Við erum stödd í plötubúð með málglöðum unglingum snemma á tíunda áratugnum. Þau eru búin að tala mestalla myndina – enda orðin talþyrst eftir langar og einmanalegar lestarferðir. En þetta var á síðustu öld – þar sem fólk þvældist bara í plötubúðir með hlustunarbásum í staðinn fyrir að finna lögin á Spotify, þannig að loksins þagna þau – og setja Kath Bloom á fóninn.

„Vindurinn blæs að norðan og hvíslar: komdu, komdu …“ syngur Kata – en þetta er samt göldróttara á enskunni:

There’s wind that blows in from the north

And it says that loving takes this course

Come here

Come here

Þetta er einhver eftirminnilegasti dans augntillita í kvikmyndasögunni; þau hafa nýlega hist, eru bálskotin hvort í öðru en ná ekki að koma orðum að því – líta undan þegar augun mætast, stara til skiptis – heilluð, feiminn, nánast dösuð af undrun yfir því hvert lífið leiddi þau skyndilega. Beint inní heilan þríleik bíómynda, Before Sunrise, Before Sunset og Before Midnight, sem ég sá allar saman í Kino Aero um daginn; og sá þá loks fyrstu myndina í bíó – Borgarbíó var nefnilega ekki að standa sig nógu vel með amerískar indímyndir þarna í kringum 1995 – og sá þær líka í fyrsta skipti allar í röð. En meira um myndirnar sjálfar síðar – byrjum á músíkinni.

„No I’m not impossible to touch“ syngur hún svo í öðru erindinu, lína sem gengur í endurnýjun lífdaga í næstu mynd, þar sem Jesse lýsir því hvernig hann gruni að hann muni leysast upp í öreindir ef einhver snerti hann.

Það fallegasta við söguna er samt kannski hvernig sú staðreynd að þau völdu akkúrat þetta lag bjargaði tónlistarferli Kath Bloom. Hún  var þegar þarna var komið sögu hætt að semja músík, síðasta platan eftir tæplega áratugs feril kom út árið 1984 og það seldust bara 300 eintök. Í kjölfarið fylgdu fjárhagserfiðleikar, Bloom var einstæð móðir og ströglið leyfði litla sköpun. En í kjölfar þess að lagið var spilað í þessari ógleymanlegu senu í Before Sunrise fór ferillinn hægt og rólega á skrið aftur – ekkert svaka flug kannski, þetta var indílag í lítilli indímynd sem tók langan tíma að öðlast verðskuldaðan költ-status – en bara það að hún hafi haldið áfram að syngja er samt þess virði.

Lokalag myndarinnar er líka spilað yfir þögninni. Þar syngur önnur Kata, Kathy McCarty, cover-lag frá Daniel Johnston, Living Life. Við sjáum þau í rútu og lest, fjarlægjast hvort annað, en við sjáum samt aðallega Vín að vakna – gömul kona tekur sinn hægláta morgunlabbitúr undir laginu, labbandi löturhægt út í morguninn. Heimurinn er að komast á ferð, atburðir næturinnar að hverfa inn í fortíðina og gestir næturinnar á hraðferð út í buskann.

Þriðja lykillag seríunnar er svo auðvitað lokalag Before Sunset – þar sem Julie Delpy syngur sjálf. Hún syngur fleiri lög í myndinni, sándtrakk myndarinnar er að stórum hluta hennar – en þetta er það eina sem við sjáum hana syngja – þar sem hún gerir upp sambandið, fær hann til að vera áfram – eða það minnti mig, atriðið er svo sterkt að það rann saman við loka-loka atriðið þar sem hún leikur Ninu Simone á tónleikum.

Og ég á auðvitað enn eftir að minnast á alla klassísku tónlistina í fyrstu myndinni, enda erfitt að gera rómantíska bíómynd í Vín án þess að klassík komi við sögu, og þetta er eftirminnilegast út af því hvernig það spilar saman við söguna; Bach á sembal á meðan þau taka ljósmynd án myndavélar – enn ein staðfestingin á að við erum stödd í annarri öld.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson