Ljónið var raunsæisleg unglingasaga þar sem fantasían kraumaði undir, saga sem gerðist í Reykjavík ársins 2017 og kom út árið 2018. Í fyrra kom svo Nornin, sem var hreinn dystópískur vísindaskáldskapur sem gerist á Íslandi ársins 2096 í heimi sem loftslagshamfarir og stríð hafa skekið svo harkalega að hann er nánast óþekkjanlegur. Í báðum sögum er hins vegar gefið undir fótinn með handanheim, heim sem er á bak við skáp í gömlu húsi. Nú er svo komið að lokabindinu – hvernig mun þetta allt saman enda? 

Textavísunin í Ljónið, nornina og skápinn eftir C.S. Lewis er augljós – en Hildur Knútsdóttir ákveður að skýra lokabindi þessa þríleiks Skóginn en ekki Skápinn, enda er skógurinn ekki bara hluti sögusviðsins, hann er líka ógnvaldur sögunnar.

Hér kemur snemmbúin Höskuldarviðvörun fyrir þá sem eiga eftir að lesa fyrri bækurnar tvær; þær eru báðar að mestu sjálfstæðar og myndi ekkert saka mikið að lesa þær í vitlausri röð. En jafnólíkar og þær eru enda þær samt á keimlíkan hátt; amman fórnar sér fyrir barnabarnið. Gerða amma fórnar sér fyrir barnabarnið Kríu, og þegar Kría sjálf er orðin amma fórnar hún sér fyrir barnabarnið Ölmu. Fórnin er einfaldlega að fylgja hinum dularfulla Davíð inn í skápinn, handanveru sem vélar þær í gamalt hús í Skólastræti, þar sem dularfullur skápur reynist hlið inn í annan heim.

Þeim heimi kynnumst við loks núna. Framan af virðist hann vera endalaus skógur. Kría er í fylgd Davíðs, sem er óttalegur dólgur, svikul handanheimsvera – og Kría enn bálreið út í hann fyrir öll hans svik, enda var hann líka fyrsta ástin á löngu liðnum æskuárunum. Þetta er skringilegur heimur, allir sem fara í gegnum þetta hlið virðast yngjast, verða sitt unglingssjálf – sem þýðir að þegar Kría finnur ömmu Gerðu eru þær því sem næst jafnaldrar – og báðar gamlar konur komnar aftur í sinn unglingslíkama.

Bókin er nokkuð lengi í gang, það tekur tíma að venjast þessum heimi og fá virkilegan áhuga á honum – skógurinn sjálfur er nokkuð einsleitur framan af, en hægt og rólega áttar maður sig á að hann er ein samtvinnuð lífvera – sem er gráðugri en nokkur skógur sem við þekkjum.

 „En … vírusar, eru vírusar illir?“

Kría hrukkaði ennið.

„Nei, ekki í sjálfu sér. Vírusar eru bara einföld forrit. Þeir hafa bara eitt markmið, að dreifa sér.“

„Einmitt,“ sagði Gerða. „Og þannig er skógurinn. Hann hefur bara eitt markmið, eða kannski eru þau tvö: að lifa og stækka.““

Þegar amma Gerða bjargar svo Kríu úr skóginum, sem hreyfist eins og samstilltir risar, þá lifnar mikið yfir sögunni. Þær hitta furðulegar verur sem Gerða hefur búið hjá, verur sem líkjast mönnum en eru þó um margt lúmskt ólíkar og öllu frumstæðari að því er virðist. Geimverur kannski, en einna forvitnilegasta pæling bókarinnar er munurinn á því að sjá heiminn í gegnum ævintýri eða vísindi. Amma Gerða, alþýðustúlka fædd um miðja tuttugustu öld, skilur þennan heim út frá ævintýrinu, en framan af fáum við útgáfu vísindakonunnar og geimfarans Kríu, sem kemur frá lokaárum 21. aldarinnar og er að velta fyrir sér þessum heimi út frá þeim náttúrulögmálum sem hún er að læra á, lögmálum sem eru um margt öðruvísi en á jörðinni. Þarna rekast á tvær leiðir til að skilja heiminn, en ekki bara það, tvær leiðir til að skilja hið óskiljanlega.

Þetta veitir líka tilefni til þess að rifja betur upp ferð Kríu til Mars, eitthvað sem mann langaði alltaf að vita meira um þegar maður las Nornina. Hér fær maður líka tvær hliðar á geimferðum í skáldskap; það er stór munur á því að skrifa skáldskap um plánetu eins og Mars, sem ýmislegt er vitað um, og annars vegar skáldaða plánetu þar sem höfundur getur leikið sér að vild með eðli heimsins og íbúa plánetunnar. En þar sem aðalpersónan er vísindakona og geimfari er þó meiri pressa á höfundi að láta heiminn lúta ákveðnum lögmálum.

Í samskiptum Kríu og Gerðu þá sjáum við einnig forvitnilegan misþroska. Kría er fædd síðast en er þó í sumum skilningi elst. Báðar gamlar konur sem hafa gengið í endurnýjun lífdaga á gamals aldri, eru orðnar ömmur þegar þær fá unglingalíkamann aftur. Gerða líkamnast raunar enn yngri í þessum nýja heimi, en hún hefur verið þar lengst. Og tíminn líður ekki eins og á Jörðinni, þannig að í raun er ómögulegt að átta sig á hversu langan tíma þær hafa raunverulega lifað.

Þetta er forvitnileg staða sem er teiknuð upp – sem hefði þó mátt vinna betur úr, Kría er oft furðu mikill unglingur miðað við lifaðan aldur – en kannski myndi nýr unglingslíkami breyta okkur öllum í andlegan ungling? Eða kannski er hún fljót að ganga inn í hlutverk barnabarnsins þegar hún hittir ömmu sína aftur?

Þær halda svo í leiðangur upp í fjöllin til þess að finna Sylvíu, æskuvinkonu ömmunnar og þá fyrstu sem hvarf inn í skápinn – svo þær viti. Þar rís sagan hæst; bæði eru fljúgandi háfarnir sem Sylvía hefur tamið langsamlega best skapaðir af öllum furðudýrum sögunnar, minna dálítið á fljúgandi drekann Falkor í Sögunni endalausu, og svo er Sylvía án vafa forvitnilegasta persóna bókarinnar.

Sylvía er í raun eilífðarunglingur í einhverjum skilningi – hún á eftir að fara í gagnfræðaskóla og menntaskóla, á eftir að vinna launavinnu, á eftir að ala upp börn – á eftir að gera allt sem ömmurnar tvær hafa gert á langri ævi. Hún er hins vegar elst þeirra í þesssum heimi. Hún er líka bitrust, það er eitthvert eitur í henni sem þær eiga erfitt með að skilja, en bæði Kría og Gerða fengu heila ævi í mannheimum, það mætti alveg kalla líf á öðrum hnetti í ungum líkama lottóvinning fyrir þær, þótt þær missi af lokaárum jarðlífsins. Sylvía fékk hins vegar aðeins bernskuna í mannheimum, hún hefur misst af öllu sem þær fengu að njóta. Hún fórnaði sér fyrir Gerðu – og hennar fórn var miklu þungbærari. Og hún hefur haft mörg ár, alein, til að rækta biturðina.

En hvernig tengist þessi heimur eiginlega Jörðinni? Hver er galdurinn á bak við skápinn sem tengir þessa heima saman? Af hverju er Davíð (eða Jakob, hann virðist ganga undir mörgum nöfnum og óvíst að nokkurt þeirra sé hið rétta) að tæla þessar reykvísku stelpur yfir í þennan heim? Það er svarið við þeirri ráðgátu sem maður bíður alltaf eftir og satt best að segja eru mestu vonbrigði bókarinnar hversu illa er leyst úr því. Bókina skortir betra jarðsamband í mjög bókstaflegum skilningi – tengingin á milli þessara tveggja heima, Jarðarinnar og þessarar dularfullu plánetu, skortir alfarið sannfærandi skýringu og upprunasaga Davíðs og raunar öll hans persóna er frekar ódýr, sem er mikil synd vegna þess hve mikið er spunnið í þríleikinn í heild sinni – og þá sérstaklega miðkaflann, sem var sannarlega langbesta bókin.

E.S.: Efsta myndin er málverkið sem Þrándur Þórarinsson gerði fyrir Skóginn. Myndirnar fyrir neðan eru myndirnar sem Þrándur málaði fyrir Ljónið og Nornina.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 13. desember 2020.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson