Nú þegar Evróvisjón er lokið er tímabært að rifja upp litlu systur keppninnar sem flestum eru löngu gleymdar. Fyrir 1989 voru nefnilega fæst Austantjaldslöndin í sambandi Evrópskra sjónvarpsstöðva, sem voru fyrst og fremst vestræn samtök, en hins vegar voru gerðar nokkrar skammlífar tilraunir til að halda sambærilega keppni á milli ríkja Varsjárbandalagsins.

Þar ber helst að nefna Intervision keppnirnar – önnur þeirra var haldin í Tékkólslóvakíu árin fjögur áður en skriðdrekarnir ruddust inn og bundu enda á vorið í Prag 1968, önnur keppni með sama nafni var svo haldin í Póllandi árin 1977-80 en varð sömuleiðis vaxandi pólitískri ólgu að bráð.

Karel Gott var stjarna fyrri keppninnar – vann tvær af þeim og var í öðru sæti í þeirri þriðju, Johnny Logan Austur-Evrópu. Silkimjúkur söngvari sem manni finnst tékkneska þjóðin oft eiga í svipuðu sambandi við og Íslendingar við Ragga Bjarna – og báðir eru nýlátnir. Þegar Gott lést voru veggjamyndir af honum víða – og allavega ein er ennþá nálægt miðbænum – og það var meira að segja framleitt sérstakt Karel Gott konfekt og súkkulaði söngvaranum til heiðurs.

Hann var þó ekki óumdeildur – hann var sumum tákn íhaldseminnar, en flaut einhvern veginn alltaf áfram á flauelsmjúkum ballöðum, úr kommúnisma yfir í ýmsar gerðir af kapítalisma – en annars er frægum dúett hans og andspyrnusöngvarans og nafna hans Karel Kryl gerð betur grein fyrir í grein minni um tékkneska byltingarsöngva. Og tékkiði líka bara á Kryl, fallegri þjóðlagasöng finniði einfaldlega ekki.

En fyrir þá sem vilja silkimjúka Gott-tóna þá má sjá hann syngja og veita eiginhandaráritanir í Karlovy Vary 1968.

Heimavöllurinn nýttist Tékkum vel – Eva Pilaróva vann keppnina líka, fyrir lag sem er kannski ekkert frábært en tékkið á myndbandinu – þetta er eins og Ingmar Bergmann að leikstýra músíkvídjói.

Langbesta sigurlagið kom hins vegar frá Búlgaríu – en hún Lili Ivanova rauf tékknesku einokunina með laginu Adagio. Hver veit nema að keppnin hefði orðið langlífari ef hin sigurlögin hefðu verið jafn góð?

En heimurinn var ekki jafn svart-hvítur í kalda stríðinu og einfaldaðri útgáfur mannkynssögunnar kenna okkur oft. Þarna komu reglulega gestasöngvarar að vestan – og sjálfur Karel Gott söng raunar í sjálfri Evróvision fyrir Austurríki, og var raunar alla tíð ágætlega vinsæll í hinum þýskumælandi heimi líka.

Einn þessara gestasöngvara var hin þýska Alexandra með kvæðið um Sígaunastrákinn, Zigeunerjunge. Alexandra þessi var kannski þýsk en mjög upptekin af öllu sem slavneskt var alla tíð og hóf ferilinn með að syngja hér og þar á þýskum börum – og söng þá til skiptis eigin lög og slavneskar ballöður.

Ferilinn komst svo á mikið flug með áðurnefndu kvæði um Sígaunastrákinn þegar hún var 25 ára, sem og Mein Freund der Baum, Vinur minn tréið, sem var hennar fyrsti frumsamdi smellur.

Hún var þegar þarna er komið sögu rísandi ungstirni, farinn að vinna með lykilfólki í tónlistarsenu heimsins, fór meðal annars til Brasilíu til að vinna með bossa nóva stjörnunni Antonio Carlos Jobim, sem samdi The Girl From Ipanema sem Frank Sinatra og fleiri gerðu frægt.

En þá bankaði ógæfan upp á. Hún var fulltrúi Þýskalands í 27-ára klúbbinn – lést í bílslysi ásamt móður sinni aðeins rúmum mánuði eftir 27 ára afmælið, en fyrr um árið hafði faðir hennar látist. Ungur sonur hennar, hinn sex ára Alexander, lifði hins vegar af með aðeins örfáar skrámur – en merkilegt nokk var Alexandra skýrð eftir þessum syni sínum.

Hún hafði nefnilega gifst ung – miklu eldri rússneskum manni – og við það varð Doris Wally Treitz að Doris Nefedov. Þannig að þegar skammlíft hjónabandinu lauk þá ákvað hún einfaldlega að taka upp nafn sonar síns.

Dauði Alexöndru hefur þó löngum verið talinn dularfullur – og tekur mikið pláss bæði í ævisögu hennar og kvikmynd um söngkonuna. Meðal annars hefur komið í ljós að elskhugi hennar þegar hún dó var, án þess að hún vissi það, amerískur njósnari sem átti raunar eiginkonu í Danmörku. Bíllinn var auk þess nýkominn af versktæði og þau skötuhjúin höfðu rifist heiftarlega rétt áður – sem allt hefur orðið til þess að mörgum þykir margt gruggugt við þetta meinta slys.

En minnumst hennar með að ljúka þessu á Vini hennar trénu – sem í nafni útúrdúranna er hið formlega föstudagslag, þótt það hafi aldrei keppt í virðulegri austur-evrópskri söngvakeppni.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Lykilupplýsingar um Intervision má lesa um í grein Raymond Johnson á Expats.cz.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson