku og Suður-Ameríku. Innflytjendaenglana, flóttamannaenglana.
En hvað myndu afrískir eða s-amerískir englar gera við Trump? Trump er alræmdur fyrir hatur sitt á flóttamönnum og vegginn sem hann vildi reisa til að útiloka nágranna sína í suðri – en skyndilega ákallar Paula englana handan veggsins mikla, ákallar þá og biður þá um að bjarga sér.
Og kannski er einmitt það að gerast. Heimurinn er að brjótast inn í Ameríku á ný, frá Afríku og S-Ameríku, og fella þann skelfilega forseta sem hún vann fyrir. Þeirra er sigurinn og mögulega varð falsspámaðurinn fyrir raunverulegri vitrun í fyrsta skipti á ævinni þegar hún flutti ljóð um sigur andstæðinga sinna, þegar hún játaði að eina von heimsveldisins um að hrynja ekki var að utanaðkomandi myndu bjarga því, vegna þess að það er ameríski draumurinn í raun – fólk sem siglir þangað utan frá.
Þetta er nefnilega ekki sigurljóð Trump, þetta er sigurljóð yfir Trump. Kannski gerðist það óvart, kannski tók undirmeðvitundin völdin, kannski er þetta óvænt endursköpun Paulu á sjálfri sér.
Sem ákall fyrir Trump er þetta auðvitað stjörnugalið – en sem slammljóð, fullt af þversögnum og mögnuðum ryþma, þar sem hlustandinn upplifir skýrt rof á milli nánast andsetins ljóðmælanda og þeirrar persónu sem hann heldur að flytjandi hafi að geyma – á þeim mælikvarða er þetta óumdeilanlega magnað.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson