Því að tala um tónlist hefur stundum verið líkt við að dansa um arkitektúr. En það er að sumu leyti gert í myndinni Síðasti blökkumaðurinn í San Fransisco. Þetta er kvikmynd um arkiektúr, jafnvel úr arkitektúr. Strax í byrjun, löngu áður en manni vitrast umfjöllunarefni myndarinnar, tekur maður eftir hvernig myndin rammar húsin inn og sömuleiðis annan arkítektúr, borgarlandslag, auð tún.

The Last Black Man in San Francisco er augljóslega ekki bókstaflegur titill, þeir eru alveg nokkrir eftir þar ennþá. En maður áttar sig betur á torræðum titlinum eftir því sem líður á myndina. Jimmy Fails leikur hér sögupersónu að nafni Jimmy Fails. Þetta er lauslega sjálfsævisögulegt verk og sagan er frá honum komin upphaflega. Hann og félagi hans dytta reglulega að gömlu húsi, í óþökk hvítra eigendanna. Þetta virðist einkennileg árátta, á sama tíma og flestir eiga í erfiðleikum með að fá iðnaðarmenn þá losna eigendur þessa húss ekki við þá. En svo missa hjónin húsið, það festist í langvinnri erfðadeilu sem gefur þeim félögum færi á að gerast hústökumenn.

Þetta er auðvitað ekki hvaða hús sem er; þetta er bernskuheimili Jimmys, húsið sem hann segir öllum að afi hans hafi byggt. Saga San Fransisco er rifjuð upp, hvernig Japanskir frumbyggjar hrökkluðust í burtu í kringum heimsstyrjöldina, hvernig svörtu mennirnir eru að hrökklast í burtu núna. Húsið verður sjálfstæð persóna í myndinni, þetta risastóra glæsihýsi sem skyndilega hýsir menn sem aldrei munu hafa efni á að kaupa það. En San Francisco ýtir þér í burtu á endanum. Og frumbyggjarnir verða landlausir á endanum. Rifnir upp með rótum. Ástæðurnar eru mismunandi. Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvort afi hústökumannsins okkar byggði húsið sjálfur; þótt það sé ágætis metafóra um þjóð sem hvíti maðurinn lét svarta manninn, indjánana og Asíubúana byggja fyrir sig.

En þetta er mynd um uppavæðinguna, um gentrification, þar sem listamenn og fátæklingar, jaðarhópar, blökkumenn og Japanar byggja upp andrúm staðar, gefa honum sál, og með sálinni verðgildi. Gera borgina of dýrmæta fyrir þá sjálfa. Þannig að hvíti maðurinn flytur inn. Ríka fólkið. Og þeir sem gáfu staðnum sálina hrökklast hægt og rólega í burtu þangað til það verður bara einn eftir. Svarti maðurinn sem var einn í heiminum.

Þetta er saga sem maður sér í mismunandi myndum um allan heim. Svona byggjast borgir upp, svona öðlast þær sál, með listamönnum og fátæklingum.  Þeir móta borgirnar, gefa þeim orðspor og andrúm, sem þær selja svo túristum. Bóhemarnir, þetta einkennilega orð sem varð til í samslætti sögunnar; þegar sígaunar, rómafólk, mættu til Frakklands með bréf frá konungi Bæheims upp á vasann, sem skýrir misskilda nafngiftina. Blönduðust svo öðrum sígaunum sem og fátæklingum úr öllum áttum. Þarna blómstraði listin og lífið og úr varð hin bóhemska París, þar sem engir sígaunar hafa efni á að búa lengur, vitaskuld, ekki nema kannski í gettóunum sem umkringja borgina.

Sama gerist í San Francisco og öðrum borgum, þar sem frumbyggjarnir hrekjast út á jaðarinn, jafnvel í burtu frá borginni. Jimmy Fails hittir fyrir tvær ofdekraðar hvítar stelpur í strætó sem úthúða borginni og hann yfirheyrir þær, hvass, og segir þeim svo sín ástarorð til borgarinnar sem nú vill fleygja honum út á gaddinn: „Þú færð ekki að hata hana nema þú elskir hana.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 10. maí 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson