Sum­ar bæk­ur ná manni strax í fyrstu máls­grein – og sleppa aldrei. Bróð­ir er ein af þeim. Hún held­ur manni svo ekki bara af því hún er spenn­andi, held­ur ekki síð­ur út af mergj­uð­um stíln­um, heim­speki­leg­um pæl­ing­um og inn­sæ­inu. En svona byrjar þetta:

Íslenskir leiðsögumenn í útlöndum herma að ekkert jafnist á við blikið í auga samlanda þeirra þegar þeir koma út í sólskinið fyrir utan erlenda flugstöð með töskurnar sínar í eftirdragi. Það er þessi tæra lífsgleði og léttir sem þeir segja að sé algjörlega einstakur og minni helst á viðbrögð fólks í bíómyndum þegar langvarandi styrjöld eða frelsisbaráttu af einhverjum toga lýkur farsællega. Áhyggjurnar verða nefnilega eftir norður í Atlantshafi. Hér eru engar skuldir eða skyldur, engin fjölskylda, engin verðtrygging, enginn yfirmaður. Allt má.

Þetta er kunnuglegt, en hefur þó sjaldan verið betur orðað – rithöfundar sem reyna að sálgreina íslenska þjóð á einu bretti valda manni ósjaldan aulahrolli, en Halldór Armand gerir þetta einfaldlega svo vel að hann kemst upp með þetta.

Við erum stödd í Nice í Suður-Frakklandi sumarið 2016, sumarið þegar ólíklegasta fólk á Íslandi breyttist í harðsvíraða fótboltaáhugamenn. Einn sá ólíklegasti var Skarphéðinn Skorri, réttarheimspekingur sem selur grænmeti í Borgarnesi. Nýkviknaður áhugi Skorra reynist það óvæntur að það kemur æskuvini hans, Pésanum, verulega á óvart þegar hann býður honum til Frakklands. Sem og allri hans fjölskyldu. Og hann er ekkert að djóka með þetta:

„Og ég er all in, kallinn minn,“ bætti Skorri við. „Ég er að fara að setja á mig andlitsmálningu, öskursyngja eilífðar smáblómið eftir níu bjóra og fá í nefið hjá útgerðarmanni í stúkunni.“

En ýmilegt bendir til þess að ástæðurnar séu ekki eingöngu fótboltalegs eðlis. Við dveljum hins vegar ekki lengi við Miðjarðarhafið, þetta er aðeins formáli bókarinnar – titillinn vísar ekki til bræðralags þeirra vina og raunar er einn af sárafáum göllum bókarinnar að Pésinn fær minna pláss en gefið er í skyn í upphafi.

Fljótlega endum við heima á Íslandi, í Borgarnesi, í fylgd með Sunnu, stelpu sem vill verða rithöfundur og er komin til Borgarness yfir sumarið til að láta reyna á það. Hún rifjar upp Hrafnhildi Tinnu, stelpuna í menntó sem var bæði hennar helsta fyrirmynd og líka hennar fyrsta skot, þrátt fyrir að þær hafi ekkert þekkst. Sunna verandi busastelpan sem leit upp til Tinnu, dularfullu og svölu eldri stelpunnar. En Tinna reynist svo systir áðurnefnds Skorra.

Sunna er sögumaðurinn okkar – en hún er samt alls ekki í aðalhlutverki. Óræð og sumpart ólíkindaleg staða hennar sem sögumanns fær mann strax til að átta sig á að hún er óáreiðanlegur sögumaður, það er eitthvað torkennilegt við söguna sem hún er að segja okkur. Hún byrjar setningar ósjaldan á þessum nótum: „Á þessum tímapunkti var saga Skorra …“ og eftir fylgir nýjasta túlkun hennar á Skorra, aðalpersónunni sem hún er enn að reyna að skilja í gegnum sögurnar sem hann segir henni.

Það eru systkinin Hrafnhildur Tinna og Skarphéðinn Skorri sem eru þungamiðja sögunnar, hann er bróðirinn í titlinum – og frá þessum upphafspunkti sumarið 2016 flökkum við aftur í barnæskuna, unglingsárin og snemm-fullorðinsárin og komumst hægt og rólega að þeirra helstu leyndarmálum, þar á meðal því sem kvelur þau alla tíð.

Skarphéðinn Skorri og Hrafnhildur Tinna, þetta eru stór nöfn sem þeim eru gefin – en þau láta þó blessunarlega oftast Skorra og Tinnu duga. Móðirin lést þegar þau voru börn, sem var upphaf ógæfu þeirra, en við fáum góða og um margt tragíska mynd af karli föður þeirra, hann fær alveg sína kafla eins og margir í þessari margradda bók og sorgin vegna dauða móðurinnar og flækjanna sem því fylgdu eru djúpar og sannfærandi.

Skorri er sjö árum eldri, hann er sannarlega stóri bróðirinn – en um sumt snýst sagan um hvernig Tinna getur náð honum – orðið jafningi í þroska, komist undan andlegu ægivaldi hans. Þróunin þar er forvitnileg – hún treystir honum betur en nokkrum í veröldinni á meðan pabbinn á erfitt með að ná til hennar, en á ákveðnum tímapunkti snýst það við, Skorri gengur of langt í föðurlegum tilburðum og missir um leið traust systur sinnar, þótt vissulega spili leyndarmálið sem þau deila þar líka stórt hlutverk.

Njósnari, aðgerðasinnar og skrautlegur lagerstarfsmaður

Þetta leyndarmál er drifkraftur sögunnar og verður mikilvægara þegar á líður – en það eru ýmsar hliðarsögur ekki síður áhugaverðar sem fá margar sinn tíma. Samtímaatburðir fléttast þar inn í, hrunið vissulega en líka atburðir eins og þegar þau eru í flugvélinni þegar aðgerðarsinnar hlaupa út á flugbrautina til að stöðva vélina, enda er hún með flóttamann í járnum um borð. Sú ferð afhjúpar samskiptavanda þeirra feðga, pabbinn heldur Skorra niðri svo hann taki ekki þátt í mótmælunum og í sömu ferð lýsir Skorri því yfir við litlu systur sína að „Andrés önd er hetja, Mikki mús er móralskur fasisti“, og bætir við:

Andrés er einstæður þriggja barna stjúpfaðir og verkamaður sem er kúgaður og útslitinn af þrælavinnu í smjörlíkisgerðinni þar sem hann fær svo lág laun að hann neyðist ítrekað til að leigja sjálfan sig út til þrælahaldarans Jóakims Aðalandar, sem hagnýtir sér niðurlægingu hans og umkomuleysi til að hagnast ennþá meira og gætir þess vel að Andrés komist aldrei nokkurn tímann upp úr fátæktargildrunni.

Það leynist engum að Skorri lítur á pabba sinn sem Mikka mús, þótt hann reyni að neita því, og sjálfur þróar hann með sér geðsveiflur matrósarklæddu andarinnar eftir því sem líður á söguna, þótt vissulega deili þeir ekki blankheitunum.

Á endanum fær Tinna nóg af ofríki bróður síns og flýr til Berlínar áður en hún klárar menntaskólann, endar inni í aktívistaklíku í gegnum Romain, meðleigjanda sinn, og byrjar með einum þeirra, Dananum Viktor Vestergaard. Sem væri ekki stórmál, nema fyrir það að hann reynist alls ekki vera einn af þeim, heldur einn af þessum alræmdu njósnurum sem hafa verið sendir sem flugumenn inn í ýmsa jaðarhópa í Vesturlöndum í ansi vafasömum og jafnvel óljósum tilgangi, kannski bara helst að skapa njósnadeildunum verkefni eftir að kalda stríðið rann sitt skeið? Eða til að finna óvini þar sem engir eru, búa til óvini úr friðelskandi róttæklingum.

Njósnarinn Viktor – eða Espen eins og hann raunverulega heitir – fær vel að merkja góða og vel skapaða baksögu líka, hann burðast með leyndarmál í gegnum lífið ekki ólíkt þeim systkinum, leyndarmál sem skilgreinir hann og er alltaf að fara að steypa honum í glötun.

Skemmtilegasta persóna sögunnar er þó Harpa Glódís, yfirmaður og mentor Skorra í sumarstarfi á birgðageymslu Landspítalans. Hún kemur honum sumpart í móðurstað og elur hann upp – kemur honum í kynni við útlendingana sem vinna í þvottahúsinu og fær hann með í skemmtisögu inni í miðri harmsögunni, þegar þau stela hátæknilegu sjúkrarúmi fyrir fyrrverandi þingmann.

Harpa er kómíkin í sögunni, en um leið er hún miklu meira en það, hún er mentor Skorra og á sér sína skrautlegu fortíð – en hefur sannarlega lært sitthvað af öllu saman. Hún útskýrir spítalann svona fyrir Skorra þegar hann kemur að henni að reykja jónu í kaffipásunni:

Hér um bil hver einasta manneskja inni á þessum spítala er á einhverju lyfi til að henni líði betur. Fólk fær lyf í æð, það fær lyf í munn og lyf í rass. Stór hluti af allri starfseminni felst í því að setja lyf inn í fólk. Næstum allt heilbrigðiskerfið snýst um að setja eitthvað inn í fólk svo því líði vonandi aðeins betur.

Það sýnir svo ágætlega muninn á þeim hvernig gálgahúmor hennar þróast svo í níhilisma hjá Skorra:

Hvað var þessi stofnun annað en beinhvítt konungsríki dauðans? Hvítt málað á svart. Hér var barist við dauðann á hans forsendum, með hans meðali, með hans eigin aðferðum. Dauðanum sprautað inn í deyjandi fólk. Dauðinn skorinn burt með gljáandi hníf. Dauðinn kæfður með eitraðri pillu. Allir fingur dauðhreinsaðir með spritti.

Á spítalanum gengur samtíðarsagan líka aftur, þegar sérsveitin aflífar byssumann með geðsjúkdóma í úthverfi eftir umsátur – og sá sem átti banaskotið reynist einnig vinna sem sjúkraliði á spítalanum.

Allar þessar litlu hliðarsögur, skáldaðar sem og lítt dulbúnar sögur úr raunveruleikanum, skemma þó ekki fyrir aðalsögunni. Margar eru þær nógu áhugaverðar sem slíkar að maður er fullsáttur við útúrdúrinn eða þær eru lykilhluti aðalsögunnar, oft bæði. Enda rekast sögurnar hver á aðra og undirstrika með því þessa hugleiðingu:

Ein af furðulegri mótsögnum lífsins er sú tilhögun mála að hver einasta manneskja sé dæmd til þess að upplifa sjálfa sig bókstaflega sem miðpunkt alheimsins alla sína ævi en vera jafnframt fyllilega meðvituð um að þessum alheimi er nákvæmlega sama um hana. Þannig eru það örlög manna að upplifa sig öllum stundum sem algjörlega berskjaldaða og áhrifalausa þungamiðju veraldarinnar.

Leyndarmáli hvíslað til allrar þjóðarinnar

Á fullorðinsárum elta bæði systkinin sína drauma – Skorri verður stjörnunemandi í lögfræðinni og Tinna eltir rithöfundardrauminn, en þó eingöngu í laumi. En fortíðin eltir þau og litar allt þeirra starf, eins og þegar Skorri gerir vinsæla útvarpsþætti sem þó aðeins Tinna skilur til fulls:

Tinna vissi vitaskuld hvað Skorri bróðir hennar var raunverulega að tala um. Öll þessi þáttaröð sveimaði á sporbaug um leyndarmál þeirra. Hún var skýrt dæmi um þessa merkilegu þversögn: Dýpstu leyndarmál okkar eru varðveitt næst yfirborðinu.

Eins er líf Skorra sveipað þessum huliðsklæðum; hann gefur frá sér góða stöðu í háskólanum til að flytja út á land að selja grænmeti – hann nær að ljá ákvörðunum sínum blæ sérvitra hugsjónamannsins, þótt ástæðurnar liggi allt annars staðar.

Þessir pistlar eru þó eina sýnilega daður Skorra við skáldagyðjuna – en þó þykir lesanda kyndugt hvernig hann brýst út í sjeikspírskar einræður þegar mikið liggur á honum. Passlega kjánalegar stundum, en sannarlega harmrænar þegar háskinn verður meiri. Á einhverjum tímapunkti áttum við okkur á að sögumaður virðist vera undir ansi miklum áhrifum frá Shakespeare sjálfum og sagan speglar Hamlet sífellt meira, það er meira að segja örlítill draugagangur þegar mamman gengur aftur á Þingvöllum.

Viltu saka mig um að geta í eyðurnar? Að taka mér skáldaleyfi með hversdagslegan hrylling venjulegs fólk og gefa mér eitthvað um baksöguna?

Ertu óviss um hverju þú átt að trúa?

Ég heyri þig spyrja: Hvað af þessu er skáldskapur og hvað ekki?

Mörkin á milli skáldskapar og veruleika verða sífellt óljósari eftir því sem líður á bókina, maður finnur þau rofna – en í þessari óvissu vitrast manni mikilvægi skáldskaparins, þessi þörf til að skilja, geta í eyður, búa til sögur – hún er lykilþáttur í allri sannleiksleit og reynist öllu öðru mikilvægari þegar á hólminn er komið, hverju sem mögulega þarf að fórna.

Því sannleikurinn vill brjótast út. Hann er eins og kvika jarðar, ef hann nær ekki að brjótast fram í eigin mynd þá finnur hann sér glufu í skáldskap heimsins – og ekkert verður samt á ný.

Hvers vegna óttaðist hann sannleikann svona? Hvers vegna er svona erfitt að segja upphátt það sem er satt? Vegna þess að mikilvægur sannleikur breytir ekki bara framtíðinni heldur fortíðinni um leið.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 21. desember 2020.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson