Við erum stödd á aðaltorginu í Prag fyrir sléttum þrjátíu árum. Það er sjötti dagur Flauelsbyltingarinnar, fólk fyllir Venceslas-torg – og kona kemur út á svalirnar. Kona sem hafði ekki sungið opinberlega í nærri 20 ár, en hafði verið vinsæl söngkona undir lok sjöunda áratugarins. Lagið „Modlitba pro Martu“ (Bæn fyrir Mörtu) hafði verið eitt af einkennislögum andspyrnunnar strax árið 1968 og þegar Marta stígur út á svalirnar þagna allir.

Þetta er einfaldur texti, fjallar um að fólkið fái völdin á ný, að sólin brjótist í gegnum skýin. Einföld bæn – og Marta var komin aftur! Niðrá torgi þerrar gamall maður tárin.

Marta Kubišová var vinsæl áfram fyrstu árin eftir að skriðdrekar Varsjárbandalagsins keyrðu inn í Prag en falsaðar klámmyndir af henni voru notaðar sem skálkaskjól til þess að banna henni að koma fram, eitthvað sem breyttist ekki þótt hún hafi unnið meiðyrðamál vegna myndanna fölsuðu. Drusluskömmin þrælvirkaði árið 1970. Næstu 19 árin þurfti hún að láta sér lynda að syngja aðeins á bönnuðum neðanjarðartónleikum og missti meðal annars af tækifæri til þess að verða söngkona andspyrnuhljómsveitarinnar frægu Plastic People of the Universe.

Annar lykilóður vorsins í Prag var „Bratříčku, zavírej vrátka“ (Litli bróðir, lokaðu hliðinu) sem Karel Kryl samdi bókstaflega nóttina sem skriðdrekarnir runnu inn í Prag. Lagið fjallar um úlfana sem hafa umkringt þá, um að þessi nótt verði löng, um að gefast ekki upp. Kryl hafði flutt til Prag fyrr um árið og flutti til München ári eftir hertökuna og fékk þar pólitískt hæli og vann fyrir Radio Free Europe auk þess að semja tónlist og flytja hana fyrir aðra tékkneska útlaga – auk þess sem plöturnar hans gengu manna á millum ólöglega í heimalandinu.

Kryl var trúbador, stundum kallaður hinn tékkneski Bob Dylan, og heimsótti landið ekki í nærri tuttugu ár. En fyrir tilviljun fékk hann sérstakt leyfi til þess að heimsækja landið í einn sólarhring haustið 1989 – til þess að vera við jarðarför móður sinnar. En það teygðist úr þeirri heimsókn. Stuttu fyrir jól söng hann svo tékkneska þjóðsöngin með sjálfum Karel Gott – Ragga Bjarna þeirra Tékka, sem nýlega dó í hárri ellri. Ólíkari söngvarar finnast varla, þetta var andspyrnan og huggulega íhaldssemin, saman komin á sömu svölum.

Þetta var þótti mörgum fallegt augnablik, en Kryl sá eftir þessu og átti raunar eftir að verða mjög gagnrýninn á hið nýja lýðræði sem olli honum vonbrigðum, eins og heyra má í laginu „Demokracie,“ sem hann samdi skömmu fyrir andlátið – en hann lést aðeins fjórum og hálfu ári eftir Flauelsbyltinguna, þegar hann átti aðeins mánuð í fimmtugt.

Í laginu segir hann að þeir sem hafi stolið frá þeim öll þessi ár steli nú ennþá meiru og þeir sem hafi kvalið þau öll þessi ár reki fólk núna úr vinnunni. Og yfir þessu öllu syngju „Gott og Walda.“ Mörgum gömlum aðdáendum hans þótti hann óþarflega bölsýnn – en kannski var hann bara forspár um það að gamall kommanjósnari yrði orðinn forsætisráðherra einungis 30 árum síðar?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson