Eftir að hafa eytt helmingi fullorðinsáranna í útlöndum og á útlandaflakki þá er líklega tímabært að skila ábyrgðinni á réttan stað; þetta er allt Richard Linklater að kenna. Eða kannski að þakka, öllu heldur. Annars væri ég kannski bara að bölva enn einu vondu sumri á Íslandi.

Ég var átján ára þegar ég sá Before Sunrise fyrst. Þetta var fyrsta myndin sem ég bókstaflega spólaði til baka og horfði á strax aftur, á þessum dásemdardögum VHS-tækninnar. Öllum þessum árum seinna gleymi ég henni samt oft þegar ég er spurður um uppáhaldsmyndir – það er nánast of persónulegt svar til að fá að vera með í þeirri umræðu. Sem er auðvitað vitleysa í mér, bestu myndirnar eru alltaf persónulegar.

Þetta var 1995 og kaldhæðnin og nýhilisminn var í algleymingi – Pulp Fiction var aðal myndin og Trainspotting fáeinum árum seinna, kröftugar og vel skrifaðar myndir sem töluðu samt ekki til mín – áttu ekki eiginlegt erindi til mín; einlægni var ekki í tísku, kannski sem betur fer – einlægni verður oft ansi grunn þegar hún kemst í tísku.

Myndir eins og Say Anything …, Singles og Reality Bites voru vinjar í þeirri eyðimörk, unglinga/ungmennamyndir sem tóku unglinga og ungmenni alvarlega. Besta stöffið var samt grafið djúpt í óháðu senunni, myndir sem aldrei komu í bíó til Akureyrar – myndir eins og myndirnar hans Linklater – Slacker og Dazed & Confused sem ég átti eftir að finna seinna og svo þessi, myndin eina, um ævintýrið fyrir sólarupprás.

Linklater hefur alltaf verið tilraunaglaður, gert myndir um tímann og samkipti fólks, bæði samband þess við tímann og hvert annað. Þannig var myndavélin sjálf í aðalhutverki í Slacker, þar sem hún fylgdi íbúum Austin í Texas eftir – það er engin persóna í mynd í meira en 2 mínútur – myndavélin er í aðalhlutverki og hún er með athyglisbrest, um leið og einhver áhugaverðari labbar fram hjá fylgir auga myndavélarinnar næsta manni. Líklega var þetta forspá myndavél, að gera það sem fólk gerir núna á Instagram og TikTok og Youtube.

Dazed & Confused var svo millistigið – fjölradda mynd um kvöld í lífi menntaskólakrakka. Nokkrir krakkarnir eru svo sannarlega í fókus, sú mynd er, rétt eins og andlegur forveri hennar American Graffiti, smásagnasveigur með svipmyndum úr lífi nokkurra tengra ungmenna. Og báðar eiga sameiginlegt að þarna voru margar framtíðarstjörnur uppgötvaðar – Ben Affleck, Matthew McConnaughey, Milla Jovovich, Joey Lauren Adams og Parker Posey eru öll þarna, sem og Renée Zellwegger í mýflugumynd.

En í Before-myndunum eru þau bara tvö. Svona að mestu. En þegar ég horfi á þær allar í beit núna – í fyrsta skipti, þökk sé Kino Aero hérna í Prag – þá átta ég mig samt á að einn stærsti kostur Before Sunrise eru aukapersónurnar. Engin þeirra stoppar lengi en allar eru þær stórkostlega eftirminnilegar. Ljóðskáldið, spákonan, semballeikarinn, áhugaleikararnir sem léku hestinn, gjafmildi barþjónninn, jafnvel gestir á bar sem við fáum svipmynd af áður en myndavélin finnur Jesse og Celine aftur. Og gamla konan sem gengur út í morguninn þegar elskendurnir skiljast að. Linklater var greinilega í góðu formi í því að draga upp skarpa drætti af persónum á örstuttum tíma eftir persónugallerí fyrri myndanna.

En að byrjuninni. Lestinni sem rann í gegnum Evrópu, væntanlega einhvers staðar í Austurríki – á leið til Vínar og svo Parísar. Það eru hjón að rífast – miðaldra hjón. Þreytt á rifrildinu flýr Celine (Julie Delpy) sætið og sest í tóma sætaröð, rétt hjá Jesse (Ethan Hawke). Hann spyr hvað þau hafi verið að rífast um, hún er ekki viss, þýskan hennar er ekki nógu góð. En þau áttu eftir að eiga þetta rifrildi seinna sjálf – í síðustu mynd þríleiksins, sjálf orðin miðaldra, sjálf hætt að heyra nógu vel í hvort öðru eftir öll þessi ár.

En auðvitað dreymir þau ekki einu sinni um það þarna – og spurning hvort það myndi gleðja þau eða hryggja ef þau myndu vita af því? Allavega, þau taka upp spjall saman í matarvagni lestarinnar – þar sem Jesse spáir réttilega fyrir um framtíð samfélagsmiðlanna, þótt óbeint sé, veltir fyrir sér sjónvarpsþætti með hversdagslífi fólks um heim allan, 24 tíma sólarhrings – þar sem hver þáttur inniheldur öll smáatriðin, „leiðinlegu hversdagshlutirnir sem kæfa líf okkar,“ spyr Celine og hann svarar „eða ljóðlist hversdagsins.“

Þau eru á sömu blaðsíðunni en þurfa samt reglulega að bregða fyrir sig kaldhæðni kynslóðarinnar sem þau tilheyra. Svo er komið af lykilsenunni; þar sem Jesse sannfærir Celine að koma með sér út úr lestinni og eyða nóttinni með honum á flandri um Vínarborg. Þaðan á hann flugmiða morguninn eftir, hún hins vegar er bara á leiðinni heim til Parísar.

Þetta er ótrúverðugasti hluti þríleiksins alls, við höfum sjálfsagt öll átt akkúrat þetta móment – þar sem enginn tekur á skarið, þar sem allir halda sig bara við sín ferðaplön þótt þá hafi mikið langað að breyta þeim (Útúrdúr 1: Eins og ég, djöfull átti ég að stökkva í land með sætu amerísku stelpunni í Grikklandsferjunni þegar hún og ferðafélagar hennar fóru frá borði í Krít og ég hélt áfram til meginlandsins eins og einhver vitleysingur).

En þessi hluti er nauðsynlegur til að ævintýrið geti byrjað – og trúað okkur svo fyrir því þegar fá líður að þetta sé alls ekkert ævintýri, þetta sé ástarsaga – með öllu því messi sem því fylgir.

Þau stíga frá borði – og á leiðinni í töskugeymsluna muna þau loksins smáatriði eins og að kynna sig. Fólk náttúrulega kunni sig ekki á 20. öldinni, sjáiði til. Nýmætt hitta þau svo frábæra fulltrúa nörda-artí-Vínarborgar, tvo lúða á göngubrú sem eru að leika kú eina í áhugaleikhúsi. Nett kaldhæðnir og vinalegir heimamenn, hér er augnablikum safnað saman, þau koma öll saman eina og sömu nóttina – það er einhver galdur í loftinu, á hverjum einasta stað sem þau heimsækja.

Þannig er þetta ferðamynd ekki síður en rómans; áhorfandinn verður hægt og rólega ástfanginn af Vín, á meðan þau verða ástfanginn hvort af öðru (og jú, jú, auðvitað verður maður skotinn í þeim líka). En samt, ekki síður ástfanginn af ferðalögum. Að fá að vera draugur í friði, öllum fjarri, eins og Jesse orðar ferðalagið. Að verða ástfanginn af þessari dularfullu ókunnugu borg. Rétt eins og bæði framhöldin og mitt eigið flakk átti eftir að sýna mér fram á seinna meir er borgin sjálf ekki endilega aðalatriði (þótt það séu vissulega ekki allar borgir jafn vel til fallnar til þess að leika aðalhutverk í Before-mynd) – ókunnug borg er einfaldlega alltaf göldrótt ef það er á annað borð nógu mikið spunnið í hana og maður er passlega heppinn með stefnulausan flandur sitt um borgina og mátulega móttækilegur fyrir göldrum nýs staðar. Já, og maður er miklu líklegri til að vera skotinn í stelpu á flakki en heima hjá sér, sem er vissulega ópraktískt.

Þau þvælast víða, til dæmis í kirkjugarð, þar sem hún talar um hvernig ein gröf hafi snortið hana – gröf þrettán ára stelpu sem hún uppgötvaði þegar hún var sjálf þrettán ára. Seinna eru þessar þrjár myndir eins og vörður í lífi bæði þeirra og áhorfenda, þegar þeir voru 24, eða 33, eða 42, og þessi augnabliksmynd af 13 ára Celine örlítil forleikur.

Maður áttar sig svo miklu betur á því núna hvað þetta er frábær tímavél. Þetta er Evrópa rétt þegar hún var að byrja að opnast eftir hrun járntjaldins – einhver mystík sem er aðeins fjarlægari núna, einhver forneskja. Eins þessi ástföngnu ungmenni, x-kynslóðin upp á sitt besta – já, og versta – það bölvuðu margir myndinni á sínum tíma, aðallega aðeins eldri kvikmyndagagnrýnendur sem fannst þetta unga fólk auðvitað algjörlega óþolandi.

Úrklippa úr Helgarpóstinum 29 júní 1995.

En þótt þau séu sannarlega málglöð þá er rómansinn ekki síður í augnagotunum. Hawke og Delpy leika þetta einfaldlega stórkostlega. Ég man kannski helst tvö atriði hvað þetta varðar; annars vegar ógleymandlegt atriðið í hlustunarbásnum sem ég skrifaði um hérna – en ekki síður þegar þau eru í kirkju og Jesse rifjar upp kvakarabrúðkaup sem hann fór í með þessum orðum: „Svo stara þau bara hvort á annað í klukkutíma og svo eru þau gift.“ Þau horfast í augu í fáeinar sekúndur, Celine lítur undan – og maður áttar sig á að innst inni var Jesse tilbúinn að stara í klukkutíma, giftast á staðnum.

En um leið og hún lítur undan byrjar hann á næstu gamansögu – þetta eru hans varnarviðbrögð þegar einlægnin verður yfirþyrmandi.

Þau ná svo seinna að trúa hvort öðru fyrir tilfinningum sínum þegar þau hringja heim. Altso, leika símtal – þarna er enginn með farsíma og blankir lestarferðalangar fara sparlega með millilandasímtölin. Fallegasta tímaflakkið er svo undir lokin – þegar Jesse tekur mynd af Celine. Með fingrunum, af því hann er ekki með myndavél. Eitthvað sem væri nánast óhugsandi aldarfjórðungi síðar.

Þau labba svo dýpra inní nóttina, eru meira og meira á víðavangi, enda færri staðir opnir og sólarupprásin færist nær. Þau eru að verða búin með peningin og kreditkort ekki orðin almannaeign ennþá, ná að semja við góðviljaðan barþjón um vínflösku – og það er lykilatriði sem ég vil fá á hreint ef fjórða myndin kemur: sendi Jesse honum einhvern tímann peninginn?

Og jú, þetta er mynd um ástina og ferðalög – en ekki síður mynd um hugmyndir. Þau eru fjandi góðir amatör-heimspekingar bæði, hvort á sinn hátt, og þetta eldist merkilega vel, ótrúlega margar forspáar pælingar sem fæsta hefði grunað í sakleysi næntísins.

Þegar endirinn nálgast er svo Vín orðinn meiri og sterkari karakter en áður – þessar mögnuðu gotnesku byggingar, rammgöldrótt klassísk tónlistin í loftinu – og já, semballinn í kjallaranum. Borgin er í blóðinu á þeim og það er ekki svo lítil ástæða fyrir ástinni.

Garðurinn og bókabúðin

Svo liðu níu ár og skyndilega kom framhald. Eitt óvæntasta framhald kvikmyndasögunnar, Before Sunrise var lítil mynd sem var aldrei talað nein ósköp um – en ég man þegar ég fór á framhaldið í Háskólabíó hitti ég skyndilega frænkur og vini sem höfðu verið alveg jafn hugfangin af þeirri fyrstu og ég, þetta var költ-mynd sem fólk uppgötvaði ekki almennilega að væri költ fyrr en framhöldin komu.

Og þegar ég hitaði upp með fyrstu og horfði á aðra þá var þetta orðið óþægilega persónulegt; ég hafði hangið lengi í þessum garði úr fyrstu myndinni og komist að því að ég yrði bókabúðastarfsmaður í Shakespeare & Co. ekki löngu áður.

(Útúrdúr 2: Ég var í grænköflóttri skyrtu sem ég hafði erft eftir Ármann bróður og stend fyrir framan útstillingarborð. Ég var greinilega svo bókabúarðlokulegur að par kemur upp að mér og spyr mig um bók. Catcher in the Rhye minnir mig. Nema hvað, um leið og þau sjá undrunarsvipinn og átta sig á að ég er ekki að vinna þarna lít ég niður á hendina á mér sem hvílir á Bjargvættinum í grasinu. Þannig að þarna var það staðfest; ég hafði ekki bara lúkkið í það, heldur líka ofurhæfileikana sem allir bókabúðarstarfsmenn þurfa að hafa. Svo töluðum við heillengi um Paul Auster, sem ég var nýbúinn að lesa mér til óbóta.)

En sumsé, við erum komin til Parísar. Þar sem Celine býr og Jesse er í heimsókn. Þar taka þau upp þráðinn aftur – nema hvað, tíminn er ennþá styttri, aðeins um 80 mínútur áður en Jesse þarf að fara út á völl. Þannig endurtaka þau vissulega tímapressu fyrri myndarinnar – en hálfur sólarhringur með ókunnugum virkar eins og heil eilífð, á meðan 80 mínútur með einhverjum sem þú ert búinn að bíða eftir að hitta í áratug hljómar eins og hrein pyntingaraðferð.

Linklater hafði gert þetta áður, bæði í Slacker og Tape – þar sem Hawke lék á móti Umu Thurman (sem hann var þá giftur) og Robert Sean Leonard (bernskuvin Hawke sem sló í gegn með honum í Dead Poets Society). Slacker var auðvitað fyrst og fremst svipmynd af kynslóð og ákveðinni stund og stað – spennan kom til sögunnar í Tape, þar sem þremenningarnir þurfa að gera upp kynferðisbrotamál, og í Before Sunset, þar sem spennan er einfaldlega þessi: ná þau að kveikja neistann aftur tímanlega?

Það eftirminnilegasta við myndina er þó hvernig þau fara inn í sársaukann. Söknuðinn. Sem tengist þessu kvöldi í fortíðinni, en samt svo ótal mörgu öðru. Þetta er fólk sem vegnar vissulega ágætlega í lífinu en þau finna að hamingjan er handan við hornið, grimm og óhöndlanleg.

Þarna fær myndatökumaðurinn Lee Daniel að skína, myndatakan er auðvitað víða mögnuð – en sérstaklega eftirminnileg þegar þau eiga sársaukafullt samtal á bát á Signu – og andlitin fara ítrekað úr og í skugga, þökk sé brúnum sem þau fara reglulega undir.

Og svo, lokakaflinn. Þegar þau fara heim til Celine – sem á kött, og það er ekkert minnst á hundinn sem Jesse sagðist eiga í fyrri myndinni. En allavega, Celine heilsar nágrönnunum (foreldrum Delpy, sem eru ósjaldan lukkudýr í myndunum hennar, en í stóru hlutverki í myndum sem hún leikstýri) og bara gangan upp stigann er full af orku og þrá – og svo tekur Celine upp gítarinn og tryggir að Jesse á aldrei eftir að ná þessu flugi.

Átján ár í þremur myndum

Loks kom þriðja myndin níu árum síðar – og aðeins ári áður en Boyhood kom út. Hægt og rólega fór fólk að átta sig á að þetta var langmetnaðarfyllsta tilraun Linklaters með tímann – að láta fólk raunverulega eldast fyrir framan myndavélina, hvort sem það er í þríleiknum og eða í einni mynd – og það gerir Boyhood hálfpartinn eins og aukamynd í þríleiknum. Þematískt má svo auðvitað tengja þær á margan hátt, strákurinn í Boyhood er sonur Hawke en gæti ekkert síður verið hans yngra sjálf, hér eru ótal tengdir angir um það hvernig tíminn tengir sig við okkur og breytir okkur.

En aftur að Before Midnight. Við erum stödd í griskri sveit, á Pelópsskaganum, þar sem fjölskyldan er stödd í sumarfríi. Það hafa bæst við tvíburar – en svo hittum við líka fyrir son Jesse úr fyrra hjónabandi, skilnaðarbarnið, afleiðingu þess að Jesse skrópaði í flugið níu árum fyrr.

Sá harmur Jesse er fjandi vel gerður, harmurinn yfir að hafa strákinn bara yfir sumarið, að finnast hann vera að missa hann með því að hafa hann þetta takmarkað í lífi sínu – og það hefði vel mátt fara dýpra í það.

Hjónabandið virðist ágætt – en það er vitaskuld ýmislegt sem marar undir, sem kemur svo allt upp á yfirborðið í miskunarlausu rifrildi seint í myndinni. Þetta er nærri-því-skilnaðarmynd, mynd um eitt af þessum augnablikum í lífi hjóna sem hefðu getað endað sambandið, ef þau hefðu ekki náð að sættast.

Það er sena um miðja mynd þar sem aukapersónurnar fá að glansa – en fyrir og eftir eru þær í bakgrunninum, eins og þær hafa verið frá því í fyrstu myndinni. Kannski er þetta bara ég, kannski eru þetta það persónulegar myndir og kannski þarf maður að vera búinn að finna sína Celine/sinn Jesse OG fá nóg af henni/honum til að tengja, en samt – þetta er vissulega eftir sem áður fantagóð mynd – betri en langflestar, en einfaldlega ekki í sama klassa og hinar tvær.

Kannski spilar inn í að Kim Krizan – samhandritshöfundur í fyrstu tveimur – er fjarri? Það spilar alveg örugglega inní að Lee Daniel er ekki lengur á bak við myndavélina, Pelópsskaginn verður einfaldlega aldrei jafn heillandi og Vín og París fyrri myndanna. Og það vantar alveg eftirminnilega músík í þetta skiptið, sem er óvenjuleg yfirsjón hjá Linklater, hér er bara auðgleymanlegur grískur múzak sem bakgrunnstónlist.

Kannski er þetta allt til merkis um aldurinn? Þau taka ekki lengur jafn vel eftir fólkinu í kringum sig, né umhverfinu, eru orðin samdauna. Þetta er mynd um hjón sem ranghvolfa augum, um hjón sem eru skyndilega föst í tímanum. Núna er klukkan ekki að tikka – þau hafa allan tímann í heiminum, hvað gera þau þá? Núna er það að fara val; áður var það val að vera.

Og þótt lokakaflinn sé ekki alveg jafn göldróttur og forverarnir er þetta engu að síður einhver magnaðasti þríleikur kvikmyndasögunnar; um hvernig við eldumst, um tímann, um ferðalögin, um að vera draugur í erlendri stórborg – já, og um ástina, auðvitað um ástina. Þess vegna verða sjálfsagt flestir pistlar um þessa mynd nett ritskoðaðir – við erum vonandi flest nógu heppinn að hafa átt einstaka galdrastundir á borð við þessar sem er ómögulegt annað en að spegla myndirnar í.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson