Við erum stödd á fínum veitingastað þar sem ungur maður hringir örvæntingarfullur í kærustuna sína og spyr hana hvernig hann eigi að nota öll þessi hnífapör. Hún útskýrir það ítarlega fyrir honum og bætir við smá minnistækni – og segir honum svo bara að slaka á. Sem hann gerir þangað til sessunautar hans fara að spyrja hann hverra manna hann sé. Og þeim verður á að nota orðið „redkneck.“

Þetta er merkilega fölsk sena. Jú, J.D. úthúðar sessunautum sínum fyrir fordómana – en myndin sýnir ítrekað að hann er engu skárri sjálfur og myndin sjálf er engu skárri, hún heitir jú Hillbilly Elegy og bæði þessi ensku orð yfir sveitalubba eru jafn stútfull af fordómum.

J.D. Vance er höfundur samnefndrar ævisögu og um leið aðalpersóna myndarinnar – sveitalubbi ættaður frá Appalasíufjöllum sem kemst í laganám í Yale og er núna að reyna að taka næsta skref á framabrautinni með því að landa starfinu sem gæti tryggt honum örugga og vel launaða framtíð.

Þessi sena minnir raunar helst á Tarzan mynd. J.D. er svona dálítið eins og mannapi sem óvart ólst upp hjá öpum – og þegar það er búið að kenna honum á hnífapörin þá er hann húsum hæfur og jafnvel bara skírleikspiltur. Vandinn er hins vegar að aparnir í öllum Tarzan-myndum sem ég hef séð hafa verið töluvert meira sannfærandi persónur heldur en sveitalubbarnir sem birtast okkur í þessari mynd.

Því enginn flýr sína heimasveit – eða allavega ekki fyrr en þeir eru búnir að taka gott uppgjör með mömmu gömlu á versta tíma. Mamma J.D. er vel að merkja fyrrum hjúkka sem og snældubrjálaður fíkill og megnið af myndinni er hann ýmist að reyna að koma henni í örugga vist eða að sýna okkur endurlit til uppvaxtarára sinna í Sveitalubbalandi.

Þar leikur Amy Adams mömmuna og Glenn Close ömmuna – og Close var nú ástæðan fyrir að ég sá myndina; enda tókst henni að fá tilnefningu til bæði Óskarsverðlauna og Razzie-skammarverðlaunanna fyrir sama hlutverk. Close er þó með því skásta við myndina, hún gleymir alveg stundum hversu vondri mynd hún er að leika í og er bara helvíti góð – en vissulega vond inn á milli líka. Með öðrum orðum, hún átti líklega hvoruga tilnefninguna skylda – en stóri skandallinn er hins vegar hin Óskarstilnefning myndarinnar; fyrir förðun og hárgreiðslu. Myndin er nefnilega gróteskur brandari í þeirri deild, stútfull af vondri förðun enn verri hárkollum.

Það versta við myndina er samt einfaldlega þessi nánast fræðilega fjarlægð við viðfangsefnið, þarna er verið að birta svipmyndir af annarri dýrategund, öpum í mannslíki, frekar en að gerð sé tilraun til þess að skilja þessar manneskjur almennilega. Og þótt þarna megi finna fræðilega fjarlægð örlar hvergi á fræðilegri dýpt. Kenning myndarinnar, sem lesa má í gegnum sögu J.D., er einfaldlega þessi: fátækt fólk þarf bara að vera duglegra að græða peninga.

Spenna myndarinnar snýst svo einfaldlega um hvort J.D. komist aftur í siðmenninguna tímanlega fyrir atvinnuviðtalið sitt – manni er satt best að segja nákvæmlega sama hvort mamman lifi þetta af eða hver örlög annarra ættingja hans verða – einfaldlega af því það er búið að afmennska þau alltof mikið til þess að maður finni til með þeim. Þau eru aðallega óþarfa hindranir á framabrautinni.

Þannig að já, þetta er afleit mynd. Hún er samt athyglisverð frá pólitísku og sögulegu sjónarhorni; bókin kom út árið 2016 – um svipað leyti og Trump var kjörinn – og höfundurinn J.D. Vance varð í kjölfarið döbbaður upp sem hálfgerður Trump-útskýrari, maðurinn sem þekkti sveitalubbana nógu vel til að útskýra af hverju þeir væru að kjósa svona vitleysinga. Vance er hins vegar sjálfur Repúblikani, þótt hann reyni að spila sig sem aðeins hófsamari týpu en Trump – en greiningar hans ristu sjaldan djúpt, hann trúði einfaldlega á þessar einföldu útgáfur af ameríska draumnum sem birtist í þessari mynd; útgáfur sem skortir alla alvöru dýpt og er þar að auki frávikið sem notað er til að sanna ósanna klisjuna. Sveitalubbarnir eru bara til sýnis fyrir okkur hin, rétt eins og á skrælingjasýningum í eldgamla daga.

Myndin sjálf birtist okkur svo þegar Trump hefur kvatt Hvíta húsið – en við þurfum enn um sinn að bíða eftir betri mynd um kjósendur hans. Sem eru vel að merkja ekki bara sveitalubbar frá Appalasíu-fjöllum, þeir voru bara ódýrt skotmark og það má auðveldlega finna Trump-belti í miklu ríkari svæðum Bandaríkjanna, þar sem fólk kann allt um rétta notkun hnífapara.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson