Hvernig virkar samspilið á milli listarinnar og lífsins, tónlistarinnar og annarar listar? Tvær myndir á Berlinale skoðuðu það á forvitnilegan hátt, en rússneski leikstjórinn Alexander Zoluthukin sýndi okkur upptökur af rússneskri sinfóníuhljómsveit að spila tónlist Sergei Rachmaninoff inni á milli atriða í myndinni Rússneskri æsku, Malchik russkiy, sem gerist í fyrri heimstyrjöldinni. Þetta vekur áhugaverðar spurningar um listamenn að fjalla um hundrað ára gamalt stríð og einstöku sinnum virkar þetta samspil og það er eins og tónlistarmennirnir renni saman við hermennina.
En oftast eru atriðin úr nútímanum truflandi og tónlistin passar ekki einu sinni neitt sérstaklega vel við myndina – en sem betur fer er eins og leikstjórinn átti sig á þessu og ef byrjunin er undanskilin þá er þetta mjög sparlega notað. Myndin sjálf er nefnilega ansi mögnuð þrátt fyrir þessa gölluðu nútímatengingu. Áferðin er kornótt, þetta er eins og snjáð myndaalbúm að vakna til lífsins – og fjallar um rússneska herdeild en þó fyrst og fremst um Alexey, sem er nýmættur í herinn, metnaðarfullur og flinkur á harmónikku, en líka afskaplega klaufalegur og óttalega barnalegur – enda bara barn, barnahermaður í stríði sem hann á ekkert erindi í.
Myndin er rétt nýbyrjuð og Alexey ekki búinn að taka nema hálft lag á harmónikkuna þegar sprengjuárás eyðileggur nikkuna og stuttu síðar missir Alexey sjónina eftir sinnepsgasárás. Við fylgjumst svo með honum skakklappast í gegnum hinstu daga stríðsins, strákur í karlaheimi, heimi karla sem eru fæstir tilbúnir í barnauppeldi og sinna því af einskærum klaufaskap þótt einstöku sinnum glitti í föðurlega taug.
Fókusinn á Alexey er líka hjálplegur fyrir þau okkar sem höfum aldrei tekið þátt í stríðsátökum og eigum erfitt með að ímynda okkur það, það er einmitt erfitt að ímynda sér strák eins og Alexey í þessum hildarleik – en þarna var hann nú samt.
Ferðadagbók Polly
Það gengur ólíkt betur að þræða tónlistina við myndefnið í A Dog Called Money, einni bestu mynd hátíðarinnar. Þetta er ferðasaga, sem og tilurðarsaga nýjustu plötu bresku söngkonunnar Polly Jean Harvey, sem er betur þekkt sem PJ Harvey.
Leikstjórinn er írski fréttaljósmyndarinn Seamus Murphy, en hann og PJ fóru saman í ferðalag um Afganistan, Kósovó og Washington-borg. Hann með myndavélina að safna myndefni, hún með stílabókina að safna orðum. Þetta ferðalag fæddi svo af sér þrjú mismunandi listaverk; ljóðabókina The Hollow of the Hand, með ljóðum Harvey og ljósmyndum Murphys, plötuna The Hope Six Demolition Project og svo þessa heimildamynd. Við fáum líka að fylgjast með gerð plötunnar í stúdíói í Lundúnum, eins og fleiri raunar – það var sérútbúið hljóðver þar sem áhorfendur gátu mætt og séð Harvey og hljómsveitina taka upp lögin í gegnum gler, en tónlistarmennirnir sáu ekki áhorfendurna, þótt þau vissu af þeim.
Samspil áhorfendanna og tónlistarmannanna verður þó aldrei í forgrunni, myndin snýst miklu frekar um að sýna okkur hvernig ferðalagið er uppspretta tónlistarinnar með því að skipta á milli hinna fjarlægu staða þar sem tónlistin fæddist og hljóðversins sem hún er tekin upp í. Sungin tónlist er það persónulegt form að maður hefur ósjálfráða tilhneigingu til þess að tengja orðin við söngvarann, en hér fáum við að hitta allt hitt fólkið sem er hluti af textanum eða innblástur textanna.
Það er svo magnaður galdur sem myndast þegar tónlistin mætir minningum frá ferðalaginu sem gat hana af sér. Ferðalagið var um stríðshrjáð svæði, Kósovó og Afganistan, sem og staðinn þar sem flest stríð heimsins annaðhvort byrja eða enda í einhverjum skilningi, Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Þar eru átökin þó ekki síður milli ríkra og fátækra, fáar borgir eru tvískiptari og þegar PJ Harvey segir okkur frá brúnni sem aðskilur ríka og fátæka, blökkumenn og bleiknefja, varð mér fyrst hugsað til kósovósku borgarinnar Mitrovica, þar sem brú aðskilur albanska meirihlutann og serbneska minnihlutann.
Tvöfaldur franskur sigur
En hátíðinni fer að ljúka, það líður að verðlaunaafhendingu. Það eru ótal verðlaun í boði á svona stórum kvikmyndahátiðum, við skulum láta nægja að ræða tvenn stærstu, Silfurbjörninn og Gullbjörninn. Besta myndin fær gullbjörninn en það eru nokkrir silfurbirnir afhentir, einn þeirra eru þó eiginleg silfurverðlaun – kölluð Jury Grand Prix og veitt þeirri mynd sem dómnefndinni finnst næstbest. Franska leikkonan Juliette Binoche var formaður dómnefndar í ár og bæði stærstu verðlaun hátíðarinnar fóru til franskra mynda, þótt önnur væri þó ekki síður ísraelsk.
Byrjum á silfurbirninum, Grand Prix. Þau hlaut nýjasta mynd franska leikstjórans François Ozon, Fyrir Guðs náð (Grâce à Dieu). Þetta er sannsöguleg mynd sem fjallar um barnaníð í kaþólsku kirkjunni í Lyon. Og satt best að segja drepleiddist mér fyrsta hálftímann af þessari tveggja tíma bíómynd. Þar fylgjumst við með Alexandre, vel stæðum fjölskylduföður, rifja upp þegar prestur misnotaði hann í æsku, þegar hann kemst að því að þessi sami prestur er enn að vinna með börnum. Alexandre velur að hafa samband beint við kirkjuna sjálfa, og þar velkist málið í kerfinu og fátt gerist. Þessi upphafskafli er mest byggður á bréfum – og hér er mikið talað og lesið upp úr bréfum og lítið bíó. Þetta virðist í raun líka hafa lítil áhrif haft á Alexandre sjálfan, hann lifir hamingjusömu fjölskyldulífi, er enn sannkristinn og þrátt fyrir að hann sé að garfa í þessu máli virðist það furðulítið áhrif hafa á hann.
Myndin umturnast hins vegar þegar honum leiðist þófið, gefst upp á kirkjunni og ákveður að fara veraldlegri leiðir, ákveður að kæra. Þá hefst rannsókn og í gegnum hana birtast fleiri og fleiri fórnarlömb prestsins vafasama. Þrír eru í forgrunni, áðurnefndur Alexandre, François og Gilles. Einn úr hástétt, annar úr miðstétt og sá þriðji úr lágstétt. Myndin skiptist á að segja sögur þeirra og myndatakan og allar áherslur eru mismunandi á milli karakteranna. Miðstéttarmaðurinn François er reiður og ákveðinn í herferð sinni í leit að sannleikanum, hann fær útrás á trommusettinu í kjallaranum þess á milli. Gilles er samt langverst farinn. Hann fær flog þegar álagið verður of mikið, á í mjög erfiðu sambandi við bæði föður sinn og kærustu og segir að hann hafi verið skilgreindur með ofurgreind – sem hjálpar honum samt ekkert í lífinu. Þá hefur hann eilífar áhyggjur af typpinu á sér, sem hann segir að sé bogið og einkennilegt í laginu, eitthvað sem hann rekur til misnotkunarinnar, og þótt það kunni að virka kjánalegt þá er þetta merkilega sannferðug leið til að sýna hvernig misnotkunin getur eyðilagt eða skemmt hugmyndir þolenda um sjálfa sig sem kynverur í framtíðinni.
Myndin birtir okkur í gegnum þá þrjá bæði mjög fjölbreytt og mismunandi viðbrögð við misnotkun, í gegnum þá fáum við líka stéttaskiptinguna í Frakklandi beint í æð, en fyrst og fremst hvernig snjóboltinn byrjar að rúlla þegar flett er ofan af raðníðingum eins og umræddum presti, fleiri og fleiri fórnarlömb gefa sig fram og á endanum er stofnuð sérstök heimasíða fyrir baráttuna. Þetta minnir sannarlega á sambærilega umræðu um meint brot fyrrum ráðherra hérlendis, það hvernig brotaþolarnir finna á endanum hvern annan, og þessi franska saga er ekki síður beint úr samtímanum, réttarhöldin fara fram í næsta mánuði.
Útlagi frá eigin tungumáli
Gullbjörninn sjálfan hlaut svo ísraelsk-franska myndin Samheiti, eða Synonymes. Myndin hefst í fjölbýlishúsi í París – þar er dularfullur maður sem kemur úr sturtu, nakinn, og uppgötvar að öll húsgögn eru farin og hann hleypur um húsið, að því er virðist aleinn í heiminum, bankar hjá nágrönnunum og engin svarar. Skömmu síðar uppgötvar franskt par hann, nær dauða en lífi úr kulda í tómu baðkari.
Þetta virðist vera einhver vísun í Palli er einn í heiminum, bók sem er að vísu lítt þekkt annars staðar en á norðurlöndunum, en fljótlega fer aðalpersónan, Yoav, að segja parinu sögu sína. Hann er Ísraelskur og það er ættgengt að frjósa nærri því í hel. Það munaði minnstu að faðir hans frysi í hel líka, sem og afi hans.
Þetta er líkamleg mynd en líka mynd um tungumál og sjálfsmynd. Yoav flutti til Frakklands af því hann gat ekki hugsað sér að lifa áfram sem Ísraeli, gat ekki hugsað sér að tala hebresku lengur. Hann talar einkennilega frönsku og talar ensku við ættingjana þegar þeir hringja, þótt þeir tali hebresku við hann. Hann tengir Ísrael við ofbeldi hermenskunnar, sem allir þegnar landsins þurfa að sinna, hans uppreisn er að afneita Ísrael og hebreskunni, föðurlandinu og móðurmálinu. Hann rifjar upp sögu af afa sínum sem flutti til Ísrael eftir helförina og neitaði að tala móðurmálið, jiddísku, af því hann tengdi það við hvernig hafði verið kúgaður og vildi því frekar tala hebresku. Þegar hann er spurður hvort hann sé að gera öfugt við afann með því að neita að tala tungumál kúgaranna þá svarar hann að þvert á móti sé hann að gera það sama, bara í öðrum aðstæðum.
Í gegnum frönskunámskeið sjáum við svo frönsku útgáfuna af þessu sama, þegar gamla nýlenduþjóðin kennir verðandi ríkisborgurum um Marseillasinn og frönsk gildi.
Leikstjórinn Nadav Lapad segir móður sína, klipparann Eru Lapad hafa verið sinn nánasta samstarfsmann, en móðirin klippti myndina bókstaflega á dánarbeðinu. Lapad segir myndina fjalla um sjálfsmynd okkar og fortíð, hvernig við séum fangar hvoru tveggja og það eigi við um fólk alls staðar að úr heiminum. En sem Ísraeli þá þurfi hann að kljást við ísraelska sjálfsmynd – og sú sjálfsmynd sé lítt sveigjanleg og yfirþyrmandi – og brjótist oft út með ofbeldi. Við skulum gefa sigurvegara Gullbjarnarins lokaorðið.
Pistillinn birtist upphaflega þann 18. febrúar í Lestinni á RÚV.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson