Sagan af Dísu hófst með Drauga-Dísu, sögu af ungri stelpu sem lenti í alvarlegu einelti í skólanum en finnur svo gamalt tré sem reynist hlið inn í fortíðina, sem og þá óvæntu galdra sem finna má í sautjándu öldinni sem hún villtist til. Þetta er heillandi saga þar sem sagnaarfurinn er notaður á óvenju frjóan hátt – og með betri ungmennabókum og fantasíum sem ég hef lesið á íslensku. Galdrarnir taka svo enn meira pláss í framhaldinu Galdra-Dísu – en þar er stelpan orðin rammgöldrótt í kjölfar atburða fyrri bókarinnar og Björn, vinur hennar úr fortíðinni, er búinn að aðlagast nútímanum.

Ef þið eigið þessar tvær bækur ólesnar myndi ég hiklaust mæla með að bæta úr því (getið líka fundið dóm um þær hér), fyrsta bókin er sannarlega frábær og önnur bókin er fjári góð líka, en þar er þó aðeins farið að bera á þeim veikleikum sem fella þriðju bókina, Drauma-Dísu.

Óheft hugmyndaflug rithöfunda getur nefnilega bæði verið bölvun og blessun – og það sést ágætlega í þessum þríleik, þegar ver gengur að beisla hugmyndirnar eftir því sem þeim fjölgar. Það var aðeins farið að bera á offlæði í annarri bókinni og hér rofnar raunveruleikatengingin algjörlega.

Björn og Dísa eru enn þá lykilpersónur en Vár, aðdáandi þeirra í gegnum bækur sem Björn hefur skrifað um Dísu (undir merkjum skáldskapar), er þó í forgrunni. Hún reynist þó ansi óspennandi karakter þótt hún lofi góðu í byrjun, persónusköpun hennar verður á endanum ansi flöt, við vitum fátt um hana annað en að hún er mömmustelpa og fantasíufrík sem fer á ráðstefnur með bakpoka fullan af bókum til að árita.

Það sem fer svo fljótlega að gerast er að heimur fantasíunnar og raunveruleikans byrja að renna saman í eitt. Að setja skilin á milli skáldskapar og veruleika á flot, jafnvel rústa þeim bókstaflega eins og hér, hefur ósjaldan verið gert áður – og þegar best tekst til þá er það ekki bara skemmtileg bókmenntaleg æfing fyrir bókanirði, heldur dýpkar lestrarupplifunina og samlíðanina frekar en hitt, lesandinn tengir betur við söguna einmitt þegar honum finnst hann staddur í rofinu miðju.

Besta dæmið er kannski myndasöguserían Unwritten, þar sem skilningur á eðli skáldskaparins er lykilforsenda þess að lifa af, hvort sem um er að ræða fornar heimsbókmenntir eða Harry Potter-legar metsölubækurnar sem aðalpersónurnar tengjast.

En þar eru skilin á milli heimanna og tengingar á milli þeirra miklu betur unnin en hér, jafnvel þannig að maður fær gæsahúð þegar manni finnst skáldskapurinn læðast að manni, vera ógnvekjandi í samkrulli sínu við raunheima.

Í Drauma-Dísu er vandinn helst sá að maður er í lausu lofti; hvernig virka lögmálin í þessum heimi, eru einu sinni einhver lögmál? Persónusköpunin geldur líka fyrir þetta, maður týnist rækilega og hefur enga alvöru tilfinningu fyrir hvað skiptir máli í þessum nýja heimi, jarðtengingin löngu farin.

Bókin er vel skrifuð og svipmyndir af þessum heimi eru oft skemmtilega súrealískar, en uppbyggingin kemur í veg fyrir að maður njóti þess almennilega. Bókin er áfram drifin af plottinu, en plottið skortir alvöru tilgang og erindi og er hreinlega ekki nógu sannfærandi ofið – þetta hefði jafnvel virkað betur sem hreinn súrealismi og skringilegheit.

Við fáum vissulega útskýringuna á þessu öllu saman í einni eldræðu, sem er vel samin – en það vantar að þræða hugmyndina á bak við þessi heimsslit betur inn í bókina sem heild. Þess í stað finnur maður að manni verður bara meira og meira sama um þessar persónur, jafn mergjaðar og margbrotnar og þær voru í fyrri bókunum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 22. desember 2020.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson