Jesse og Celine, aðalpersónurnar í Before Sunrise, eru nýbúnar að eiga sitt fyrsta rifrildi. Nógu meinlaust samt til að djóka með það stuttu síðar. En hvað bjargaði þeim? Jú, auðvitað ljóðskáldið!

Þau eru að rölta meðfram ánni þegar dularfullur maður ávarpar þau; má bjóða þeim ljóð? Þetta er þó ekki Bjarni Bernharður, heldur leikarinn Dominik Castell, sem á endanum fer með ljóð eftir David Jewell.

Hann biður þau um orð – orð sem hann muni koma fyrir í ljóðinu, ljóðinu sem þau geti svo borgað fyrir það sem þeim sýnist, ef ske kynni að ljóðið bæti einhverju við líf þeirra. Það má segja að þetta sé ágætis örmynd af sambandi skálds og lesanda – en samningurinn er orðaður öðruvísi en venjulega, en samt með hinu hefðbundna óorðaða samningi götunnar; þegar maður kaupir bækur er óvíst að þær bæti neinu við lífið, en maður veit það ekki fyrr en maður hefur fjárfest í þeim.

Orðalagið er líka fallegt; fólk getur notað ljóðið fyrir hvað sem er, skilyrðið er aðeins að það bæti einhverju við lífið. Hvort sem það er hugsun eða tilfinning, sorg eða gleði.

Ljóðið er um engil blekkingarinnar, Delusion Angel (þótt stöku sinnum sé ljóðið líka bara kennt við mjólkurhristinginn – orðið sem þau gáfu honum). Hann yrkir í raun í orðastað Jesse – já, eða kannski er hann bara jafn skotinn í Celine og hann? Hver veit, kannski er önnur tímalína þar sem hún endar með ljóðskáldinu?

Því orðin eiga öll ágætlega við Celine – hann byrjar á því að lýsa hvernig hann sér hana fyrst, það hvernig hann lýsir henni ekki svo ólíkt því hvernig Jesse lýsir Botticelli-andlitinu á henni seinna.

Þegar á líður vill hann samt að þau kynnist betur, veltir því fyrir sér hvort þau séu kannski búin að kynnast nógu vel nú þegar. Lýsir sjálfum sér sem blekkingarmeistara og skrúðgöngu:

I am a delusioned angel,

I am a fantasy parade,

I want you to know what I think,

dont want you to guess anymore,

En þarna er hann að lýsa Jesse, sem í óöryggi sínu segir brandara og er einlægur til skiptis. Flýr í djókið þegar honum finnst hann hafa berskjaldað sig óþægilega mikið. Við gerum þetta mörg, þetta er einhver línudans, hversu miklu erum við tilbúin að trúa fólki fyrir?

Seinna meir lýsir hann kvöldinu ágætlega:

you have no idea where I came from,

we have no idea where we’re going,

launched in life,

like branches in the river,

flowing downstream,

caught in the current,

Þetta er lykilatriði í þessum rómans; hvorugt þeirra á heima þarna, en einhvern veginn bar straumurinn þau í sömu átt, í sömu lest.

Dreifðar ljóðabækur

En aftur að samspilinu á milli hlustenda og ljóðskálds. Ljóðskáldið minnir aðeins á Jesse, fáeinum árum eldri, ekki beint líkir en svipað lúkk – mætti kannski segja að Jesse hefði getað endað svona, sem ströglandi ljóðskáld, en endaði í staðinn sem metsöluhöfundur. Ljóðskáldið er Jesse ef hann hefði borist með næsta straum.

Jesse er auðvitað sýnískur á þetta allt saman – bæði tengja sterkt við ljóðið en Jesse veltir því samt fyrir sér hvort hann hafi ekki bara komið orðinu „mjólkurhristingur“ fyrir þarna, í ljóði sem þegar var tilbúið? Og strax þarna er hann farinn að hugsa eins og höfundur, farinn að pæla mest í verkferlinu.

Mig grunar eiginlega að hann hafi allavega að hluta til rétt fyrir sér (í skáldskapnum sem myndin er vitaskuld, leikarinn Castell orti þetta auðvitað ekki sjálfur sem fyrr segir). Mjólkurhristingurinn og kökurnar koma málinu ósköp lítið við þótt hann yrki þær sæmilega sannfærandi inní ljóðið – en mig grunar samt kannski að ljóðið gæti verið frumsamið, þótt hann hafi kannski ekki fundið leið til þess að yrkja frumspekilega um mjólkurhristinginn sjálfan.

Ég áttaði mig líka á því að ég nota ýmislegt frá Castell þegar ég les upp. Aðallega þetta; að þótt ég lesi megnið af blaði, þá nota ég oft þessi trikk: að loka bókinni, leggja blaðið frá sér, rétta ljóðið næstu manneskju, um leið og maður fer með lokalínurnar. Virkar oftast merkilega vel.

Og sömuleiðis lærði maður það af honum hversu framlag væntanlegra hlustenda getur verið dýrmætt. Stöku sinnum hef ég prófað akkúrat þetta, en kannski oftar leyft hlustendum að velja, biðja um óskaljóð.

En ég hef aldrei gefið ljóð frá mér án þess að eiga afrit, þar dreg ég línuna. En það má vel velta fyrir sér bisnessmódelinu líka.

Hvað ef hann skrifar heila ljóðabók á viku en selur hana alla í burtu? Er það kannski hagkvæmara en að prenta og selja ljóðabækur, svona á endanum? Og hvort líður manni betur með? Saknar hann kannski ennþá ljóðsins sem hann orti fyrir Celine, situr kannski ennþá á bökkum Dónár og bíður eftir að hún labbi aftur fram hjá, svo hann geti fengið að taka ljósrit af ljóðinu sem hann man ekki lengur textann í? Já, eða bara taka símamynd – eitthvað sem hann hefði auðvitað gert þarna árið 1994 ef það hefði bara verið í boði. Eða finnst honum kannski fínt að vera bara laus við þetta, að eiga sína ljóðlist sem augnablikslist?

Og hvernig er höfundarverkið? Er þýska hlutanum dreift um hillur Vínarborgar á meðan enski hlutinn liggur á víð og dreif um hillur ferðalanga heimsins? Svo geta þau skilað sér aftur til Vínar eftir krókaleiðum, eins og þetta ljóð W.H. Auden – sem sannarlega sló óvænt í gegn í bíó um þetta leyti, var nýbúinn að vera í aðalhlutverki í Four Weddings and a Funeral.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson