Dröfn er á leiðinni út í eyju með fjölskyldunni sinni. Eyjuna þar sem Bríet amma hennar býr, eða amma Eyja eins og þau kalla hana oftast. Amman, sem hún þekkir ekki, af því hún kemur aldrei í heimsókn á meginlandið, enda er eyja þessi afskekktust allra eyja. Stelpan hlakkar til, hún hefur alist upp án ömmu en hefur þó sínar hugmyndir um ömmur, sprottnar jafnt úr bókmenntaarfi ömmubókmennta og úr frásögnum vina hennar. En amman kallar hana helst aldrei með nafni og er lítið fyrir hefðbundin ömmuhlutverk.

Eyjan afskekkta reynist ansi vel heppnaður míkrókosmós af gamla Íslandi á tímum breytinga – og kannski líka svipmynd af nýja Íslandi ef breytingar kófsins reynast óafturkræfar.

„Amma var pínupons öðruvísi en ég hafði gert mér í hugarlund. Ég reyndi samt að vera bjartsýn. Kannski var hún svona amma sem var hrjúf á yfirborðinu en með hjarta úr gulli? Það hlaut að vera eitthvað svoleiðis!“

Amman er húsvörðurinn í blokkinni sem er titilpersóna – og í raun ein aðalpersóna – Blokkarinnar á heimsenda. Á eyjunni býr heilt samfélag í einni blokk, enda eru önnur hús eyjunnar ekki byggileg lengur á veturna sökum loftslagsbreytinga og harðra vetra. Það kemur líka í ljós að þessi stutta sumarheimsókn mun verða vetrardvöl, eitthvað sem foreldrum Drafnar og Ingós hafði láðst að nefna við þau.

Þetta er ansi óvenjuleg blokk, þar sem hún þarf að sinna öllum þörfum íbúa og því eru fjós og búðir og tannlæknastofa og ýmislegt fleira í blokkinni, sem er í raun bara lóðrétt þorp. Sem þýðir í raun að húsvörður er allt annað og mikilvægara starf en í hefðbundnari blokkum.

„Amma var mætt og það heilsuðu henni allir af djúpri virðingu. Ég var að byrja að skilja að á Eyju-máli þýddi „Húsvörður“ eiginlega „bæjarstjóri“. Eða mögulega „mafíuforingi“.“

Sjálfum fannst mér þó amman hljóma mest eins og gamall framsóknarráðherra, með smá umhverfisvitund þó. Eftirfarandi ræða hefði til dæmis alveg eins getað verið flutt á Alþingi af ákveðnum þingmönnum.

„Grunnstörfin verður alltaf að manna. Þau eru nauðsynleg til þess að tryggja afkomu Blokkarinnar. Stoðstörfin eru meira upp á punt. Þeim er sinnt þegar og ef við höfum mannskap í það.“

„Hvað eru grunnstörf?“

„Nú, Húsvörðurinn er mikilvægasta starfið,“ sagði amma og hvessti augun á mig. „Svo eru önnur grunnstörf sem snúa að fæðuöflun, úrgangshreinsun og viðhaldi fasteigna.“

„Úrgangs…hreinsun?“

„Pjattstörf – ég meina stoðstörf,“ sagði amma eins og hún hefði ekki heyrt í mér, „eru hlutverk eins og Barnakennarinn, Sálusorgarinn og Kórstjórinn. Þetta fólk er gott að hafa en það er ekki bráðnauðsynlegt.“

Börn eru líka skikkuð til vinnu eins og í gamla daga, þótt þau fái líka að fara í skóla. Fyndnasta dæmið um það er að þau þurfa að róla sér af miklum móð til að búa til rafmagn – sem sömuleiðis er búið til af ótal hlaupahjólum á efstu hæðinni, þar sem allir þurfa að hljóla sinn rafmagnsskammt.

Gamla Ísland og nútíminn

Þetta er gamla Ísland, Ísland þar sem allt snýst um að lifa af. Allt annað er óþarfi, pjatt upp á punt. Það er líka fátt íslenskara en að spyrja fólk sem maður er nýbúinn að kynnast fyrst af öllu hvað það vinnur við (eitthvað sem er alls ekki alltaf jafn sjálfsögð spurning víða erlendis) og í blokkinni reynist vinnan mikilvægari en nafnið sjálft, við kynnumst Dýralækninum, Búðarkonunni (sem þó er kall), Matráðnum, Skemmtanastjóranum, Kennaranum og fleiri persónum og þótt þau beri vissulega sín eigin nöfn þá eru þau nöfn nánast aukaatriði. Þú ert fyrst og fremst starfið þitt. Og í tilfelli nýbúanna er þeirra fyrsta hlutverk að finna sér starf við hæfi – sem reynist nánast eins og manndómsvígsla. Og sálfræðimenntaður pabbinn og tölvunördinn mamman finna sig furðuvel sem Sníkjudýrastjóri og Aðstoðarmaður í gripahúsi. Sérstaklega þó mamman. Það er ákveðinn galli á fyrstu persónu frásögn Drafnar að maður fær ekki að skyggnast betur inn í huga foreldranna, en pabbinn er í raun strákurinn sem alltaf vildi flýja sveitina, hann er svikari í augum jafnaldra sinna, þeirra sem urðu eftir. Þau svik gleymast ekki svo auðveldlega í veröld þar sem öllu skiptir hverra manna þú ert:

„Ég segi nú ekki margt,“ tautaði hún ofan í pottinn eins og alltaf þegar hún ætlaði að segja mjög margt. „En það er barasta verulega einkennilegt að fólk sem á foreldra af síðustu sort og hefur engin afrek unnið á eigin spýtur fái hérna virðuleg embætti, ég verð bara að segja það.“

Á meðan virðist mamman, tölvunarfræðingurinn, borgarstelpan sem alltaf hefur innst inni þráð sveitina, finna einhverja fró í að sleppa frá skjánum og moka skít. Þannig eru þau par sem kristalla hina íslensku togstreitu sveitar og borgar, strákurinn sem getur ekki beðið eftir að losna úr fábreytni þorpsins og borgarstelpan sem getur ekki beðið eftir að komast í sveitasæluna – og mögulega drógust þó ómeðvitað að þessum fortíðarbakgrunni hvort annars.

Þau eru líka föst í þeim ósið sumra nútímaforeldra að reyna of mikið að vernda börnin sín frá erfiðleikum lífsins, feluleikurinn um raunverulegt erindi ferðarinnar reynist blindgata þeirrar uppeldisaðferðar – þau fá það hreinlega ekki af sér að segja börnunum erfiðan sannleika um skuldir og óvissa tíma, foreldrarnir þurfa jú að vera með allt á hreinu, það er svona nokkurn veginn starfslýsingin.

Ingó, Youtube-óður bróðirinn, nýtur sín hins vegar furðu vel þótt hann þurfi að hafa ansi mikið fyrir netsambandi – hann fer reglulega upp á tangann þar sem eina netið á eyjunni finnst og hleður þar upp myndböndum. Þráin í smá nútíma verður til þess að hann tekur upp á jafn gamaldags iðju og að búa sér til lítinn kofa til að geta notið internetsins án þess að gera það í endalausu roki. Hann nær á sinn hátt meiri sátt en aðrar persónur sögunnar, nær að brúa heimana tvo – og það nokkuð bókstaflega raunar.

Þetta stef um borgarbörn sem fara út á land er sannarlega orðið örlítið þreytt í íslenskum bókmenntum, en höfundar eru þó farnir að taka ansi frumlega snúninga á það, sem bæði þessi bók og Sölva saga unglings eru ágætis dæmi um.

Maður sér ákveðna kosti við þetta sveitalíf, þennan afskekkta heim, en ansi stóra ókosti líka. Og þá er ég ekki endilega að tala um skort á nútímaþægindum. Miklu frekar þá staðreynd að flestir íbúar eru jafnvel enn hryssingslegri en oft tryllt veðráttan.

Þetta er líka samfélag innræktunar – og þarna eru alveg teikn um rasisma og ótta við hið óþekkta. Þessi ræða eins barnsins er til dæmis hálf óhugnanleg:

„Blokkin,“ sagði Sölvi hátíðlega, „hefur lifað af vegna þess að fólkið hér treystir hvert öðru og vinnur vel saman. Þess vegna skiptir það okkur öllu máli að hingað komi ekki óæskilegir einstaklingar. Við treystum hvert öðru fullkomlega. Við vitum hins vegar ekkert hvar við höfum aðkomufólk og hvað það gæti verið fært um að gera.“

Dröfn og fjölskylda eru algjörlega föst á eyjunni, þangað koma engir ferjur fyrr en næsta vor – og maður er aldrei alveg með það á hreinu hvernig maður eigi að skilja aðlögun þeirra að eyjunni; eru þau að læra mikilvægar lexíur eða er þetta einfaldlega eitt stórt Stokkhólms-heilkenni? Og lesandinn sjálfur endar í sömu stöðu; er það hans eigin Stokkhólms-heilkenni að fara að þykja pínulítið vænt um suma íbúa blokkarinnar sem voru algjörlega óþolandi í fyrstu?

Eyjan minnir nefnilega um margt á költ, ekki síður en ákveðna smábæjarstemningu sem getur verið jafn eitruð og hún getur verið falleg. Tæknilega séð á eyjan sér fyrirmynd – heimasíða bókarinnar nefnir svipaða blokk í Whittier, afskekktum bæ í Alaska, sem og aðrar álíka sérviskulegar blokkir í Síberíu og Venesúela.

Að því sögðu er helsta fyrirmyndin gamla Ísland, Ísland sem er að hverfa þótt sumir hlutar þess – ekki alltaf þeir bestu – lifi með okkur áfram. Nýju íbúarnir fjórir koma með nútímann með sér og hægt og rólega aðlagast báðir hvorir að öðrum. Eyjan og meginlandið, Ísland og umheimurinn. Þetta er bæði táknsaga um hvernig Ísland var uppgötvað í fyrndinni og hvernig það varð enduruppgötvað meira en árþúsundi seinna með öflugri markaðssetningu.

Þetta er líka saga um Ísland kapítalismans, þar sem sums staðar er varla hægt að búa á venjulegum tekjum. Land þar sem foreldrar þurfa að búa til sögur fyrir börnin um af hverju þau ákveða að flytja – en skammast sín innst inni fyrir hina raunverulegu ástæðu, þau flytja á eyjuna fyrst og fremst út af skuldunum og kulnun í starfi. Þetta er ekki óalgeng saga, að fara út á land á vertíð – hvort sem það er í fiski eða öðru, þetta er þekkt minni og alþjóðlegt, getur líka átt við að fara á milli landa, gerast farandverkamaður og skilja lífið sem þú hafðir búið þér eftir annars staðar, vegna þess að þú hefur ekki lengur efni á eigin lífi.

Og kannski er þetta líka saga um hvernig við náum aldrei að flýja þessa eyju okkar, um allar þessar eyjur sem toga mann alltaf til sín aftur, þótt þær séu veðravíti og uppfullar af gamaldags Framsóknarmennsku.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 27. mars 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson