Brot af konu, Pieces of a Woman, er brotakennd mynd í mörgum skilningi orðsins. Hún er til dæmis með fjóra ansi brotakennda ása upp í erminni, en tvo ansi slæma galla á móti. Hún er brotakennd í uppbyggingu, við fáum reglulega dagsetningar (án ártals) sem sýna okkur framrás tímans, það er eins og við grípum niður með 1-2 mánaða fresti í dagbók konu, þannig að sýn okkar á líf hennar verður brotakennd eftir því.

Og svo er eiginlega alveg ómögulegt að skrifa um hana án þess að henda inn einni risastórri Höskuldarviðvörun mjög snemma. Ekki strax samt. Höfum þennan pistil í tveimur brotum – fyrir og eftir Höskuldarviðvörun.

PIECES OF A WOMAN: Vanessa Kirby as Martha

Byrjum fyrst á landafræðinni: við erum stödd í Boston. Sagan er sögð af ungversku pari, leikstjóra og handritshöfundi – það slær mann strax í fyrsta ramma að myndin er sögð höfundarverk þeirra Kötu Wéber og Kornéls Mundruczó – „A Film by“ eins og það heitir á ensku – það tíðkast ekki að láta handritshöfunda fá slíkan heiðurssess í kreditlistum kvikmynda, meira að segja á undan leikstjóranum, en skýrist ágætlega þegar á líður.

Myndin er byggð á leikriti eftir Wéber og þau hafa unnið saman áður, gerðu meðal annars magnaða mynd um hunda Búdapest, Hvíta guðinn, sem lesa má um hér. Þetta er hins vegar þeirra fyrsta mynd á ensku – og einn stærsti kostur myndarinnar er hvað maður fær sterka tilfinningu fyrir staðnum, fyrir Boston, fyrir austurströndinni, fyrir þessum vetri (sem er ekki síst andlegur), manni finnst maður hálfpartinn vera kominn nokkra áratugi aftur í tímann – þetta er austurströndin úr myndum John Cassavetes og gömlum Scorsese-myndum, og sá síðarnefndi er raunar meðal framleiðenda myndarinnar. Þetta er gestsauga sem sannarlega er glöggt.

Við fylgjumst með pari, þeim Mörthu og Sean, sem eru að fara að eignast sitt fyrsta barn. Þau eru leikin af þeim Vanessu Kirby og Shia LeBeouf og auk þess er stórleikkonan Ellen Burstyn fyrirferðarmikil sem móðir Mörthu. Og það er skemmst frá því að segja að Vanessa Kirby, sem var valinn besta leikkonan í Feneyjum síðasta haust, er algjörlega stórkostleg í aðalhlutverkinu – við erum með henni allan tímann, við vitum í raun lítið um hana, áttum okkur til dæmis illa á hvað hún vinnur við, hver bakgrunnur hennar er, þótt hún komi augljóslega úr ágætlega efnaðri fjölskyldu – en Kirby leiðir okkur áfram og leyfir okkur að skynja allar tilfinningarnar, sérstaklega þennan einkennilega doða sem getur heltekið mann þegar hlutverk manns í veröldinni verður óbærilega léttvægt.

Ellen Burstyn er svo vitaskuld traust, eins og vænta mátti, en svo á hún eina algjörlega magnaða senu þegar líður á myndina, einræðu sem sannarlega er leikhúsleg en er engu verri fyrir það. Þetta er mögnuð eldræða sem verður til þess að maður skilur loks hvaðan þessi gamla kona kemur – og ekki síður, þann helfararjarðveg gamla heimsins sem hún flúði, snertipunkt ungverskra kvikmyndagerðarmannana við nýja heiminn.

Stærsti galli myndarinnar er hins vegar Shia LeBoeuf, sem er einfaldlega óþolandi. Að einhverju leyti á hann að vera það, en ég held að hann eigi ekki að vera alveg svona óþolandi, maður á að finna einhverja samkennd með honum á köflum – en það gerist nánast aldrei. Þannig verður einn stærsti leyndardómur myndarinnar einfaldlega hvernig kona á borð við Mörtu endaði með lúser eins og Sean.

En það besta við myndina er einfaldlega fyrsti hálftíminn. Þetta er einfaldlega á einhvern öfugsnúinn hátt Saving Private Ryan meðgöngumyndanna, í þeim skilningi að restin að myndinni verður alltaf í skugga fyrsta hálftímans, ekkert sem kemur á eftir getur orðið jafn magnað og fæðingin. Þetta er líklega magnaðasta fæðing sem ég hef séð í leikinni mynd (sú magnaðasta, vel að merkja, var í heimildamyndinni Miðvikudagur 19.07.61).

Það er eftir þessa fæðingu sem skilti með nafni myndarinnar birtist svo loks. Brot af konu, Pieces of a Woman, og í þessum dómi birtist líka skilti með stórum stöfum:

HÖSKULDARVIÐVÖRUN.

Og ef þið erum hér ennþá eruð þið búin að sjá myndina eða rukuð strax á Netflix að glápa eftir viðvörunina – eða hafið bara gaman að því að einhver kjafti í ykkur endinum. Eða, sem er kannski líklegast, ykkur grunar nógu sterklega um hvað málið snýst.

Því barnið lifir ekki. Ekki nema í örfáar sekúndur, kannski mínútu – og restin af myndinni snýst einfaldlega um mismunandi viðbrögð þeirra þriggja; móðurinnar, ömmunnar og föðursins eru.

Þetta er heimafæðing – og maður nánast öskrar á skjáinn: af hverju farið þið ekki á spítala??? Ekki af því maður sé á móti heimafæðingum, heldur af því örlögin liggja í loftinu, þetta var líklega ekki svo mikil Höskuldarviðvörun eftir allt saman – allir sem eru sæmilega læsir á myndmál og stemmningu í kvikmyndum vita vel að þessi fæðing fer aldrei vel.

Fæðingin og allt stressið sem henni fylgir er hins vegar algjör þriller – en svo kemur úrvinnslan. Pabbinn virðist ætla að skána örlítið við tragedíuna, verður ekki alveg jafn óþolandi í kortér, en svo heldur hann áfram að vera óþolandi.

Maður skynjar hins vegar á harmi Mörtu að hún þarf fyrst og fremst tíma. Til að vera með sjálfri sér, til að vera í þögninni, til að sjá heiminn sem er og hvernig hann passar ekki við heiminn sem átti að vera, skyndilega verða öll börn veraldarinnar áminning um barnið sem ekki lifði.

Hún er sorgmædd frekar en reið. Vissulega er einhver reiði, en sorgin toppar reiðina. Í kringum hana vilja hins vegar allir sjá reiðina. Og hefndina. Amman, með sína Helfararkomplexa, þarf hefnd, og pabbinn er ginkeyptur fyrir hefndinni líka. Martha veit hins vegar að sorgin snýst ekki um hefnd – en hún kemur ekki orðum að því, hún er líka reið, en sú tilfinning er einfaldlega í öðru sæti.

Inn í þetta fléttast sumsé sakamál gagnvart ljósmóðurinni – og það mál á sér stoð í ungverskum raunveruleika, en passar einkennilega vel í amerískan raunveruleika, þar sem málaferli virðast lausin í ólíklegustu málum. Það væri alveg hægt að gera aðra mynd um hversu hættulegt það er að glæpavæða hreinlega það að vera heilbrigðisstarfsmaður, en myndin tekst þó ágætlega á við það með smá réttardrama í lokin, þar sem Vanessa Kirby fær sína lykilræðu.

Hlutverk hennar snýst þó meira um þögnina – og eins hvernig hún brúar þetta einkennilega bil, á milli barnslausrar konu, móður og dótturinnar sem aldrei var. Hún er bæði afskaplega stelpuleg og stóísk, gömul og vitur í senn, eins og barnung dóttirin sé ennþá í henni, hún fær visku móðurinnar en samt ekki, hún er í einhverju hvergilandi dóttur sem varð aldrei að móðurinni sem henni var ætlað. Við fáum svo örlítið innlit þangað í blálokin, endahnútur sem hefði verið fullkominn ef hann hefði verið tíu sekúndum styttri – en er samt ágætur eins og hann er.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson