Draumar eru oft einkennilegir. Þá skortir oft og tíðum röklega framvindu. Gott dæmi er draumur sem mig dreymir stundum, þar sem ég bý í einkennilegri blöndu margra fyrrum heimila, í húsi sem er í mörgum borgum og bæjum í senn og bý jafnt með meðleigjendum fullorðinsáranna sem foreldrum og systkinum bernskunnar og persónur og leikendur blandast oft einkennilega saman, lífið og allar minningarnar sem því fylgja enda í einkennilegri bendu, eins og tilviljanakennt málverk.

En um leið og maður vaknar veit maður auðvitað nákvæmlega hvar maður er.

Ja, svona á meðan hausinn er í lagi. En hvað gerist þegar hann fer að bila? Þegar minnið fer að bresta, og hugurinn fer á flakk sem maður missir að mestu stjórnina á.

Anthony, aðalpersóna The Father, býr í svona húsi. Húsi minnisins, húsi heilabilunarinnar. Myndin hefst á dramatískri klassískri tónlist, sem hljómar enn þegar kreditlistanum lýkur og við tekur eitt af fáum útiskotum myndarinnar, við erum leidd inn í hús föðurins í fylgd dótturinnar, og tónlistin er einkennilega úr takti við hversdagsleika hennar. Svo finnur hún föðurinn og tónlistin kemur úr heyrnartólunum sem hann er með á hausnum, í allt öðrum heimi en hún.

Föðurinn, Anthony, leikur sjálfur sir Anthony Hopkins og þeir nafnarnir eiga ýmislegt sameiginlegt. Hopkins hefur sjálfur samið tónlist af þessum toga, hann er orðinn háaldraður eins og aðalpersónan, varð 83 ára á gamlársdag, og þeir nafnar deila meira að segja afmælisdegi.

Merkilegt nokk var Hopkins samt ekki sá fyrsti sem lék hlutverkið. Það hafa margir gert á undan honum enda er leikritið sem myndin er byggð á meðal virtustu leikhúsbókmennta aldarinnar og hefur verið sett upp víða. Það er leikskáldið sjálft, Fransmaðurinn Florien Zeller, sem stígur hér skrefið inn í bíóið og gerir það með bravör og einmitt með því að reyna ekki um of að opna verkið, heldur áttar hann sig á því það eru einmitt sumir leikhúslegustu þættir þess sem virka jafnvel enn betur í bíó; innilokunin og þetta þrúgandi hús sem lykilpersóna eru meðal þess sem gerir verkið svona sterkt.

Leikritið var upphaflega skrifað á frönsku og það er skemmtileg vísun í þann uppruna með því hvernig Anthony endurtekur að þeir tali ekki einu sinni ensku í París, sem er í senn skemmtilegur öfugmælahúmor um uppruna verksins og um leið dæmi um þá áráttu sem oft einkennir heilabilun, þar sem endurtekningin verður eins og hækja, aulabrandari sem verður eins og rispuð plata, sem reynist auðvitað ótrúlega þreytandi fyrir aðstandendur.

Í fyrstu virðist Anne, dóttir Anthonys, sjá að mestu um hann ein en fljótlega dúkka upp ótal fleiri persónur sem renna einmitt oft saman. Tveir leikarar leika kærasta Anne og tvær Oliviur, þær Olivia Colman og Olivia Williams, leika Önnu, þótt Colman sjái vissulega um hlutverkið að mestu. Imogen Potts leikur hjúkrunarkonu sem minnir svo á týndu dótturina að hún leikur hana nánast líka og nokkrir leikarar leika fleira en eitt hlutverk. Þá erum við alltaf stödd í sama húsinu, sem breytist þó ört, og maður er jafn ringlaður á köflum og Anthony sjálfur; er þetta húsið hans, er hann fluttur inn til dóttur sinnar eða hún til hans, eða er hann jafnvel einhvers staðar allt annars staðar?

En svo kallast myndin líka óvart á við kófið. Þetta er mjög bókstaflega mynd um innilokun, um það að vera fastur inni, bæði inni í hausnum á sér og inni í húsi og því er lykilsena þar sem myndavélin virðir fyrir sér laufin á trjánum fyrir utan í hægð sinni merkilega göldrótt; þetta er heimurinn sem Anthony getur ekki notið lengur.

En þótt hrósa megi aukaleikurunum og leikstjóranum þá er samt rétt að árétta eitt; þetta er myndin hans Anthonys Hopkins. Jafnvel krúnudjásn á merkilegum ferli. Leikurum fatast oft flugið þegar þeir eldast, þeir taka vel borguð aukahlutverk í staðinn fyrir krefjandi burðarhlutverk og það hefur alveg stundum átt við um Hopkins sjálfan, jafnvel þótt hæfileikarnir séu slíkir að hann sé nánast alltaf góður, bara misgóður.

Og þótt hann sé ekki fyrsti leikarinn sem fer með hlutverkið hefur Zeller talað um að hann hafi samt skrifað það með hann í huga. Og verkið er merkilega persónulegt þegar vel er að gáð. Það hefur sannarlega Shakespearskar víddir og enginn leikari samtímans er meiri arftaki Laurence Olivier og félaga og Hopkins en það hjálpar honum líka að hann varð aldrei almennilega frægur fyrr en hann varð miðaldra. Hann hefur í minni flestra áhorfenda alltaf verið faðirinn, ef ekki afinn, hann lék meira að segja sjálfan Óðin alföður. Þannig er hann erkimynd föðurins, hins óskeikula föður og einmitt þess vegna verður enn átakanlegra þegar hinn sterki faðir er skyndilega ekki svo sterkur lengur.

Anthony myndarinnar er margar persónur í senn, verkfræðingurinn sem hann var, dansarinn sem hann dreymdi um að vera, gamalmennið sem hann er orðinn. Hann sýnir vel hvernig persónuleikinn ýkist og skekkist við heilabilunina, þetta eru varnarviðbrögð, og fólk með heilabilun er einmitt gjarnt á að leika rétt eins og Anthony. Hann er að leika fúnkerandi manneskju. Þótt hann sé það ekki lengur reynir hann eins og hann mögulega getur að ráða við hlutverkið. Þetta er martröð leikarans, og kannski okkar allra, að muna skyndilega ekki línurnar okkar, muna ekki einu sinni í hvaða leikriti við erum stödd.

Nú hefur mér ekki hlotnast að sjá leikritið en þótt margt í myndinni sé sem áður segir leikhúslegt hefur myndin eitt sem leikhúsið hefur ekki; nærmyndina. Andlit Anthonys Hopkins segir hálfa söguna og rúmlega það, nærmynd af þessu andliti geymir veraldir. Jafnvel kynslóðir, Hopkins sjálfur hefur lýst því hvernig hann upplifði að hann væri nánast andsetinn af eigin föður í einu lykilatriði myndarinnar.

Myndir um heilabilun eru í eðli sínu tragedíur, þær þurfa iðulega að horfast í augu við dauðann en um leið líka ótímabæran dauða þegar hugurinn fer á undan líkamanum. Hér sker Faðirinn sig þó úr af því sagan er fyrst og fremst sögð út frá þeim sem er með heilabilun frekar en út frá aðstandendum og með frásagnaraðferðinni gerist örlítið kraftaverk: maður áttar sig á að Anthony skynjar alla ævina sem heild, skynjar fortíð, nútíð og framtíð sem órofa og kaótíska heild, er í virku sambandi bæði við þá sem eru horfnir úr lífi hans og þá sem eru enn til staðar; með því að missa stjórn á minninu missir tíminn tökin á honum og hann lifir alla sína ævi í sama augnablikinu.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 21. apríl 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson