Berlinale er að bresta á – og hér kemur smá upphitun. Smyglari er mættur eftir að hafa skrópað í fyrra (of mikið að gera í annarri vinnu sem borgaði alvöru peninga) og aðeins önnur frá því 2020, þegar kófið var alveg að bresta á.

En við erum tala um þrjár sjöur – sjö úr aðalkeppninni, sjö úr öðrum flokkum og sjö gamlar – og sjáum svo til hvað maður nær svo að sjá af þessu á endanum.

Í aðalkeppninni eru það helst L’Empire eftir Bruno Dement, með uppáhaldsalsírsku leikkonunni minni, henni Lyna Khoudri (Papischa, Blessed og The French Dispatch). Ef við höldum okkur við stórleikkonur þá er Renate Reinsve úr Versta manneskja í heimi í tveimur myndum í aðalkeppninni – Another End, þar sem Gael García Bernal og Bérénice Bejo úr The Artist leika líka og svo er hún líka í A Different Man, en þar er mótleikarinn Sebastian Stan, betur þekktur sem Bucky Barnes, besti vinur Kapteins Ameríku. Sjálf Isabelle Huppert er í tveim myndum á hátíðinni og önnur er í aðalkeppninni, A Traveller’s Wife eftir Songsoo, mögulega afkastamesta leikstjóra veraldar, sem er með eina ef ekki tvær myndir á flestum kvikmyndahátíðum heimsins. Svo fylgir Gustav Möller Den Skyldige eftir með Sonunum, með Sidse Babett Knudsen, og hryllingsleikstjóraparið Veronika Franz & Severin Fiala fylgja Goodnight Mommy og The Lodge eftir með Baði djöfulsins, enda þarf kölski nú að vera almennilega til fara líka.

Svo er opnunarmyndin með sjálfum Oppenheimer, honum Cillian Murphy, og heitir Small Things Like These, og Abderrahmane Sissako, sem fékk Óskarstilnefningu fyrir Timbuktu er með Svart te, asísk-afrískan rómans.

Og þar með er sjöan komin – en auðvitað var ég búinn að haka við fleiri myndir – eins og La Cocina, innflytjendasaga með Rooney Mara, nýjasta mynd Olivier Assayas, Hors du temps, og meira franskt: Langue Étrangère, sem Léa Mysius (Ólympíuturnarnir) ku hafa hjálpað til við handritið af og stórleikkonan Nina Hoss er í aukahlutverki. Svo er eitthvað við stikluna á Cidade; Campo og synopsarnir heilluðu hjá nokkrum myndum, eins og Pepe sem er sérviskuleg flóðhestamynd og Shambhala, um pólýástir í Nepal. Já, og stundum dugar landið – eins og My Favourite Cake, sem er frá Íran og þeir gera jú sjaldnast vondar bíómyndir.

In Liebe, Eure Hilde er eftir Andreas Dresen, sem gerði þá mjög svo umdeildu Rabiye Kurnaz vs. George W. Bush og loks má nefna Gloria!, en leikstýran Margherita Vicario er söngkona sem stúderaði notkun Brecht á tónlist í BA-ritgerð sinni.

En yfir í hina flokkana. Tvær af allra bestu myndum síðari ára eru hin úkraínska Eldfjall og hin sænsk-georgíska And Then We Danced. Hinn georgískættaði Svíi Levan Akin leikstýrði þeirri síðarnefndu og er mættur með Crossing og það var svo Roman Bondarchuk sem leikstýrði Eldfjalli og mætir til Berlínar með The Editorial Office. Ef við laumumst svo yfir landamærin til Rússlands, þá er Kossakovsky með Architecten, en einhverjir muna kannski eftir honum sem heiðursgesti Skjaldborgar um árið. Hinn franski André Téchiné hefur verið lengi að, mæli t.d. sérstaklega með Being 17, en My New Friends er einmitt hin Isabelle Huppert-mynd hátíðarinnar. Kazik Radwanski gerði Anna við 13000 fet, sérviskulega mynd sem var á Berlinale fyrir nokkrum árum, og stiklan fyrir Matt and Mara lítur skrambi vel út.

Loks hlakkar okkur í Bæheimi til að sjá nýjasta verk Johan Renck, sem leikstýrði Chernobyl, enda byggð á Spaceman in Bohemia – þótt sá titill hafi þótt full langur fyrir bíó og þeir láti Spaceman duga. Adam Sandler, Carey Mulligan, Lena Olin og Isabella Rossellini eru öll á leið út í geim sýnist mér. Svo er forvitnileg heimildamynd sem hljómar dálítið eins og stríðsútgáfan af 7 Up myndum Michael Apted; Afterwar, þar sem ungum Kósóva-búum er fylgt eftir í kjölfar stríðsins.

Og þá eru þær orðnar sjö, nokkrar sem komust ekki í vídjó-innslagið eru svo myndir á borð við Between the Temples með Jason Schwartzman og Carol Kane, esseyjumyndin Henry Fonda for President, ljóðræna japanska kattamyndin The Cats of Gokogu Shrine, I’m Not Everything I Want to Be, heimildamynd um tékkneskan ljósmyndara, Love Lies Bleeding með þeim Kristen Stewart, Ed Harris, Dave Franco og Jena Malone, The Outrun eftir Noru Fingscheidt (System Crasher), sem er með Saoirse Ronan, og svo er Atom Egoyan með Seven Veils og Amöndu Seyfried í aðalhlutverki.

Lena Dunham og Stephen Fry leika feðgin af pólskum ættum í Treasure, þýskar fótboltastelpur sýna takta í Sieger sein, Mother and Daughter, or the Night Is Never Complete fjallar um 95 ára georgíska leikstýru sem safnar saman efni móður sinnar, fyrsta kvenleikstjóra Georgíu. Og stiklan er gordjöss. The Secret Drawer hljómar eins og bíóútgáfan af Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga og talandi um skáld, það er Pulitzer-leikskáldið Annie Baker sem leikstýrir Sophie Okenodo í From Hilde, with Love. Zellner-bræður (Kumiko the Treasure Hunter & Damsel) leikstýra Sasquatch Sunset með þeim Riley Keough og Jesse Eisenberg, brjálæðingurinn Abel Ferrara ferð með Patti Smith og hittir Zelenskí í Turn in the Wound, Dahomey sýnir þegar listmunum er skilað til Afríkuríkja, All Shall Be Well er kínversk mynd um lesbíska ekkju og Anna fær skilnað er austurrísk mynd og ég heyrði helvíti fína hluti um fyrri mynd leikstjórans, Wilde Maus. A Bit of a Stranger er Úkraínsk heimildamynd frá Mariupol, Sleep with Your Eyes Open er þýsk leikstýra að gera kínverska mynd í Bueonos Aires, Favoriten fylgir kennara að störfum og þýskir hita upp fyrir EM í sumar með Ellefu morgundagar, Berlinale Meets Football.

Nafnið segir allt sem segja þarf um Made in England: The Films of Powell and Pressburger, Maria’s Silence gerist í Lettland 1937 og No Other Land er palestínsk mynd um aktívista.

Exhuma er Suður-kóresk mynd um særingamenn sem fá vel borgað gigg, Raíz fjallar um Perú, fótbolta og lamadýr, Shahid er írönsk-þýsk mynd um stelpu sem vill breyta um nafn en afi hennar gengur aftur og ásækir hana af þeim sökum. Frá Noregi kemur svo Sex, um hýra skorsteinssópara, sýrlendingar hugleiða Shakespeare og hælisleitendur í The Strangers’ Case og Through the Graves the Wind Is Blowing fjallar um króatíska löggu og túrisma. The Major Tones fjallar 14 ára stelpu í Bueonos Aires sem er með morskóða í járnplötu í hendinni og The Great Phuket er draumkennd kínversk mynd um strák í iðnaðarborg.

Síðasta sjöan er svo síðasta öld, allar gömlu myndirnar. Sjálf Godzilla mætir á hátíðina og fulltrúi Íslendinga er Guðrún Gísladóttir í Offret eftir Tarkovskí. Diese Tage in Terezín fjallar um Chaplin-fígúru í Terezín útrýmingarbúðunum, Nóttin endalausa, Die Endlose Nacht, gerist öll á Templehof flugvellinum, sem var sögusvið Kaldakols eftir Þórarinn Leifsson, en í fréttum síðustu viku kom fram að sjónvarpsserían Volcano er á leiðinni – og plottið grunsamlega líkt, nema þar flýja Íslendingar til Króatíu en ekki til Berlínar. Ernst Lubitch er þekktastur fyrir rómantískar gamanmyndir á gullöldinni þar sem fólk talaði eins og hríðskotabyssur – og því verður forvitnilegt að sjá hvernig þöglu myndirnar hans eru, en Dætur Kohlhiesels frá 1920 er á prógramminu. Loks er það Tveir af milljónum, Zwei unter Millionen, sem gerist rétt áður en múrinn er reistur og fjallar um vini sem reyna að smygla öðrum vini úr Austur-Berlín til vestursins. Að lokum er það Chapeau Claque, sem á albesta textann í gervöllum dagskrárbæklingnum:

„In the developing leisure society of the 1970s, a social dropout postulates an anarchistic “right to idleness”. This cinematic summer fantasy with melancholy overtones and satirical potshots at the contemporary “man of action” euphoria was deemed by the ratings board (FSK) to be a serious “incitement to do nothing”, and prohibited for young audiences in 1974.“

Og þá er sjöan komin, en svo eru líka After Hours eftir Scorsese, Battle in Heaven eftir Reygadas, Deprisa, deprisa eftir Carlos Saura og The Day of the Locust eftir John Schlessinger. Og ótal margt fleira – en lestin er að koma til Berlínar – ég þarf að fara að komast í bíó!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson