Í myndinni um Ísraels-för Hatara, A Song Called Hate, er meðal annars rætt við ísraelska leikstjórann Nadav Lapid. Hann leikstýrði myndinni SamheitiSynonymes – sem vann Gullbjörninn í Berlín aðeins mánuði áður en Hatari vann forkeppni íslensku Júróvisjón.

Þegar fréttir af sigri myndarinnar bárust heim til Ísrael sagði Miri Regev menntamálaráðherra: „Til hamingju … kannski.“ Þetta er umorðun en ráðherrann sló varnagla, hún hafði ekki séð myndina og árnaðaróskirnar yrðu ekki staðfestar fyrr en hún gæti staðfest að myndin stæðist „gildi Ísraelsríkis, tákn þess og gildi.“

Og núna er Lapid mættur með aðra mynd – mynd sem er að mörgu leyti beint svar við stefnu og aðgerðum Mimi Regev, fyrrverandi menntamálaráðherra Ísraels. En er samt svo miklu meira en það.

Myndin vann dómnefndarverðlaun á Cannes og heitir Hnéskeljar Ahed, eða Habarek upp á hebresku. Umrædd Ahed er palestínsk stúlka. Aktívisti, sem komst í kast við hermenn Ísrael strax sem unglingur og unglingauppreisn hennar varð til þess að hún varð hetja í augum Palestínu-Araba á meðan ísraelskur þingmaður hvatti til þess að einhver myndi brjóta á henni hnéskeljarnar – og þaðan er titill myndarinnar kominn.

Aðalpersóna myndarinnar er þó alls ekki Ahed þessi – heldur leikstjóri nokkur, sem er aðeins kallaður Y í myndinni. Hann ætlar að gera mynd um Ahed, eða mögulega myndbandsinnsetningu, þetta er allt í vinnslu, og í upphafi myndar sjáum við nokkrar áheyrnarprufur – leikkonurnar þar eru í raun í hlutverki sem leikkonur, sem er skemmtileg vísun í eina stórkostlegu heimildamynd allra tíma, Salaam Cinema, sem er í raun bara ein löng áheyrnarprufa.

En svo hverfur Ahed og myndin um hana að mestu úr sögunni, þegar leikstjórinn fer til smábæjarins Sapir í eyðimörkinni, þar sem nýjasta myndin hans verður sýnd á bókasafni bæjarins. Í kjölfarið á hann að halda örstutta tölu um myndina – en til þess að fá borgað þarf hann að skrifa undir eyðublað þar sem hann merkir við nákvæmlega hvað hann muni ræða í þessum fyrirlestri – og umfjöllunarefnin eru auðvitað aðeins efnisatriði sem yfirvöld leggja blessun sína yfir. Væntanlega eitthvað sem stenst „gildi Ísraelsríkis, tákn þess og hugsjónir.“

Það sem flækir málin hins vegar er að þegar hann mætir á svæðið tekur bókavörðurinn Yahalom á móti honum. Hann minnist á að hún hljómi hvorki né líti eins og tölvupóstarnir gáfu til kynna. Með öðrum orðum; hún er ekki stofnanavædda möppudýrið sem hann bjóst við að hitta. Þvert á móti er hún eldklár og almennileg, vel lesin, gullfalleg og sjarmerandi, og þekkir myndirnar hans vel, er alvöru aðdáandi – og er í raun sammála honum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Það er nánast kómísk en um leið falleg rómantísk spenna á milli þeirra þarna í upphafi, leikstjórans og bókavarðarins. Yahalom er á heimaslóðum, hún er bókaormur sem barðist af ástríðu fyrir því að opna bókasafn í litla afskekkta heimabænum – og fékk í kjölfarið stöðuhækkun hjá menntamálaráðuneytinu.

Hún er ástríðukona sem vill berjast fyrir listinni – án þess þó að vera listamaður sjálf – en festist í hlutverki hliðarvarðarins, hlutverki sem er skyndilega búið að gjörbreyta og gera rammpólitískt. Það er hún Nur Fibak sem leikur þennan bókavörð – og ótrúlegt en satt er þetta hennar fyrsta kvikmyndahlutverk, en vonandi verða þau miklu fleiri.

Inn í söguna fléttast svo ógnvænleg saga leikstjórans úr hernum í Líbanon-stríðinu – þar sem blásýra og eitruð karlmennska kemur við sögu. Raunar eiga flestar myndir Lapid það sameiginlegt að maður fær alltaf á tilfinninguna að herinn sé rót alls ills í landinu, þessu landi þar sem hver einasta manneskja fer í herinn – þar sem flestar sögur byrja á orðunum „eftir að ég kláraði herinn,“ frasi sem er algengari en frasinn „eftir að ég kláraði stúdentinn“ hjá okkar herlausu þjóð.

Ég man að ég kallaði Samheiti á sínum tíma mynd um sjálfshatandi Ísraela – ég gæti margfaldað það sjálfshatur með tíu og yfirfært á leikstjórann sem birtist okkur á tjaldinu hérna. Hægt og rólega þróast samræður hans og bókavarðarins Yahalom yfir í uppgjör – uppgjör um allar helstu meinsemdir Ísraelsríkis. Vandinn er bara að óvinurinn er hvergi sjáanlegur – eins og svo oft vill verða.

Þess í stað er náttúrulegum bandamönnum stillt upp hvor gegn öðrum. En athugum að þótt yfirvöld séu í valdastöðu gagnvart honum, leikstjóranum, þá er hann í valdastöðu gagnvart henni, bókaverðinum. Það er enginn að fara að taka eftir því að bókavörður úr eyðimörkinni hverfi – öðru máli gegnir um frægan leikstjóra.

Þar með verður lykilspurning myndarinnar um annars vegar réttlátan málstað og hins vegar það að vera góð manneskja – og átakalínurnar sem myndast þegar það fer ekki endilega saman.

Þetta er reið mynd, um það er engum blöðum um að fletta. Mynd þar sem aðalpersónan segir hluti eins og „Ég mun æla þessu Ísrael mínu í andlitið á menntamálaráðherranum.“ En hún er líka heimspekileg, það er ekki óvitlaust að hafa Nietzsche bak við eyrað þegar á líður – og ljóðræn er hún sömuleiðis, með stórfenglegar setningar eins og þegar leikstjórinn útskýrir skort á leikhæfileikum með orðunum: „Sannleikurinn var of hægur fyrir hann.“

Það er hann Avshalom Pollak sem leikur leikstjórann – en Pollak hefur í gegnum árin leikið sífellt sjaldnar, haft leikinn sem aukabúgrein, því hans aðalstarf er að vera danshöfundur. Og mitt í allri reiðinni og brjálæðinu sem einkennir myndir Lapid þá er alltaf smá dans inná milli, enda ekki almennileg bylting nema það sé dansað. Dansað í eyðimörkinni við franskættað tyggjókúlupopp á milli þess sem við veltum fyrir okkur heimspekilegum spurningum eins og því hversu hægur sannleikurinn sé?

Dómurinn var upphaflega hluti af pistli í Lestinni sem hlusta má á hér.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson