Íslenska skáldið Jónas Hallgrímsson og tékkneska skáldið Karel Hynek Mácha eiga sama afmælisdag, þann 16. nóvember, Macha er þremur árum yngri en Jónas og báðir eru þeir lykilskáld rómantísku stefnunnar í sínu heimalandi. En þeir eiga það líka sameiginlegt að það er heilmikið húllumhæ á afmælisdaginn þeirra, þótt þeir séu báðir löngu dauðir. Afmælisdagur Jónasar er dagur íslenskrar tungu og afmælisdagur Mácha er dagur ljóðsins í Tékklandi – en sá dagur er raunar löngu orðinn að viku og gott betur, enda þurfa ljóðin marga daga!

Den Poezy, dagur ljóðsins, taldi þetta árið 14 daga – frá 9 til 22 október – og fór eðli ársins samkvæmt á netinu.

Undirritaður var hluti af einu af atriða lokadagsins, þar sem fjöllistahópurinn Urban Space Epics bjó til 20 mínútna vídjódagskrá sem innihélt ljóð eftir úkraínska ljóðskáldið og dansarann Yevu Kupchenko, undirritaðan að útskýra 2 metra regluna í ljóðinu 2 Metres Apart og ljóðamyndband frá Gunnlaugi Starra við ljóðið Jóhanna.

Anthony Tsang, ljóðskáld og píanóleikari frá Hong Kong, flutti ljóðverkið To be Fishy; or, How to Eat, byggt á verkum Du Fu, mögulega fyrsta prósaljóðaskáld heims sem hefur verið líkt við miklu yngri skáld á borð við Charles Baudelaire. Loks fylgir ljóð Darrels Jónssonar, Our City is Protected by Naked Women, í flutningi enska leikarans Noel Le Bon, og svo fylgja örfáar svipmyndir af fyrri flutningum fjöllistahópsins, sem sameinar vídjólist, ljóðlist, tónlist, dans og myndlist – og örugglega eitthvað fleira sem ég er að gleyma.

En það er vitaskuld ýmislegt annað hægt að finna á Þúskjás-síðu Den Poezy. Mest fyrir þá sem kunna tékknesku, en einnig ýmislegt á öðrum málum. Frá Lundúnum flytur Jane Kirwan okkur tvö ljóð sem Aleš Macháček þýðir á milli á ilhýra tékknesku.

Frá Ástralíu, nánar tiltekið svölum nokkrum í Perth, berast okkur þrjú ferðaljóð John Mateer og fuglasöngur nágrannafuglanna hljómar undir.

Alexandra Büchler stýrir umræðum um þýðingar á kvenskáldum frá mið-Evrópu, og ræðir við þrjá þýðendur sem allar eru sömuleiðis ljóðskáld, þær Ottilie Mulzet, Elżbieta Wojcik-Leese og Zofiu Bałdyga.

Hér flytur Kinga Tóth ljóð á ungversku og Tom Bresemann les á þýsku.

Þá eru söngljóð einnig til staðar, og meðal tékknesku skáldanna eru gamlir uppreisnarseggir – eins og Vladimír Líbal, sem var meðal þeirra sem skrifuðu undir Charter 77 með Václav Hável.

Sama á við um Věru Tydlitátová myndskreyti, en hér má sjá myndskreitingar eftir hana í bland við upplestur hennar.

Tatav Chakhian sér um armenskuna og les einnig á ensku.

Loks má nefna hljóðaljóð frá slóvakíska ljóðskáldinu Zuzönu Husarova.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson