Þetta er þröngt form, pólitíska tækifærisljóðið. Af því þú þarft að finna vonina, þrátt fyrir vonleysið, þrátt fyrir loftslagsbreytingarnar, óréttlætið og allt hitt – og það getur verið erfitt að gera það og vera samt heiðarleg, einlæg og ærleg. Horfast samt í augu við stöðuna.
Það var verkefni Amöndu Gorman í gær, fyrsta ung-lárviðarskálds Bandaríkjanna og yngsta ljóðskáldsins sem hefur farið með ljóð við setningarathöfn nýs forseta.
Í ljóðinu verður Trump magi skrímslisins (We’ve braved the belly of the beast) og hún tekst snemma á við meintar þversagnir – „We’ve learned that quiet isn’t always peace.“
Og hún hefur tilfinningu fyrir hljóðum; þurfti að sigrast á stami og er sögð ofurnæm á hljóð, og það er eitthvað alveg sérstakt hvernig hún skiptir réttlætinu, orðinu „justice,“ upp í „just is.“
En vonin sigrast stundum á ljóðinu, raunsæið verður skáldskapnum að bráð í tilraun til að halda í vonina.
Somehow we’ve weathered and witnessed a nation that isn’t broken,
but simply unfinished.
Þetta eru línur þar sem glasið er hálf-fullt, en undir öðrum kringumstæðum, jafnvel fáeinum mánuðum fyrr – og jafnvel fljótlega aftur – þá er Ameríka sannarlega brotin þjóð.
Hún er meðvituð um stöðu sína sem ung svört kona – og spilar nokkuð skemmtilega með hana og skýtur lúmsku skoti á Biden um leið.
We, the successors of a country and a time where a skinny Black girl descended from slaves and raised by a single mother can dream of becoming president, only to find herself reciting for one.
Er þetta sem sagt glerþakið? Þær fá að verða varaforsetar, flytja ljóð – á meðan gömlu hvítu karlarnir halda áfram að ráða.
Það er erfitt að forðast klisjurnar við þessar aðstæður – og það þarf raunar að takast á við þær. Ein leið er að koma með eitthvað óvænt, eins og þegar hún telur upp þjóð sem er trú öllum:
To compose a country committed to all cultures, colors, characters, and conditions of man.
Öll slagorðin, ídentítetin, en skyndilega þessi forna, fallega yrðing: „conditions of man.“ Aðstæður manns. Tegund manneskju.
Þetta er ekki hefðbundið ljóð en hún bregður fyrir sig rími og stuðlasetningu á óvæntum stöðum, og er gott hljóðskáld – hér er til dæmis prýðileg stuðlun:
That even as we grieved, we grew.
That even as we hurt, we hoped.
That even as we tired, we tried.
Næsta erindi er væntanlega það sem hún bætti við eftir innrásina á Capitol á þrettándann síðastliðinn. Þarna er hugrökk lína, um að fortíðin sé ekki glæst heldur eitthvað til að takast á við og laga:
It’s the past we step into and how we repair it.
Hún skynjar sögulega tíma, óvænta tíma, tíma sem við vorum ekki undirbúin fyrir.
We did not feel prepared to be the heirs of such a terrifying hour,
Hún er framtíðin – en líka fortíð þeirra yngri, og þessi stuðlun er kannski sú albesta í ljóðinu, um hvernig fortíðin liggur eins og mara á framtíðinni.
Our blunders become their burdens.
Hún teiknar upp kort af Bandaríkjunum, örlítill vísun í Mayu Angelou – þetta er ekki jafn ítarlegt og hjá Mayu (meira um hana síðar) heldur einfaldara, höfuðáttirnar og miðjan:
We will rise from the golden hills of the west.
We will rise from the wind-swept north-east where our forefathers first realized revolution.
We will rise from the lake-rimmed cities of the midwestern states.
We will rise from the sun-baked south.
Lokaorðin eru svo gott fílgúdd, ljós sem manneskja sér – og verður. Eitthvað sem kallast á við litadýrðina sem er henni hugleikin í ljóðinu „Óður til litaðra stúlkna / Ode to Girls of Color.“
For there is always light,
if only we’re brave enough to see it.
If only we’re brave enough to be it.
Þetta er ekki hreinræktað ljóð. Amanda áttar sig á að stundum er best að bræða ljóðformið og ræðuformið saman – og hún er í þröngri stöðu, þótt hún sé í framförunum miðjum er þetta hænuskref, það er gamall og alveg passlega íhaldsamur hvítur karl að taka við, það er alls óvíst hversu lengi hveitibrauðsdagarnir endast, hversu lengi hann heldur stuðningi kvenfólks, blökkumanna og annarra sem eru ennþá aðallega bara fegin að Trump sé ekki enn við völd, en munu fljótlega vonast eftir alvöru forseta.
Þetta ljóð fagnar hænuskrefinu, leyfir sér von – með örlitlum broddi þó. Þetta er gott ljóð, hæfir tilefninu – en hún þarf á einhverjum tímapunkti að koma meira pönki og meira skít í ljóðin. Finna nýjar víddir, leyfa vonleysinu að slást við vonina, blanda sorginni betur við gleðina.
Frost og Kennedy, Bill og Maya
Innsetningarljóð er þó ekki gömul hefð – og í raun ekki beint hefð, en kannski eru þau orðin hefð hjá demókrataforsetum núna – bæði Barack Obama og Bill Clinton fengu ljóðskáld með sér í lið í bæði skiptin sem þeir sóru forsetaeiðinn – en lengi vel var Robert Frost eina skáldið sem hafði hlotnast þessi heiður.
Robert Frost og John F. Kennedy mynduðu öflugt skjalldbandalag í aðdraganda þess að Kennedy var kosinn. Frost var með þeim fyrstu sem impraði á möguleikanum á að Kennedy yrði forseti og Kennedy var duglegur að vísa í Frost, og fékk hann svo til að lesa á innsetningarathöfninni, fyrstan ljóðskálda.
Kennedy bað sérstaklega um gamalt ljóð, „The Gift Outright,“ en daginn fyrir athöfnina greip andagiftinn Frost sem samdi ljóðið „Dedication“ – og ætlaði upphaflega að flytja bæði. En snjóblinda truflaði lesturinn – hann kunni gamla ljóðið utanbókar og það varð því að duga. Sem betur fer raunar, það er miklu betra ljóð. Skrifað í heimstyrjöldinni síðari, órætt og göldrótt, tekst á við myrka fortíð Ameríku, en þó á nógu óræðan hátt til að stuða engan í augnablikinu – en kannski eftirá, þegar þeir hafa haft tækifæri til að melta kveðskapinn.
En þetta varð því miður ekki hefð – hvorki Johnson né Carter kveiktu á þessari hugmynd og Repúblikanaforsetar hafa aldrei gert það, en Bill Clinton bauð Mayu Angelou að lesa þegar hann var svarinn inn í embætti og síðan þá hefur þetta orðið af hefð meðal demókrataforseta – og verður það kannski meðal repúblikana þegar þeir átta sig á hversu stór kosningahópur ljóðaáhugafólk er.
Ljóð Angelou er alvöru epík, hún byrjar á frumefnunum og risaeðlunum – og hún felur lúmska aðvörun til andvaralauss nútíma í kveðju sinni til risaeðlanna:
Any broad alarm of their hastening doom
Is lost in the gloom of dust and ages.
Jurassic Park kom vel að merkja ekki út fyrr en um sumarið, risaeðlur voru ekki ennþá komnar í tísku – en við getum væntanlega þakkað Mayu Angelou og Spielberg þetta risaeðluæði sem átti eftir að einkenna tíunda áratuginn.
Ég veit ekki hversu bjartsýn Angelou var – en hún vissi auðvitað að flestir Bandaríkjaforsetar munu á endanum hafa blóð á höndum sínum, þetta er stríðsembætti og hún hafnar stríðinu.
Your armed struggles for profit
Have left collars of waste upon
My shore, currents of debris upon my breast.
Yet today I call you to my riverside,
If you will study war no more.
Sem Clinton auðvitað stóð ekki undir, frekar en aðrir Bandaríkjaforsetar.
Hún ávarpar svo alla þjóðina, mergðina sem býr í Ameríku – og byrjar á þessum hópum:
So say the Asian, the Hispanic, the Jew
The African, the Native American, the Sioux,
The Catholic, the Muslim, the French, the Greek
The Irish, the Rabbi, the Priest, the Sheik,
The Gay, the Straight, the Preacher,
The privileged, the homeless, the Teacher.
Og þetta er ekki búið, hún bætir við:
Pawnee, Apache, Seneca, you
Cherokee Nation, who rested with me,
og svo seinna:
You, the Turk, the Arab, the Swede, the German, the Eskimo, the Scot,
You the Ashanti, the Yoruba, the Kru,
En það sem kemur beint í kjölfarið eru mögulega mikilvægustu línur ljóðsins, þversögnin sem allir kynþættir aðrir en hvítir alast upp við í Ameríku, landið sem rændi þeim en er samt sem áður oft eina heimilið sem þau þekkja:
bought,
sold, stolen, arriving on the nightmare
Praying for a dream.
Þegar maður hlustar á þau Frost og Angelou er dálítið eins og maður sé að hlusta á hina eiginlegu founding fathers, á ömmu og afa þjóðarinnar, hvít og svört, gömul og vitur, niður aldanna í tvennum andstæðum, hvítu og svörtu, karli og konu. Amanda er barnabarn þeirra, framtíðin sem þessi fortíð mótaði.
Hversdagurinn og kennararnir, mæðurnar sem mótuðu okkur
Þetta voru risarnir, Frost og Angelou, í þessum fámenna hópi tuttugustu aldar skálda sem allir þekkja. Miller Williams, Elizabeth Alexander og Richard Blanco eru ekki í þeim hópi, en þau eru hin innsetningarskáldin og vitaskuld ágætlega kunn í amerískum ljóðskáldakreðsum.
Miller Williams las fyrir Clinton í kjölfar endurkjörsins – og hann talaði til barnanna, til framtíðarinnar. Þetta er í raun nánast eins og ljóð fyrir kennara, þá sem mennta framtíðina – og máski spásögn um að ef menntakerfinu er leyft að grotna niður þá komi fljótt brestir í lýðræðið.
Elizabeth Alexander fylgdi Obama úr hlaði – og hún var fyrsta ljóðskáldið sem orti um hversdagsleikann við þetta tilefni. Hér eru engar risaeðlur, núna erum við bara í Harlem og heyrum hljóð hversdagsins.
Ég er ekki frá því að þetta sé uppáhalds innsetningarljóðið mitt – en um leið daufasti flutningurinn. Alexander er örugg, en röddin hennar er ekki hljóðfæri sem gefur ljóðinu vængi, eins og hjá hinum – og þetta er líka lúmskara ljóð og því snúnara að flytja, það þarf smá blús, einhvern syngjanda, jafnvel bara fá músíkant til að spila undir og raula ljóðið með.
En hún teiknar upp yndislegar hversdagsmyndir, sjáiði bara:
Someone is trying to make music somewhere,
with a pair of wooden spoons on an oil drum,
with cello, boom box, harmonica, voice.
A woman and her son wait for the bus.
A farmer considers the changing sky.
A teacher says, Take out your pencils. Begin.
En svo, skyndilega, en blíðlega, fumlaust, stækkar hún ljóðið. Færir epíkina inn í hversdaginn.
Say it plain: that many have died for this day.
Sing the names of the dead who brought us here,
who laid the train tracks, raised the bridges,
picked the cotton and the lettuce, built
brick by brick the glittering edifices
they would then keep clean and work inside of.
Og endar í ljósinu, rétt eins og Amanda.
Richard Blanco var svo fyrsti fulltrúi spænskættaðra Ameríkana sem innsetningarskáld forseta, fæddur í Madríd og uppalinn í Miami. Hann fylgdi endurkjöri Obama úr hlaði og undirstrikaði ágætlega smekk Obama á ljóðlist. Hann kann að meta hversdagslega ljóðlist, ekki þau stóru og virðulegu hátalaraljóð sem hinir forsetarnir hafa valið, Blanco er rétt eins og Alexander fyrst og fremst flinkur að vefa hversdagsleikann saman við söguna, stækka hið smáa.
Það eru element frá forverum hans í ljóðinu, hversdagsleikinn frá Alexander, áherslan á bernskuna og menntunina frá Williams og upptalningin á mismunandi rótum Ameríku frá Angelou. En ýmislegt nýtt frá honum sjálfum; þökkum blandað saman við fyrirgefningu til forfeðrana.
sometimes praising a mother
who knew how to give, or forgiving a father
who couldn’t give what you wanted.
Hann færir líka ný tungumál inn í hefðina, á glettilega einfaldan hátt.
hello / shalom,
buon giorno / howdy / namaste / or buenos días
Kröftugast er þó óðurinn til móðurinnar, sem er í raun aðalpersóna ljóðsins – og vitrast manni best í þessum orðum:
to teach geometry, or ring-up groceries as my mother did
for twenty years, so I could write this poem.
En að lokum, sökkvið ykkur endilega í þessi ljóð – þau eru öll á internetinu, lesin og uppskrifuð – ég mæli helst með því að skoða samansafn af þeim á LitHub og Poets.org – og leyfa þeim að leiða ykkur áfram.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Myndir:
Af Amöndu Gorman: By Shawn Miller – https://blogs.loc.gov/loc/2021/01/amanda-gorman-selected-as-president-elect-joe-bidens-inaugural-poet/, Public Domain, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=99054096
Af Mayu Angelou og Barack Obama:
By Office of the White House – White House.org [1], Public Domain, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=52404806