Emil Zátopek er goðsagnakenndur hérna í Tékklandi, hefur ítrekað verið valinn besti hlaupari allra tíma hjá alþjóðlegum hlaupamiðlum og besti tékkneski íþróttamaðurinn á undan Navratílovu, Lendl, Jagr og Nedvěd.

Síðarnefnda nafnbótin helgast kannski ekki hvað síst af því hann er tékkneskastur þeirra allra – nánast Svejkískur í tilsvörum og karakter – sem krystallast best í myndinni þegar ástralskur hlaupari biður um vatn og fær bjór, „bæheimskt vatn.“

Ég las nýútkomna myndasögu um Zátopek í lestinni til Karlovy Vary og sá svo opnunarmyndina um kvöldið – bæði verkin bera einfaldlega nafn sögupersónunnar, Zátopek. Bæði verk eru gölluð, dálítið flöt, myndin sannarlega betri – listrænt litríkari og snarari í snúningum – og fantavel leikin, Václav Neužil og Martha Issová leika Zápotek-hjónin prýðilega. Tékkarnir voru sérstaklega hrifnir af hversu vel bæheimskir leikarar náðu þykkum mórövskum hreim hjónanna – sjálfum fannst mér mesta afrekið eiginlega hvernig Neužil nær að endurskapa ákveðið útlit og fas sem er varla til lengur í dag – svona leit kynslóðin hans pabba út, það lítur enginn akkúrat svona út í dag.

David Ondříček leikstýrir, en hann er köflóttur leikstjóri, gerði hina fantafínu Einfarar (Samotáři) en hinar myndirnar hans eru misjafnari, aldrei þó beinlínis vondar (og hér er viðtal sem ég tók við leikstjórann fyrir 14 árum).

Aðalvandi Zátopek er einfaldlega um hversu víðan völl myndin fer – og nær eiginlega ekki að gera neinu almennileg skil. Sumsé hið hefðbundna vandamál ævisögulegu kvikmyndarinnar. Endursköpun tíðarandans og hlaupanna sjálfra er hins vegar fjandi góð – og Tékkarnir elskuðu myndina, veittu henni áhorfendaverðlaun keppninnar, en við útlendingarnir vorum öllu volgari – vorum flestir á því að hún væri ágæt, lítið meira.

Það er líka forvitnilegt að bera hana saman við myndasöguna – þær segja í stærstum atriðum sömu sögurnar en túlka þær dálítið öðruvísi. Sérstaklega samskipti hans við eiginkonuna Dönu, sem sjálf varð ólympíumeistari í spjótkasti. Í myndasögu þeirra Jan Novák og Jaromír 99 þá er Emil hvetjandi og nærandi gagnvart Dönu, sem þar virðist vera með netta minnimáttarkennd gagnvart eigin íþróttaferli – hún hefur ekki egóið sem þarf til að fara alla leið. Í myndinni er Emil hins vegar sjálfhverfur og Dana þarf sannarlega að berjast fyrir sínu, berjast fyrir að ná sínu fram gegn þverum og gamaldags eiginmanni.

Eitt sem ég saknaði aðeins úr myndasögunni voru skóverksmiðjurnar í Zlín, þar sem Zápotek vann þangað til hann var nógu frægur til þess að þurfa ekki að þræla þar lengur. Þar er alveg forvitnileg saga, saga um eitt stærsta skófyrirtæki heims, Baťa, sem átti nánast heila borg og náði að lifa af sem kapítalismi í gegnum kommúnismann. Saga sem er rétt svo tæpt á í myndinni, það lítið að þeir sem ekki þekkja til taka vart eftir því.

Pólitíkin í myndinni snýst svo helst um hverjir mega hlaupa og hverjir ekki – og þar beitti Zátopek sér allavega einu sinni, til að einn efnilegasti hlaupari Tékka, Standa Jungwirth, kæmist á Ólympíuleikana – en faðir Jungwirth hafði fallið í ónáð.

Það forvitnilegasta af þessu öllu eru samt æfingarnar – og maður hefði viljað sjá miklu meira af þeim. Zátopek var með einkennilegan hlaupastíl og íþróttamenn þessa tíma eru einmitt svo heillandi af því æfingaferli margra þeirra allra bestu var nánast eins og tilraunastofa brjálaða vísindamannsins; íþróttafræðin voru ekki komin inn á svið vísindanna að nærri sama marki og í dag og þess í stað voru margir bestu íþróttamenn heims menn, sem eins og Zátopek datt í hug eitthvað algjörlega galið æfingaprógramm, og datt líka í hug að hlaupa sitt fyrsta maraþon á Ólympíuleikunum sjálfum. Og vann auðvitað.

Bestu senurnar eru svo auðvitað endursköpuð hlaupin – stundum er hrár raunveruleikinn einfaldlega með allt það drama sem þarf – og myndin er á réttri leið, mögulega þarf hreinlega mini-seríu eða fókuseraðri mynd til að gera Zátopek betri skil?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson