Núna þegar bíóin eru lokuð er stundum snúið að velja hvað maður vill glápa á úr iðrum internetsins – þótt takmarkað úrval þeirra streymisveitna sem eru við höndina einfaldi stundum valið, ef maður stendur ekki í mjög umsvifamikilli sjóræningjastarfsemi.

Og þá reynir maður auðvitað að finna góðu myndirnar – en sem gagnrýnandi finnst manni samt stundum að það sé þegnskylduvinna að tékka stöku sinnum á vondu myndunum, allavega þeim sem virðast vera vondar á forvitnilegan hátt, já eða komast bara á flug í umræðunni. Sumar myndir þarf maður bara að sjá svo maður geti rifist um þær á Facebook.

Þess vegna þrælaði ég mér í gegnum Hillbilly Elegy í síðustu viku og ætlaði helst að skrifa um eitthvað gott í þessari viku, því ég skal samt viðurkenna eitt; sumum gagnrýnendum finnst skemmtilegast að tala um vondu myndirnar, fá að ranta rækilega og tvinna saman blótsyrðum eins og þeir séu andsetnir af Kolbeini kafteini, en það á sjaldnast við um mig. Jú, kannski ef það er eitthvað sem ég virkilega hata við myndirnar, einhver andstyggilegheit – en ég jarða auðvitað alveg myndir ef þess þarf – en geri það í sem stystu máli oft (Höskuldarviðvörun: ekki í þetta skiptið samt) – því oftast þegar mér leiðist í bíó þá leiðist mér líka að skrifa eftirá, líklega finnst mér bara verstu myndirnar vera þær sem kveikja ekki einu sinni hugmyndir í hausnum á mér, myndir sem er varla eyðandi orðum í.

En samt varð ég á endanum að gefa eftir og horfa á Justice League – og hélt ég væri að fara að skrifa tvo þjáningarbíódóma í röð. Jú, jú, maður reynir að taka öllum myndum með opnum hug – en Justice League hefur ansi skringilegan sess í kvikmyndasögunni. Hún er framhald af Batman vs. Superman: Dawn of Justice – sem er ein alversta bíómynd 21. aldarinnar. Samt fékk sami leikstjóri, Zack Snyder, leyfi til að halda áfram með söguna – en í kjölfar flókinnar atburðarásar var svo Joss Whedon fenginn til að klára myndina – og hann endaði á að taka ansi margt upp aftur. Hann var í tímaþröng og breytti örugglega of miklu á of skömmum tíma, en samt var myndin skömminni skárri en myndin á undan – sem ég leyfði mér að álykta að væri Whedon að þakka, hann hefði bjargað því sem bjargað varð.

Seinna hefur stjarna Whedons vissulega hrapað eftir að honum var slaufað – en jafnvel þótt hann sé kannski vond manneskja benti samt allt til þess að hann væri töluvert skárri leikstjóri en Snyder.

En Snyder náði vopnum sínum aftur – mögulega breyttur maður eftir dótturmissi – og fékk á endanum, með dyggum stuðningi forvitinna aðdáenda, að klippa nýja útgáfu af myndinni eftir sínu höfði. Með samþykki stúdíósins sem gaf honum þar að auki ágætis pening fyrir verkefnið, eitthvað sem er fáheyrt í Hollywood – ef mynd floppar fær hún venjulega ekkert annan séns. Vissulega eru nokkur dæmi um að myndir fái útreið hjá gagnrýnendum en verði svo mun betri eftir að leikstjórinn fékk að klippa þær upp á nýtt – Outlaw King og Kingdom of Heaven kannski þekktustu dæmin nýleg – en hinn lítt þekkta Daughter of God er samt athyglisverðasta sagan í þessum efnum – ég mæli með þessari grein um eitthvað skrítnasta Hollywood-klösterfokk sem hægt er að ímynda sér.

Gagnrýnandi nartar í hattinn sinn

Justice League er samt á allt öðru leveli. Stórmynd sem fékk mikla kynningu – aftur. Og leikstjórinn fékk skyndilega að breyta tveggja tíma mynd í fjögura tíma mynd. Og það hve jákvætt fólk var gagnvart þessum fyrrum óskapnaði var merkilegt og vakti forvitni mína – því ef þessi mynd er í alvörunni góð væri það hreint og klárt kraftaverk á þessum drungalegu tímum.

Og jú, myndin er í alvöru smá kraftaverk – alveg mynd sem fengi mig til að narta í hattinn minn, ef ég ætti slíkan. Það væri að vísu ofsögum sagt að hún sé góð – en hún er góð á köflum – og mun betri en báðir forverarnir.

Ástæðan er raunar ósköp einföld – og hefur glettilega lítið með leikstjórana tvo að gera. Ofurkraftar myndarinnar er einfaldlega þessir tveir aukaklukkutímar, eitthvað sem hefði aldrei gengið í bíó – þar færðu ekkert að sýna fjögurra klukkutíma ofurhetjumynd þar. Hingað til hafa bara sérvitrir asískir og evrópskir leikstjórar gert svona langar myndir – Schindler’s List og Dances With Wolves voru báðar klukkutíma styttri og þótti flestum nóg um, ég held að Hollywood hafi ekki leyft svona lagað síðan Arabíu-Lárens reið um héruð. En um leið og bíóið er tímabundið að renna saman við sjónvarpið í streymisveitum heimsins fara hugmyndir um lengd bíómynda að breytast, þegar fólk hámhorfar átta tíma sjónvarpsseríur þá verða 4 tíma bíómyndir skyndilega aðeins styttri.

En það var önnur þróun í Hollywood sem þetta skarast einkennilega við. Það sem gerðist nefnilega fyrir um 30 árum í Hollywood var að Die Hard var frumsýnd. Stórkostleg bíómynd auðvitað – en það ótrúlega við hana var hraðinn, sem og spennan sem þessi hraði stigmagnaði. Framhaldsmyndirnar tvær, Speed og jafnvel Lethal Weapon-myndirnar, féllu í sama flokk – en þarna voru samt ennþá leikstjórar sem sögðu sögu vel, kunnu þá list og notuðu hraðann til þess að auka á spennu sem var þegar til staðar út af góðu plotti og forvitnilegri persónusköpun. Þannig horfir maður núna miklu frekar á þessa hluti í Die Hard, enda hraðinn ekki fréttnæmur lengur.

En svo komu fávitaleikstjórar eins og Michael Bay sem kunnu að hlaupa hratt en gátu ekki sagt neitt af viti á meðan – og allt í einu var stærsti vandi hasarmynda í Hollywood einfaldur; þær voru alltof hraðar. Hvorki áhorfendur né aðalpersónurnar fengu tíma til að anda, maður fékk ekki tíma til að kynnast hetjunni, lykilþættir sögunnar voru afgreiddir á methraða og þótt maður skyldi hlutina þá gleymdi maður þeim fljótt – það var nefnilega önnur sprengja að springa, alveg eins og sú síðasta.

Þess vegna er galdurinn við Justice League að þetta er slow cinema yfirfært á Hollywood – löng og hæg atriði, sum bókstaflega í slow motion, og þau eru góð einmitt þess vegna. Stutt hasaratriði verða löng og öðlast með því dýpt og merkingu – við getum velt fyrir okkur svipbrigðum leikaranna, við fáum lengri útgáfuna af sögunum sem er verið að segja, við gleymum okkur í sérviskulegum smáatriðum.

Lengdin er auðvitað veikleiki líka – sum atriðin eru einfaldlega alltof óáhugaverð til að þola það að vera tvöfalt lengri. Og myndin í heild sinni nógu góð til þess að ég myndi alveg mæla með að fólk eyddi tveimur tímum af ævinni í hana, en fjórir tímar er of stór fórn. Þannig væri reyndar fyrirtaks verkefni fyrir nýliða í kvikmyndanámi að klippa einfaldlega Justice League upp á nýtt – það er örugglega hægt að finn alveg prýðilega þriggja tíma mynd þarna.

Þess vegna náði myndin mér strax í byrjun – þegar Amazónska Undrakonan bjargar stúlknahóp úr gíslingu. Í stuttu útgáfunni var þetta formsatriði, skúrkarnir léttvægir og augljóslega auðveldir viðfangs fyrir ódauðlega ofurhetju. Það er svosem óbreytt, en núna fáum við að sjá skítaglottið og mannhatrið í skúrknum í nærmynd, getum notið þess að horfa á hann í hrokafullri fávisku sinni, vitandi að rétt bráðum fái hann makleg málagjöld. Um leið fáum við á sjá vel hvers vegna Undrakonan er alltaf að fara að sigra þennan bardaga, við fáum innsýn inní hvers eðlis ofurkraftar hennar eru, við skiljum hvað gerir hana einstaka.

Seinna koma svo auðvitað stærri og sterkari skúrkar – en þeir eru stærsti veikleiki sögunnar. Geimverurnar Steppenwolf og Darkseid eru vissulega stórir og sterkir – en mögulega er helsti ofurkraftur þeirra hvað þeir eru drepleiðinlegir. Þeir ræða reglulega um að hefndir og að tortíma heiminum, sem venjulega er nú allavega forvitnilegt umræðuefni, venjulega eru einmitt skúrkarnir skemmtilegastir í þessum myndum, þeir geta sýnt okkur hvernig mannlegir breiskleikar sem við könnumst við geta skyndilega afskræmst í hreinræktað hatur og svo geta þeir líka stundum bara verið svo fjandi orðheppnir, tekst jafnvel að gera heimsendi pínu sexí, gott partí sem maður vill alveg mæta í þótt maður viti að morguninn eftir verði skelfilegur.

En ég er auðvitað að ræða Hollywood útgáfuna af skúrkum. Og þeir eru vissulega sumir þannig í raunveruleikanum, ég myndi alveg nota Trump, Bolsonaro, Steve Bannon og Elon Musk ef ég væri að gera Hollywood hasarmynd, ágætis blanda af plottandi illmennum og andstyggilegum hirðfíflum.

En svo man maður eftir öðrum skúrkum, sem eru litlu skárri. Jeff Bezos og Koch-bræður til dæmis; auðkýfingar sem virðast samkvæmt fréttum ekki hafa neina sál, en heldur ekki neinn perónuleika. Þeir virðast bara vera sæborgir sem kunna að græða, tómar skeljar utan um gangandi Excel-skjöl. Það virðist líka eiga við um geimveruskúrkana í Justice League – sem hóta hvor annarri með frösum eins og „Þú skuldar mér fimm hundruð heima.“ Kannski eru þeir að tala um veraldir, en þeir gætu alveg eins verið að tala um gjaldmiðil á fjarlægri plánetu, þeir eru bara þarna til að laga bókhaldsmistök. Svona svipað og Koch-bræður: „Þú skuldar mér að hneppa 500 pakistönsk börn í ánauð svo ég geti fyllt þau inn í árskýrsluna sem fórnarkostnað.“

Og þegar haft er í huga að stærstu hetjurnar eru hálf-guðir og milljónamæringar áttar maður sig á að maður ætti kannski ekki að halda með neinum í þessum slag. Við almúgafólkið, við launaþrælarnir, við töpum alltaf, sama hver vinnur. Vondu geimverurnar ræna kannski ekki sálinni í okkur – en athugum að Batman reddar fjárhagsvandræðum vina sinna ekki með að lána þeim, heldur einfaldlega með að kaupa bankann. Og þar með skuldirnar þínar. Við erum sumsé öll að þræla okkur út fyrir Bruce Wayne og vextirnir sem við borgum fara í að niðurgreiða leiguna hjá mömmu Superman.

Og þannig er þetta í raun það leiksvið sem okkur er ítrekað boðið upp á í heimsfréttunum. Milljarðamæringar að berjast á fótboltavöllum og í Hollywood og í pólitík og viðskiptum – og við vitum að fæstir þeirra komust þetta langt án þess að traðka á ansi mörgum, við vitum að fæstir þeirra hafa hreina samvisku – þannig að við höldum bara með þeim sem virðast minnst vondir, eða þeim sem virka skemmtilegastir, þeim sem við finnum mest til með, skúrkunum sem eru með sömu bresti og við sjálf. En geta ólíkt okkur þerrað tárin með gullservéttum.

Bókmenntir og bíómyndir þurfa samt ekki alltaf að endurvarpa sama slagnum og maður sér í fréttatímanum, þar sem misjafnlega ríkt og frægt fólk á oftast sviðið. Frægt fólk getur nefnilega alveg leikið meðal-Jóna – og Hollywood hefði aldrei orðið sú draumaverksmiðja sem hún varð ef hún hefði ekki skilið drauma meðal-Jónsins og Jónunnar.

Og þegar kafað er djúpt í hyldýpi myndasagnaheimsins þá er þetta stóri munurinn á Marvel og DC heimunum – og ástæðan fyrir að ég verð alltaf Marvel-krakki í grunninn:

Superman er hálfguð og Batman er milljarðamæringur. Spider-Man getur hins vegar varla borgað leiguna þótt hann sé í tveimur störfum meðfram því að bjarga heiminum. Spider-Man veit að laun heimsins eru óréttlæti.

DC er mýtólógía, goðsagnir fyrir guðlausa 20 öldina, á meðan Marvel er í grunninn skandínavískur sósíal-realismi, með spandex-göllum og pabbabröndurum til að létta stemmninguna.

Þessi langa útgáfa gefur hins vegar öllum ofurhetjunum nægan tíma til að kynna sig. Og þótt flestar lifi þær í allt öðrum heimi en við, þá er Sæborgin Cyborg í raun mannlegastur af þeim. Þetta er bara svartur almúgakrakki sem er að díla við skelfilegan harm og hann er með ofurkrafta sem færa honum enga gleði. Íþróttastjarnan og glaðlyndi unglingurinn er horfinn, hann hefur í raun misst líkamann og öðlast við það ofurkrafta, en það hjálpar honum ekki við að spila fótbolta eða kynnast stelpum, þvert á móti. Þetta fór að mestu fram hjá mér í upprunalegu myndinni, en núna er þetta einn helsti drifkraftur sögunnar, hans saga er hjarta myndarinnar – fyrir hinar hetjurnar eru ofurkraftarnir bónus inn í annars eftirsóknarvert líf, fyrir Sæborg eru þeir bölvun  – og þótt Batman myndi segja það sama, þá lítur maður á bankareikninginn hans og trúir honum ekki, en trúir alveg Sæborginni.

Leiðin út á Akureyrarflugvöll

Ykkur grunar kannski núna að þótt ég sé virðulegur bókmenntafræðingur með fjórar háskólagráður á daginn, sem er einmitt svona óarðbærir ofurkraftar sem myndu eiga heima í Marvel-heiminum (Spider-Man er líka akademíker í hjartanu, það gleymist alltof oft), þá er ég samt bak við bókmenntafræðigallann bara nördakrakki að norðan.

Þegar ég var smápjakkur á Akureyri labbaði ég nefnilega stundum alla leið á flugvöllinn og til baka. Fyrir þá sem eru ókunnugir staðháttum þá eru um fjórir kílómetrar frá brekkunni á Akureyri niður á flugvöll – og því átta kílómetrar báðar leiðir – og nærri helmingur leiðarinnar er meðfram mikilli umferðargötu þar sem hvergi var að finna neina gangstétt. Og þetta var augljóslega fyrir tíma skutlsins, þegar ekkert barn með sjálfsvirðingu bað foreldra sína að skutla sér svona smáspotta.

En hvað var ég að vilja á flugvöllinn? Reyna að strjúka til Reykjavíkur? Taka á móti langt að komnum ættingjum? Nei, vitaskuld ekki – ég var að athuga hvort nýjustu blöðin frá Siglufjarðarprentsmiðju væru komin. Var Köngulóarmaðurinn á staðnum? Eða Hulk, jafnvel Súperman? Af einhverjum dularfullum ástæðum komu þau merku blöð á flugvöllinn löngu áður en þau komu í bókabúðir bæjarins (sem voru að minnsta kosti þrjár þá, sumt var sannarlega betra í gamla daga!).

Sumsé, ég ólst upp með þessu, mér þykir vænt um þetta stöff, og þótti það líka löngu áður en ofurhetjurnar sigruðu Hollywood og bara við nördakrakkarnir höfðum vit á þessu.

Og það er ástæðan fyrir hversu heitt og innilega ég hataði Batman vs. Superman. Hún var ekki bara vond, heldur fannst mér hún svíkja Batman, láta hann gera hluti sem hann myndi aldrei gera. Og ég kenndi Zack Snyder um, reyndi að gleyma að hann hafði einu sinni gert Watchman sem var alls ekkert vond. En hann virtist vera hæfileikalaust merkikerti sem var mest umhugað að eyðileggja æsku heilla kynslóða með tilgerðarlegum rembingnum í sér. Steppenwolf að tortíma heimum. Og þóttist vera merkilegur af því myndirnar hans voru dimmar og drungalegar – en við nördarnir vissum betur, við vissum að það var vel hægt að gera drungalegar ofurhetjumyndir vel, enda nóg af þeim – sjáiði bara næsta Batman á undan, þennan sem Nolan gerði. Og jafnvel þann sem Tim Burton gerði. Og Logan!

En núna skil ég skyndilega Snyder betur. Hann vill vel. Hann elskar þetta stöff í alvörunni jafn mikið og ég – nei, líklega miklu meira en ég. Það vitnar líka ferillinn hans um, kvikmyndaaðlaganir myndasagna, bæði frægra og minna frægra, eru hans ær og kýr.

En hann er bara ekki nógu hæfileikaríkur. Hann kann ekki nógu vel að segja sögur – og hann er álíka mikill húmoristi og Halldór Ásgrímsson, sem þýðir að hann forðast helst alla brandara, af því hann veit af því og gerir myndirnar óhóflega dimmar og drungalegar í staðinn.

Þannig er hann dálítið eins og mislukkuð ofurhetja – hann er í Hollywood umkringdur leikstjórum sem eru stútfullir af hæfileikum og getur bara keppt við þá með metnaðinum og ástríðunni fyrir ofurhetjum bernskunnar. Og hann kemst merkilega langt á dugnaðinum. Watchman gekk upp af því að hann var leit nánast á textann sem heilaga ritningu og vék varla orði frá – og bókin reyndist bara það gott kvikmyndahandrit að það gekk upp – og eina stóra breytingin sem hann gerði gekk upp líka, lagfærði sjaldgæfan galla í annars skotheldri myndasögu.

Og Justice League er góð á köflum, því hann fær hérna þann tíma sem hann þarf – af því hann er alls ekki nógu snarpur til að skila þessari sögu á stuttum tíma, en líka af því stundum dugar einfaldlega að hann virkilega þráir að segja okkur þessar sögur, kynna okkur fyrir þessari mýtólógíu. Þannig að skyndilega nær maður að halda pínu með honum, jafn illa og mér var við hann fyrir mynd.

En það mikilvægasta sem gerist í myndinni gerist þó við Íslandsstrendur. Snemma í myndinni, ég er ekki að kjafta frá miklu. Kannski frekar að lauma því að ykkur að jafnvel ef þið nennið ekki að horfa – sem ég skil alveg – þá mæli ég samt alveg með að horfa á upphafskaflann, fyrstu tuttugu mínúturnar sem að stórum hluta gerast við Ísland.

Ingvar E er ábúðafullur og það er alveg fyndið að sjá Hollywood-stjörnurnar reyna sig við íslenskuna – en það er þegar Hollywood-stjörnurnar ganga í sjóinn og hverfa úr mynd sem galdurinn gerist. Vatnasveinninn Aquaman yfirgefur smábæ norður við heimskaustsbaug, gengur bókstaflega í sjónn – og Leðurblökumaðurinn horfir hryggbrotinn á eftir honum.

En þá heyrast raddir – og skyndilega er mætt herdeild íslenskra kvenna sem bresta í söng. Þetta eru ekki ómyndarlegar konur, vafalaust gullfallegar bak við bíófarðann – en hér eru þær örþreyttar sjómannskonur, maskarinn lekur niður augun, þreytan felur fegurðina.

Þangað til þær syngja. Ekki hvaða lag sem er, heldur eitt fallegasta ljóð íslenskrar tungu – það undurfagra og kyngimagnaða en þó einfalda ástarkvæði sem Vísur Vatnsenda-Rósu er. Og höfum eitt alveg á hreinu, jafnvel ef restin af myndinni væri eintómt drasl, þá ætti Zack Snyder að eilífu heiður skilinn fyrir að kynna umheiminn fyrir Vísum Vatnsenda-Rósu. Það eitt og sér réttlætir tilvist Snyder-útgáfunnar.

Hún Skyler Sneathen útskýrir merkingu atriðisins ágætlega í þessari fínu menningarrýni hér; þetta eru almúgakonur og þær vita að þær munu líklega aldrei losna úr átthagafjötrum þessa þorps, þær vita að þær munu giftast einhverjum karldurgi sem þær munu aldrei elska – af því hálfguð eins og Aquaman kemur bara við til að hjálpa, ekki til að elska. Þær horfa á eftir honum í hafið og vita sín örlög. Þetta er ástaróður um lífið sem þær aldrei munu fá.

En hún Skyler vinkona mín er samt svo óheppinn að þurfa sér láta þýðingu textans nægja. En galdur Vatnsenda-Rósu er orðkyngin, þýðingin er aldrei að fara að verða meira en daufur endurómur. Þýðingin er ástaróður einfaldrar almúgakonu til sjávarguðsins sem hún mun aldrei fá og aldrei skilja. En Vatnsenda-Rósa, hún skilur. Hún skilur allt.

Hennar orð bera bergið og sjávarseltuna í sér, eru hömruð úr harmi aldanna, salti jaðararinnar, berginu sem heldur henni fanginni. Þetta er ástarkvæði konu sem sér allan heiminn frá litlu sveitinni sinni á hjara veraldar, konu sem sér inn í hjarta guðanna og kann að yrkja um það.

Með öðrum orðum, ég er eiginlega viss um að Vatnsenda-Rósa var frekar nett gella. Það hefði örugglega verið gaman að labba með henni á flugvöllinn að sækja nýjustu heimsbókmenntirnar og ræða um hvaða ofurhetjur Siglufjarðarprentsmiðja ætti að prenta næst.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson