Orðið „Aprílsólarkuldi“ birtist fyrst á neti þann 12. apríl árið 2013. Þá var það fyrirsögn á stuttu bloggi:

„Alltaf sól á morgnana, ískalt og ég hugsa alltaf það sama, hugsa um hann, hugsa um ég sé að deyja, um öll bréfin sem ég eigi eftir að skrifa, svo er einhver að bora ofaní jörðina og rödd í útvarpinu að tala um plastpoka til að skyggja fræin og ég veit ekkert hvernig hlutirnir eiga að vera og ég var á meðvirkninámskeiði í gær og það liggja víst börn í blóðpollum eftir foreldra sína, afleiðing af alkóhólisma, og hvað á ég að skrifa um, get ég ekki bara dansað, ég dansa soldið.“

Þetta var á blogginu Heimsveldi Ellu Stínu, sem Elísabet Jökulsdóttir hélt úti – og orðið varð sjö og hálfu ári seinna að bók sem vann Íslensku bókmenntaverðlaunin, bók sem er merkilega skyld þessu stutta bloggi. Hún er að hugsa um „hann“ í þessari bók, hvort sem þessi „hann“ er pabbinn (röddin í útvarpinu) eða fyrsta ástin. Bókin fjallar líka um alkóhólisma og dans – en hún er loksins búin að átta sig á hvað hún á að skrifa um. Og hún lýsir því yfir strax í upphafi:

„Þessi saga er um unga stúlku á norðurhveli jarðar sem missir pabba sinn og atburðina í kjölfarið þess. Hún veikist á geði því hún getur ekki sýnt nein sorgarviðbrögð. Hún verður ástfangin eftir dauða föðurins og kynnist dópi í leiðinni. Þegar kærastinn fer frá henni sýnir hún heldur engin sorgarviðbrögð, geðveikin nær tökum á henni því hún hefur fengið áfall ofaní áfall, fyrst misst föðurinn, svo kærastann, – sjúkdómur hennar er sennilega meðfæddur en brýst nú fram, – og hver veit hvort það að hún stendur á þröskuldi fullorðinsáranna hefur sín áhrif, hún vill ekki fara með barnið inní fullorðinsárin því fyrst þarf að næra og hugga barnið, bernskuna. En hefst nú sagan.“

Sagan er sögð í þriðju persónu og fylgir henni Védísi – öllum nöfnum sem lesandi kann að þekkja er breytt, þó varla til að fela neitt, til þess er þetta ekki nógu vandlega falið – maður þekkir ansi margar lykilpersónur strax og Védís er nokkuð augljóslega Elísabet sjálf. Mann grunar að þetta sé frekar gert til að fá frelsi skáldskaparins og flýja um leið smásmygla annálaritarann, sem annars getur svo auðveldlega tekið völdin. En þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem Elísabet hefur ort um eigin ævi eða eigin fjölskyldu.

Nýtt bindi í stórsögu skáldfjölskyldu

Jökull Jakobsson, faðir Elísabetar, var landsþekkt leikskáld sem lést aðeins 44 ára gamall fyrir meira en 40 árum. En hann lifir áfram, bæði í eigin verkum en ekki síður í skrifum fjölskyldunnar, þetta er rithöfundafjölskylda og þau hafa mörg verið dugleg að yrkja um eigin fjölskyldusögu, sérstaklega þó þær mæðgur, Elísabet og Jóhanna Kristjónsdóttir heitin.  „Við pössum okkur að halda engin fjölskylduboð,“ sagði Elísabet mér í viðtali fyrir meira en áratug, þegar umfjöllunarefnið var Heilræði lásasmiðsins, saga um ástsýki sem er um margt skyld þessari. Hún jánkaði hins vegar glettnislega þegar ég stakk upp á að bækurnar séu í raun fjölskylduboðin.

Bókin skiptist nokkuð skarpt í þrjá hluta og sá fyrsti fjallar um dauða föðurins. Hún er stödd fyrir vestan, unglingsmóðir í menntaskóla. Og sorgin er lamandi, þetta gerðist alltof fljótt, alltof snemma. Hún birtir hér undurfagra og sanna mynd af því að missa föður:

„Dáinn hvernig? Hvernig veit ég þá hvort hann gat svarað öllu því sem ég þurfti að spyrja hann um?“

Hún getur til dæmis engan spurt hvernig hún eigi að takast á við þetta. Þetta er samt ekki bara endir heldur líka upphaf, upphafið að dauðanum.

„Pabbi minn deyr og nú hlýtur lífið að hefjast. Ef hún hefði bara getað haldið sér í þessa hugsun en hún skammaðist sín fyrir þessa hugsun og þorði ekki að tala um hana í mörg ár. En einsog hún hafði verið föst í að eiga þennan ómögulega pabba festist hún nú í þessum ómögulega dauða.“

En þetta er líka upphafið að lífinu. Hún kynnist Kjartani og skyndilega leysist sorgin upp í ást, ofsafengna, galsafengna og sótölvaða. Það er enginn aprílsólarkuldi þegar þau eru að kynnast, það er hlý og umfaðmandi sumarnótt og gáskafull ungmenni fara „inní Alþingishúsið bara tilað kyssast og fara í sleik á áhorfendapöllunum“.

Þarna er hún byrjuð að skrifa barnið út úr sögunni, það er á einhverjum tímapunkti sent í sveit – og svo er dálítið eins og það gleymist, þótt lesandinn sé sífellt að velta því fyrir sér hvar krakkinn sé eiginlega. Kannski er það önnur bók, óútgefin bók eða ein af þessum bókum Elísabetar sem ég á ólesna. En sá harmur kraumar þó undir, harmur stúlku sem hvorki var tilbúin að missa föður né tilbúin að verða móðir. Þau Kjartan eiga föðurleysið sameiginlegt, hún talar um „föðurleysingjana sem höfðu aldrei átt föður og voru kannski ekki að missa hann þarna, hann hafði gefið þeim fagrar myndir einsog svipleiftur af eldingu en þau höfðu misst hann löngu áðuren þau eignuðust hann.“

En þau eru líka ólík.

„Jú, sagði Kjartan, ég segi það sem ég hugsa. Þú segir ekki það sem þú hugsar. Þetta er rétt hjá honum, hugsaði hún, þetta er einsog fötlun. Afhverju get ég ekki sagt það sem ég hugsa?“

Kannski út af því hún þarf að skrifa það, löngu seinna?

En þau koma líka úr tveimur ólíkum heimum. Védís kemur úr fjölskyldu presta og athafnamanna, Kjartan er af verkamannaættum, sjóari sem tekur túra á milli þess sem hann eyðir sjómannslaununum í neyslu. Þessi bóhemski angi stórfjölskyldu Védísar sem kjarnafjölskylda hennar er myndar þó ákveðna brú – vel menntuð skáldin sem mennta sig ósjaldan til fátæktar með því að dragast iðulega að einstaklega ópraktískum og illa borguðum hugðarefnum og sækja um leið yrkisefni í báða heima. Munurinn er þó að við getum ættfært Védísi og hennar fjölskyldu auðveldlega, það vita flestallir lesendur ágætlega hvaða fólk þetta er og hvað varð af þeim – en það vita líklega færri hvað varð um hann Kjartan eftir að sögu lýkur.

Þarna sjáum við svipmynd af ört stækkandi borg og allt öðru borgarlandslagi en við þekkjum í dag – og þótt þessi stutta bók sé í flestu alveg passlega löng þá hefði maður viljað fá aðeins betri innsýn inn í þennan verkalýðsheim fólks sem var ósjaldan nýflutt á mölina.

En kannski hafði Védís einfaldlega ekki meiri innsýn í þennan heim en þetta, maður getur alveg ímyndað sér að þau séu óþolandi parið, svo yfir sig ástfangin að það er lítið pláss fyrir aðra í þeirra heimi, hvort sem það er fjölskylda eða vinir. En á meðan hún fjarlægist sinn gamla heim þá bankar hans heimur upp á, jafnvel þegar hann sjálfur er fjarri. Íbúðin þeirra verður djammíbúð og hana skortir áræðni til að verja eigin veröld.

„Það var ekki talað um neitt nema dóp, síðasta ball, síðasta partý, síðustu sveitaferð útí bláinn, síðustu plötu Rolling Stones. Hún vildi tala um lífsgátuna, ástina, sannleikann, frelsið, dauðann, stjörnurnar, skilning mannsins á heiminum, eitthvað stórt og svo framvegis en hafði ekki burði í sér tilað koma samræðunum á hærra plan, svo hún hlustaði og tók ekki þátt og ákvað að nota þetta seinna.“

Sem hún gerir núna, sannarlega. Ástarsagan er miðhluti bókarinnar og raunar veikasti hluti hennar; hún er leikandi og rómantísk og skemmtileg framan af, en verður þegar á líður örlítið þreytandi – og það er líklega ástæða þess að þessi ást er dauðadæmd; þeim tekst aldrei að þróa ástina áfram, hún er alltaf þessi sami frumkraftur og í upphafi, eða á alltaf að vera það, þau sætta sig ekki við neitt minna. Hún nær aldrei að höndla hversdaginn, þvert á móti flosna þau ítrekað upp úr vinnu af því hversdagur vinnunnar fer illa saman við þessa stórkostlegu ást, vímuna og partíið. Ein vinnan stendur þó upp úr, hún finnur sig prýðilega í starfi sínu á Kleppi – og þar mun hún enda sjálf, þótt hún flosni upp úr þeirri vinnu eins og öðrum.

Öll þessi áföll og allt þetta drama 

Þegar ástin hverfur til Noregs hefst lokakafli bókarinnar. Þar er hún búin að finna sjálfa sig og týna sjálfri sér um leið; öll þessi áföll og allt þetta drama hafði vakið geðhvörfin úr læðingi – og um þau fjallar magnaður lokakafli bókarinnar.

Geðhvörfin snúast raunar mest um það að kortleggja heiminn og finna samhengið í honum. Þegar hún kemur að Laufásvegi 9 skrifar hún:

„Nú hvarf hausverkurinn. Átti hún að stoppa hér? Banka uppá? Myndi sá sem byggi þarna skilja hana? Laufás … var það ekki laufa-ásinn? Hvað þýddi laufaásinn? Hvað þýddi númer níu? Vegur … jú, hún var á ákveðnum vegi, ákveðinni leið. Það var verið að vísa henni leið. Loksins var hún komin inná ákveðna braut. Nei, hún þorði ekki að banka uppá. Það gat heldur ekki verið hér. Hausverkurinn kom aftur og hvarf ekki nema hún sneri til baka og fór uppá Óðinsgötu. Óðinn, æðstur goða í goðatrúnni, einsog ásinn, laufa-ásinn. Jú, þetta var greinilegt samhengi. Var hún Óðinn? Átti hún að kynna sér allt um Óðin? Var kannski eitthvað í þessari norrænu goðafræði sem mannkynið þurfti nauðsynlega að vita?“

Þarna vitrast manni hve náskyldur skáldskapurinn getur verið geðhvörfunum; skáldskapurinn sem oft á þráhyggjukenndan hátt leitar að merkingu í merkingarsnauðum heimi. Þarna er hún  föst í geðhvörfum, en röddin í hausnum á henni er samt einmitt að leita að samhengi í heiminum. Kannski er eina leiðin út úr þessu völundarhúsi ótal gatna að sættast við óreiðuna, skilja borgina, heiminn, göturnar? En þetta er háskalegur heimur sem hún stendur stundum ráðþrota gagnvart.

„Nei, ef ég fer yfir Bræðraborgarstíg kemur eitthvað hræðilegt fyrir bræður mína. Ég má allsekki fara yfir Bræðraborgarstíg.“

Geðveiki hennar snýst eiginlega um að fara í walkabout, þá ævafornu manndómsvígslu ástralskra frumbyggja, og yfirfæra þann sið yfir á borgarlandslag. Læra á landslagið, nefna það – eða í hennar tilfelli finna samhengi í öllum þessum nöfnum.

Aldargamall og grimmur apríl

Tæpri öld áður en Elísabet orti Aprílsólarkulda varð frægasta ljóð mánaðarins ort. Þið þekkið öll þessa byrjun:

Apríl er grimmastur mánaða, græðir

grös upp úr dauðri moldinni, hrærir

girndum saman við minningar, glæðir

vorregni visnaðar rætur.

Veturinn veitti okkur yl, þakti

grundina gleymskusnjó, nærði

máttvana líf í morknum rótum.

Þessi þýðing Sverris Hólmarssonar á upphafslínum Eyðilands T.S. Eliot er prýðileg myndlíking fyrir Aprílsólarkulda, bæði fyrirbærið og bókina. Apríl neyðir okkur til þess að horfast í augu við fortíðina, feykir burt gleymskunni og „hrærir girndum saman við minningar“ – eins og hjá ungri stúlku sem missir föður og þær minningar renna saman við fyrstu ástina. Eliot fékk einmitt taugaáfall um svipað leyti og hann orti ljóðið, það tekur greinilega á sálarlífið að yrkja um þennan grimma mánuð.

En þótt faðirinn og fjarvera hans sé alltumlykjandi er móðirin ein magnaðasta persóna bókarinnar. Hún er máluð upp í fáum dráttum, en þarna er Jóhanna Kristjónsdóttir þó ljóslifandi komin; hrjúf, ákveðin og vitur. Aðfaraorð bókarinnar eru hennar; „Heiminum hefur verið gert svo margt.“ Þessi viska blaðamanns, ljóðskálds og óþreytandi heimshornaflakkara fá mann til að hlakka til þess að Elísabet yrki meira og lengra um móðurina – en uppgjör þeirra mæðgna í bókinni er þó sannarlega magnað. Móðirin er kletturinn, sú sem öllu bjargar – en um leið óþolandi stjórnsama foreldrið sem eftir stendur. Það er magnað hversu vel höfundi tekst að láta reisn móðurinnar birtast í hennar eigin orðum og gjörðum, þannig að við sjáum í gegnum barnalegan mótþróa hennar veika unglingasjálfs gagnvart visku móðurinnar. Mamman er einfaldlega hetja bókarinnar, konan sem gerir það sem gera þarf.

Hún og aðalpersónan, sem loksins nær að skrifa sig frá trámanu.

„Sorgin sem hafði frosið í taugum hennar af því að hún grét aldrei, fór einsog logheitur straumur um líkamann. Þegar ég skrifa þessi orð skil ég ekki í hugrekki hennar.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 14. mars 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson