Hér er örlítil tölfræði um myndirnar átta sem voru tilnefndar sem besta myndin á síðustu Óskarsverðlaunum:

Í þremur þeirra búa aðalpersónurnar, allavega í upphafi myndar, í húsbíl. Til viðbótar býr þrítug aðalpersóna Promising Young Woman ennþá heima hjá foreldrunum, aðalpersóna The Father er hreinlega ekki alveg viss hvar hann býr og enn verri örlög en heimilisleysi vofa yfir persónum Judas and the Black Messiah og The Trial of Chicago 7. Það er helst að Mank hafi það gott – ef hann væri ekki rúmfastur vegna fótbrots. Fastur inni á eigin heimili, sem er kannski spásögn um næsta óskar, þegar allar kóf-myndirnar verða tilbúnar.

Parið í Sound of Metal er að lifa rokkstjörnulífinu og fer í hefðbundnari húsnæði þegar þeim kafla líkur, Minari fjallar um fjölskyldu sem býr í einhvers konar einingarhúsi á hjólum, en Hirðingjalíf, Nomadland, fer einfaldlega alla leið og gerist nánast eingöngu í strangheiðarlegum húsbílum.

Hirðingjaland hefst á tilkynningu um að póstnúmer Empire í Nevada, 89405, hafi verið tekið úr umferð. Heimsveldið svo rækilega fallið að pósthúsið er horfið. Nöfn á borð við 89405 Empire eða Empire, Nevada hefði verið skemmtileg vísun í bókmennta- og kvikmyndasöguna en væri um leið villandi, og raunar minnir myndin um margt á Paris, Texas eftir Wenders; utanaðkomandi leikstjórar að skoða hina amerísku víðáttu, að gera sinn hæggenga nútímavestra.

Við komum þó lítið við í Empire en sláumst þess í stað í för með hirðingjum nútímans – sem núorðið eiga enga hjörð nema sig sjálf.

Hirðingjaland hefst með faðmlagi. Um leið og við hittum fyrir fólk eru þau að faðmast. Kveðjan, orðuð eða óorðuð, er ávallt sú sama; „see you down the road.“ Samheldnin í hópi hirðingjanna er eitt leiðarstef myndarinnar; án hennar kæmust þau einfaldlega ekki af og þau vita það. Skúrkar myndarinnar eru að mestu ósýnilegir, hið kapítalíska kerfi, Corporate America, sem hefur þrælað þeim öllum út. En í þeirra heimi hefur grimmdinni verið úthýst.

Sum þeirra orða það mjög skýrt; þau áttu engra kosta völ. Eða fárra kosta völ, þetta var skárri kosturinn. Hinn kosturinn var að bókstaflega vinna sér til húðar, deyja frá ónotuðum ellilífeyri. Við sjáum helst skúrkana í gegnum þrælakistuna Amazon, merkið birtist allavega tvisvar, þar sem er nánast eins og Fern sé að ganga inní víti. En raunar er einn helsti veikleiki myndarinnar að hún forðast allar þær hryllingssögur sem fylgja þeim vinnustað og öðrum og koma meðal annars fram í bókinni. Amazon fær ekki verri útreið en svo að myndin er sums staðar fáanleg á streymisveitu fyrirtækisins og kvikmyndagerðarmennirnir fengu leyfi til að taka upp innan veggja einnar birgðageymslu fyrirtækisins.

Björgunarbátarnir á Titanic

Aðalpersónan Fern er leikin af Frances McDormand, sem fékk enn einn óskarinn fyrir hlutverkið. Önnur frægustu hlutverk McDormand hafa verið stórir karakterar – en Fern er lágstemmd, traust – hún hlustar á hina hirðingjana, er okkar eyru í þessum heimi. Hún er líka skálduð persóna – ólíkt flestum í myndinni – og það sést alveg, hún og David Straithairn eru leikararnir í myndinni og bæði skila sínu fantavel, en maður skynjar samt muninn á þeim og förufólkinu sem leikur sjálft sig; skynjar að þau eru gestir í heimi förufólksins og geta yfirgefið hann hvenær sem þau vilja – fyrir förufólkið er það ekki svo auðvelt.

Bæði eiga líka efnaða ættingja sem geta veitt þeim húsaskjól, ólíkt hinum hirðingjunum, bara það setur þau skör ofar í fæðukeðjunni. Þau hafa einhvern til þess að betla hjá, ef þarf. Efnuð systir Fern minnist réttilega á að hún sé hluti af amerískri hefð; og það er hárrétt – en þetta er flókin hefð.

Hinir upprunalegu amerísku hirðingjar voru indjánarnir sem Evrópumennirnir drápu, arftakar þeirra voru Evrópumenn (að mestu) sem flúðu fátækt í gamla heiminum fyrir fátækt í nýja heiminum – og stöku sinnum vissulega betra líf.

Síðan verður til hið villta vestur – og seinna bítnikkar sem gengu úr lögum við samfélagið. En í millitíðinni kom kreppan mikla og Þrúgur reiðinnar, sem Hirðingjaland er andlegt framhald af; en hér skortir aðeins á reiðina; bugun og búddísk ró í bland koma í staðinn.

Jafnvel ákveðið vonleysi. Hér er enginn byltingarleiðtogi, móralskur leiðtogi förufólksins lýsir því hvernig Titanic sé að sökkva og hann sé einfaldlega að setja björgunarbátana á flot. Þetta er heimur sem er nánast póst-apókalyptískur að því leyti að það virðist of seint fyrir byltingu, þetta er lágstemmdur heimsendir þar sem eina markmiðið er að tóra sem lengst og bærilegast.

Förufólk á borð við Fern og félaga hefur auðvitað alltaf verið til; en samsetning þess segir okkur sína sögu um ástandið. Og auðvitað er ástandið aldrei fullkomið, fátæktin bankar alltaf einhvers staðar upp á. En þegar aðstæður eru skaplegar er förufólk blanda af sérvitringum og fólki á ysta jaðri samfélagsins; en þegar ástandið versnar verður þessi lífsstíll ein af fáum leiðum út úr skuldasúpum, fátækt og húsnæðisleysi – eða stundum eina leið þeirra sem rétt svo skrimta í kapítalismanum og finna að hann er að drepa þau, hægt og rólega, þá er eina leiðin að selja allt, minnka við sig, og forða sér út á þjóðveginn.

Þau eru samt ekki laus við kapítalismann; þau eru ekki í sjálfsþurftarbúskap, þau hins vegar finna sér þær matarholur sem henta – þau reyna að nýta sér kapítalismann en á endanum er það auðvitað kapítalisminn sem er að misnota þau. Þau finna sér sína leið, það sem sígaunar kalla „romani butji“ – sígaunavinnu, leið þeirra til að komast af í heimi sem er skapaður fyrir aðra.

Megnið af förufólkinu er eldra fólk, sem er athyglisverð blanda – þessi lífsstíll ætti einmitt að vera þolanlegur æskufólki, síður hinu eldra með ýmsa krankleika sem aldrinum fylgja. Þetta er fólk sem er orðið nógu aldrað til að sjá í gegnum tálsýnina – það veit að eftirlaunin munu ekki duga, þau vita að þau munu aldrei fá stóru stöðuhækkunina eða slá í gegn; þá er betra að elta lífið, náttúruna.

Einn af fáum ungum flökkurum myndarinnar minnir raunar örlítið á Chris McCandless í Into the Wild, aðra mynd um nútímaflakkara, og jafnvel enn frekar á leikstjóra þeirrar myndar, Sean Penn, þegar hann var ungur og hrekklaus.

Blade Runner jarðtengd

Myndin breytist svo töluvert eftir tæplega 40 mínútur af 108. Þá komumst við að því að einn hirðinginn er við dauðans dyr. Hún Swankie. Hún er hrjúf og ströng við Fern, ávítar hana fyrir að vera ekki með varadekk: „Þú gætir dáið hérna,“ segir hún henni höstuglega.

En bak við hrjúft yfirborðið er gjafmild og brothætt sál – og stuttu eftir að hún segir Fern að hún sé dauðvona kemur stórkostlegasta sena myndarinnar, þar sem Swankie flytur okkur sína útgáfu af andlátsræðu Roy Batty í Blade Runner, þar sem hún rekur öll þau undur sem hún hefur upplifað – og þess vegna sé hún, 75 ára gömul konan, tilbúin fyrir dauðann.

Þetta er mögnuð sena; áminning Swankie að við þurfum ekki hringi Júpíters eða aðrar fjarlægar plánetur til þess að hafa séð undur veraldarinnar. Það getur verið nóg að flýja borgina, að fara utan alfaraleiðar, finna staði sem enginn annar finnur, vera eina manneskjan í víðáttunni.

Myndin sjálf opnast eftir þessa ræðu – opnar sig gegn töfrum náttúrunnar, við finnum að þetta verður héreftir helsta markmið Fern – að njóta náttúrufegurðarinnar og frelsis víðáttunnar, sem er það eina sem hún á sem efnaðir ættingjar hennar eiga ekki.

Þessir ættingjar eru svo auðvitað efnaðir af því þeir sinna störfum sem halda fólki eins og Fern niðri, þeir eru lágt settir skúrkar myndarinnar – sem opinbera sig í grillveislu. Þess vegna getur Fern ekki gist þar til lengdar – og heldur ekki hjá fjölskyldu Dave (David Straithairn) þótt þau virki afskaplega indæl; þetta er blanda af frelsisþrá og stolti – það er vitaskuld ekki auðvelt að vera þurfalingur hjá næstu kynslóð á eftir – og kannski sömuleiðis ævintýraþrá og samheldni með sínum þjóðflokk, hirðingjunum, að sofa ekki í rúmi óvinarins, hversu vinalegur sem hann kann að vera.

Stoltið heldur í þeim lífinu og gerir þeim kleift að mála líf sitt skærum litum, sjá fegurðina í flökkulífinu – en í því felst líka ákveðin afneitun á fátæktinni og óörygginu sem henni fylgir henni. Fern er ekki heimilislaus, hún er húslaus, eins og hún segir fyrrum nemanda og áréttar muninn – en um leið finnum við sársaukann seinna þegar hún játar gagnvart köllunum á bílaverkstæðinu, eftir örlitla ræðu, að húsbíllinn sé heimili hennar. Ef hann bilar er hún sannarlega heimilislaus.

Um miðja mynd syngur svo Lyn Anderson að hún hafi aldrei lofað henni rósagarði – og Fern labbar inn í steingarð. Það sagði enginn að þetta yrði auðvelt.

En samt, myndin fjallar í raun um svikið loforð. Ameríska drauminn, sem hefur sömuleiðis verið útflutningsvara og má finna í flestum hugmyndafræðistórmörkuðum heimsins. Loforðið um stöðuhækkun eða starfsframa fyrir þá sem voru duglegir og/eða hæfileikaríkir er svikið oftar og oftar, og svikin verða augljósari og augljósari. Um leið og meiri og meiri auður safnast á færri og færri hendur og lögmálin breytast í sífellu er sá samfélagssáttmáli löngu úreltur; verðleikasamfélagið rústir einar. Karmað bara draumsýn.

Og þótt McDormand og Straithairn séu frábær þá eru eftirminnilegustu augnablik myndarinnar þegar ólærðir aukaleikararnir, að leika sjálfa sig, eiga sínar stóru senur. Swankie að riffa Blade Runner, Linda May að segja söguna af kolleganum sem dó daginn sem hann fór á eftirlaun og Bob að rifja upp sonarmissi. Og svo líka bara þau að stela hamingjustundum saman. Þegar þau ganga úr lögum við samfélagið ganga þau líka stundum aftur í barndóm; þegar þau finna risastóran lúxus-húsbíl og fá að skoða hann til að lifa fantasíuna sem kviknar eðlilega í þrengslum þeirra eigin húsbíla, á köldum og einmanalegum nóttum.

Sonur Straithairn leikur líka son hans í myndinni – og annað göldrótt augnablik er þegar þeir feðgar sitja saman við píanóið og syngja lag eftir Tay Straithairn og Fern hlustar í laumi. En þetta eru stolnar stundir, hamingjubrot fundin í erfiðri lífsbaráttu.

Manni verður hugsað til annars förufólks, sígauna til dæmis, með sinn óræða uppruna – og veltir fyrir sér; eru þeir arfleifð löngu gleymd heimsveldis? Var lífsstíll og sjálfsmynd sígauna viðbragð við ökónómískri óöld sem er löngu gleymd – rétt eins og líf þeirra í dag er markað miskunarlausum sveiflum síðustu alda?

Svo má auðvitað velta fyrir sér hvað Chloé Zhao sé að segja um föðurlandið Kína með myndinni, þar sem kapítalisminn er ekkert síður að murka lífið úr mörgum og rjúfa aldagamla samfélagssáttmála.

Myndin er líka óhugnanleg fyrir þá sem yngri eru: hvað ef þetta á bara eftir að versna? Hvað ef okkar kynslóð á ekki einu sinni eftir að eiga efni á húsbílnum? Er kannski kominn tími á að fjárfesta í hestakerru eða tjaldi? Eða er myndin millispilið sem vantaði á undan Mad Max – lognið á undan storminum?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson