Kassandra var forngrísk prinsessa og spákona sem sá fyrir Trójustríðið en var sömuleiðis undirsett þeim álögum að engin trúði spádómum hennar. Hún sá fyrir framtíðina og gat engu breytt. Seinna var henni svo nauðgað og hún seld í kynlífsþrælkun.

Með slíka baksögu er fullkomlega rökrétt að Emerald Fennell skuli nefna aðalpersónu Promising Young Woman eftir spákonunni grísku, þetta er jú hefndarþriller um nauðgun þar sem lykilgáfa aðalpersónunnar er stundum sú að sjá fram í tímann.

Carey Mulligan leikur Cassie, eins og Cassandra myndarinnar er oftast kölluð, læknisfræðidroppát sem er stefnulaus þrítug stelpa að vinna á kaffihúsi á daginn, siðameistari djammsins á kvöldin, en þar leikur hún ofurölvi konu, gerist tálbeita fyrir stráka í leit að auðveldri bráð – en það rennur ansi snögglega af henni um leið og þeir telja sig hafa landað bráðinni.

Mulligan er frábær leikkona, hér sem og annars staðar, og líklega er það besta við myndina og óskarstilnefninguna ef Mulligan fær fleiri bitastæð hlutverk. Það reynir lítið á hina leikarana, sem skila þó sínu, en þar eru þó foreldrar Cassie undanskildir. Hún býr heima hjá gamla settinu og það hefur glæpsamlega litlu púðri verið eytt í að skrifa hlutverk foreldrana, og Clancy Brown og Jennifer Coolidge eyða ekki mikið meira púðri í leikinn, þannig að úr verða algjörlega flatir og einvíðar persónur.

Vandi myndarinnar liggur hins vegar fyrst og fremst í óskarsverðlaunuðu handritinu – sem smitar spádómsgáfu Kassöndru yfir á áhorfandann, þetta er einhver fyrirsjáanlegasta mynd sem gerð hefur verið síðan á tímum Forngrikkja.

Ég tek fram að ég geri ekki neitt svakalegar kröfur um að bíómyndir komi mér á óvart, ég er ekki alltaf að leita að næsta tvisti, margar mínar uppáhaldsmyndir komu mér ekkert sérstaklega á óvart. En þegar maður veit nákvæmlega allt sem gerist á næstu fimm mínútum við fyrsta áhorf þá fer fyrirsjáanleikinn yfir öll mörk.

Stundum er handritinu um að kenna, en þegar Fennell, sem er bæði handritshöfundur og leikstjóri, áttar sig á að handritið er ekki nógu skýrt, þá kemur tónlistin til bjargar. Sérlega skýrt dæmi er atriði þar sem Cassie fær þær upplýsingar að skúrkur háskólaáranna sé fluttur aftur í bæinn. Bara svipbrigði Mulligan hefðu dugað til að mann grunaði eitthvað, sem hefði sjálfsagt verið alveg passlegt, en tónlistin undir hamraði þetta inn með STÓRUM hamar; jú, þarna er sko kominn maðurinn sem olli því að Cassie er svona brotin manneskja.

Þetta gerist þegar fundist hefur óvæntur (já, hún er ekki alveg alltaf svona fyrirsjáanleg, bara svona í 100 mínútur af 110) veikleiki í brynju hefndarengilsins Cassie, barnalæknirinn Ryan (Bo Burnham), sem reynist svo óþolandi sjarmerandi að hún fer alvarlega að íhuga karlmenn í öðrum tilgangi en að kenna þeim lexíur.

Og það er alveg prýðileg rómantísk gamanmynd falin inni í myndinni; þetta byrjar á að Ryan drekkur kaffið sem hún spýtir í, þau eiga fallegt söngva- og dans atriði í kjörbúðinni og sitthvað fleira. En lausnin á því er samt jafn fyrirsjáanleg og flest annað í myndinni. Ryan er ekki allur eins og hann er séður – en beinagrindin í skápnum hans er akkúrat sú sem maður bjóst við að finna. Og það hve auðveldlega Cassie slítur sambandinu staðfestir sömuleiðis hversu illa hún sjálf er skrifuð sem persóna, hversu mikið sem Mulligan reynir að glæða hana lífi.

Hluti vandans er líka að Cassie er ekki að hefna sjálfrar sín, heldur látinnar vinkonu sem var nauðgað. Sem er ekkert galið út af fyrir sig, en þetta þýðir að það gleymist alveg að gefa Cassie sinn eigin persónuleika, hún er ekki bara föst í hefnd gamallar vinkonu heldur föst í lífi hennar og örlögum líka.

Í upphafi myndar er hún frekar stefnulaust að góma grunlausa karlmenn sem hún þekkir ekki í net sitt. Leikararnir voru víst valdir út frá því hversu vel þeir samsvöruðu hugmyndinni um „góða strákinn“ – annað hvort útlitslega eða út frá fyrri hlutverkum – en vandinn er að þeir hegða sér allir frá upphafi eins og slepjuleg rándýr, þannig að fljótt fer allur kraftur úr hugmyndinni um að sýna að góðir strákar nauðgi líka, af því áhorfandinn áttar sig strax á að það eru þeir ekki. Þeir haga sér eins og alltof mikil kríp strax í upphafi til að leyfa nein óþægileg mórölsk svæði.

En svo kemst hún sem fyrr segir á snoðir um að skúrkur háskólaáranna sé mættur aftur – og það gerist allt með ótrúlega heppilegri röð heppilegra tilviljana; hún fær óvænt myndband upp í hendurnar, kærastinn tengist inn í málið með heppilegum / óheppilegum hætti og svo framvegis; það var akkúrat þetta sem Aristóteles átti við með Guðinum í vélinni – skáldskapartrikki sem var orðið ofnotað í Grikklandi til forna, og þú kemst alls ekki upp með í nútímanum nema að vanda þig þeim mun betur.

Þetta er einfaldlega mynd sem virðist skrifuð af algóryþma sem var búinn að lesa of margar Buzzfeed greinar. Hún talar beint inní samtímann – of beint, hér kemur ekkert á óvart, þetta er akkúrat myndin sem við vorum að búast við á tímum áhrifavalda og #metoo – tveggja gerólíkra birtingarmynda okkar Twitter-tíma sem einhvern veginn mætast hérna í óheppilegu faðmlagi.

Myndin er líka dálítið eins og hnyttinn en innihaldslaus Twitter-status, brynjuð kaldhæðni sem á endanum yfirbugar hana. Hún er stílíseruð í drasl – og það þarf ekkert að vera slæmt. Virkar vel á köflum, það er gaman hvernig hún leikur sér með poppaða slagara á borð við Toxic og gerir úr þeim hálfgerða hetjusöngva. Þetta er bleikur tyggjókúluheimur með sínar eigin epísku ballöður.

En til að stýlísering virki þurfa alvöru tilfinningar að koma manni á óvart á ólíklegustu tímum. Hér er hún brynja, fyrir persónurnar en ekkert síður áhorfendurna; hún spyr sjaldnast virkilega erfiðra spurninga – og þegar hún gerir það, þá flýr hún oftast á hólmi áður en svarið kemur. Hún skorar áhorfandann aldrei móralskt á hólm, lætur hann aldrei þurfa að horfast í augu við virkilega áleitnar spurningar.

En auðvitað er tvist. Það var fyrirsjáanlegt að það yrði þarna – en það nær samt að koma á óvart í eðli sínu og er ágætlega útfært, skyndilega er maður í örskotsstund ekki alveg viss hvað gerist næst, við erum komin á ögn óþægilegan stað.

En það endist ekki lengi, það tekur fólk nánast engan tíma að komast aftur á sjálfstýringu, það vantaði alveg eitthvað lágmarks hik eftir þennan óvænta atburð – en nei, hér haga sér allir nákvæmlega eins og algóryþminn fyrirskipar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson