Þessi pistill fjallar um tvær myndir á RIFF árið 2021, en ég ætla samt að byrja þennan pistil á sannri kjaftasögu frá sömu hátíð árið 2017. Við vorum að ræða franska leikstjóraparið Olivier Assayas og Miu Hansen-Løve, en sá fyrrnefndi var heiðursgestur 2017 og sú síðarnefnda er heiðursgestur núna. En þar sem við stóðum fyrir utan Háskólabíó á milli bíómynda lækkaði vinkona mín röddina samsærislega og hvíslaði: „Krakkar, þetta er algjörlega óopinbert – en þau eru hætt saman, og ekki nóg með það: þetta gerðist á Fårö, eyjunni hans Bergmans. Og Mia Hansen-Løve er að skrifa handrit um skilnaðinn!“

Ástæðan fyrir því að ég veit að kjaftasagan er sönn er sú að þótt ég hafi ekkert fundið um þetta árið 2017 þá breyttist það og núna er myndin sjálf komin, Bergman Island, sem er um langtímasamband sem er að ljúka á eyjunni sem er frægust fyrir tengslin við Ingmar Bergman. Ég hef ekki hugmynd um hvað nákvæmlega er satt og logið í myndinni, en samsvörunin við líf Hansen-Løve er ótvíræð og hún er ekkert að reyna að fela það nema til málamyndana. En þetta er samt svo miklu meira en bara skilnaðarmynd. Þau voru ekki hjón en voru búin að vera par í tvo áratugi – og hann tæpum aldarfjórðung eldri, þannig að í upphafi hefur hann líklega verið lærifaðir ekki síður en kærasti.

Og til að undirstrika sannsöguna er líka tæplega aldarfjórðungs aldursmunur á Vicky Krieps og Tim Roth, sem leika Chris og Tony, parið í myndinni – og bæði eru leikstjórar að vinna að handritum á meðan sambandið liðast í sundur. Þau gista í húsinu sem Bergman sjálfur samdi eitt frægasta skilnaðardrama sjónvarpssögunnar, myndin er full af fyrirboðum og vísunum í verk Bergmans – en þetta er samt eins langt frá Bergman-mynd og hægt er að komast.

Hér er rétt að geta þess í framhjáhlaupi að myndin hefur almennt fengið ágætis dóma, en nokkra neikvæða, og þeir neikvæðu eiga það flestir sameiginlegt að finnast þetta vera daufur endurómur af verkum Bergmans sem nær engan vegin að fanga tón sænska meistarans. En hún er barasta alls ekki að reyna það, þvert á móti er þetta nánast and-Bergman mynd í eðli sínu. Flestar persónur myndarinnar eiga í ástar- og hatursambandi við leikstjórann fræga – fyrir utan nokkrar sem virkilega hata hann, brúðgumi nokkur hraunar til dæmis yfir leikstjórann af meira listfengi en ég hef áður heyrt nokkurn gagnrýna verk Bergmans.

En með and-Bergman mynd meina ég samt frekar að Mia Hansen-Løve skynjar að Bergman er þrúgandi afl á eyjunni, rétt eins og Laxness getur stundum verið þrúgandi fyrir íslenska höfunda sem taka hann of alvarlega. Þess vegna þarf að yrkja nýjar sögur á Fårö, endurskapa eyjuna, leysa hana úr álögum, fæða nýjar sögur í stað þeirra gömlu. En eins og titill myndarinnar gefur í skyn þýðir það ekki að Bergman hverfi, heldur eingöngu það að sagnaarfurinn verður ríkari og fjölbreyttari. Af því eyjan sjálf á sér sinn sköpunarmátt, landslag sem kallar á alls konar sögur, ekki bara dimmar og drungalegar og Bergman-ískar, heldur líka kvenlegar og bjartar og hlýjar eins og myndir Miu eru oft, þótt þær taki iðullega á erfiðum hlutum.

Myndin fjallar líka um föðurmorð og höfundarmorð, kærastinn gamli er staðgengill Bergmans að því leytinu að báðir eru lærimeistarar sem hún þarf ekki á að halda lengur, núna er hún tilbúin að skapa án þeirra, orðin jafnoki allavega kærastans í faginu. Og hún er líka bara orðinn pínu leið á þeim báðum. Leið á að Bergman sé svo mikil karlremba að hann átti níu börn með fimm konum og lét þær sjá alfarið um uppeldið á meðan hann var of upptekinn við að vera snillingur – og kæfði þá mögulega snilligáfu einhverra þessara barnsmæðra hans. Þið sjáið kannski núna af hverju sumir eldheitir og hundtryggir aðdáendur Bergmans eru ekki sáttir – en um leið kveikir myndin áhuga manns á að kynna sér verk Bergmans betur, ólíkt því sem einhver helgimynd hefði gert. Hún tekur hann niður af stallinum, veltir honum fyrir sér og áhrifum bæði hans sjálfs og verka hans á fólk – og reynir sannarlega ekkert að þræta fyrir það að þetta er lykilleikstjóri kvikmyndasögunnar. En það þýðir ekki að maður þurfi að taka hann of alvarlega, hátíðleikinn getur drepið jafnvel bestu listamenn.

Um miðja mynd fer myndin hins vegar í splunkunýja átt, þegar sagan sem Chris, staðgengill Miu, er að semja tekur yfir og okkur birtist töluvert yngra par, þau Amy og Joseph, sem þau Mia Wasikowska og Anders Danielsen Lie leika. Já, leikkonan er meira að segja nafna leikstýrunnar. Þessi saga er kjarni seinni hluta myndarinnar, þangað til að sögurnar fara að skarast og fléttast saman. Þær Mia, Chris og Amy eru andlegir þríburar, um sumt sama manneskjan en að öðru leyti alls ekki, þær spegla hver aðra ítrekað, oft á óvæntan hátt – og skyndilega dettur manni Charlie Kaufman miklu frekar í hug sem áhrifavaldur en Ingmar Bergman.

Myndin í myndinni heitir hvíti kjóllinn, The White Dress, og gerist líka í Fårö, og fjallar líka um samband sem er að ljúka. Þau eru yngri og aldursmunurinn minni og ástæðurnar aðrar, en ástæðurnar eru jú oft margar – komust jafnvel ekki allar fyrir í einni sögu. Og þrátt fyrir að þetta sé saga inní sögu þá hverfur vísirinn af hinu sannsögulega ekki, þetta er sannsaga þar sem báðar eru sannar, báðar ganga upp, en eru samt ekki báðar alveg eins. Og ég veit að þetta hljómar kannski flókið, en Mia fléttar þetta svo fimlega saman að í raun klórar maður sér ekkert sérstaklega mikið í hausnum yfir þessu. Púslin falla öll á sinn stað á endanum.

Svo er rétt að muna að þetta gerist á eyju sem hefur í áraraðir dregið að sér ótal leitandi listamenn, ekki bara Ingmar Bergman. Mér varð hugsað til nýlegrar heimildamyndar um Leonard Cohen, Marianne & Leonard: Words of Love. Kjarni þeirrar myndar var gríska eyjan Hydra, þar sem Leonard hitti Marianne og var hluti af ævintýralegu samfélagi lisamanna hvaðanæva að úr heiminum, þar á meðal leikstjóra téðrar heimildamyndar. Það mætti vel gera mynd um Hydru og kalla hana Cohen Island – en bæði nöfnin eru þó á endanum rangnefni, af því bæði Fårö og Hydra eru svo miklu meira en það, þetta eru sagnaeyjur sem ala af sér sagnamenn og sönggyjður og tæla þær líka til sín. Kannski bara eins og Ísland? Það eru auðvitað margar og flóknar ástæður fyrir því að Íslendingar eiga ríkulega bókmenntahefð, en kannki er ein aðalástæðan sáraeinföld: sú að þetta er fámenn og afskekkt eyja sem er ekki alltaf auðvelt að komast til, rétt eins og Fårö og Hydra.

Upp úr stendur svo ein besta leikkona samtímans, hún Vicky Krieps, sem stal senunni frá sjálfum Daniel Day-Lewis í lokamynd hans um Draugaþræðina, Phantom Thread, og á ekki í miklum vandræðum með að leika Tim Roth undir borðið – og samt leikur Roth þetta ágætlega, en þessi unga lúxemborgska stórleikkona virðist einfaldlega geta leikið alla undir borðið áreynslulaust.

Og að lokum er afskaplega gaman að heyra Vem kan segla í bíómynd, þessi sænski klassíker er furðu lítið nýttur í bíómyndum. En hér er lagið meira að segja í nokkrum útgáfum, meðal annars þessari útgáfu Lee Hazelwood og Ninu Lizell af plötunni Cowboys in Sweden.

Að finna hugrekkið

Og frá léttleikanum á eyjunni hans Bergmans bregðum við okkur yfir til Makedóníu. Ég heyri einstöku sinnum fólk halda því fram að þeim finnist íslenskar myndir niðurdrepandi – og slíkar fullyrðingar sanna bara eitt: þetta fólk hefur aldrei séð myndir frá Makedóníu.

Ég hef séð fimm svo ég muni í fljótu bragði – það er vissulega upplífgandi að þær eru allar ansi magnaðar, en sömuleiðis erfiðar og krefjandi. Þessi nýjasta er unglingsstúlkudramað Systrabönd, Sestri, og er ein þægilegasa makedónska mynd sem ég hef horft á – og er þó alls ekkert léttmeti. Sú erfiðasta var sömuleiðis unglingamynd, um unglingahóp sem hverfur sporlaust, en ekkert síður saga um týnda kynslóð. Hún hét Þegar dagurinn bar ekkert nafn og er töluvert erfiðari áhorfs en Fyrir regnið, frægasta mynd Makedóna, sem fjallar um þjóðarmorð í Júgóslavíustríðinu.

En aftur að Systraböndum, Sestri. Eins og glöggir hlustendur taka eftir þýðist titillinn á sama hátt og nýlegir sjónvarpsþættir – og eiga alveg efnislega samsvörun líka. Það er nefnilega erfitt að vera unglingsstúlka í Makedóníu, þú ert bara einni drusluskömmun frá mannorðsmissi.

Og þið takið kannski eftir að ég segi bara Makedónía, sleppi forskeytinu Norður-, enda hef ég ferðast nóg um landið til að vita að þeirri nafngift var þvinguð upp á þá af stóra bróður í Grikklandi, sem var nauðsynleg fórn til að fá alvöru þátttökurétt í alþjóðasamfélaginu. Og myndin fjallar einmitt um það að missa þátttökurétt í samfélaginu að ósekju, um mannorðsmissi sem er fullkomlega óverðskuldaður. En saga sem er sögð frá sjónarhóli gerendanna.

Já, eða gerandans og annars fórnarlambs gerandans – þetta er örlítið flókið. Þetta er nánast eins og sósíal-realíska, dimma og drungalega útgáfan af Mean Girls. Þær Maya og Jana eru vinkonur, en þær eru ekki góðar vinkonur. Þær eru saman flestum stundum – en Jana er stærri, sterkari og ákveðnari – hún hjálpar Mayu stundum út úr skelinni, en það er mun algengara að hún fái hana til að gera eitthvað sem hún vill alls ekki gera; af því munurinn á þeim er ekki sá helstur að Maya er miklu feimnari, heldur líka sá að Maya hefur sinn siðferðiskompás á meðan hægt og rólega kemur í ljós að Jana er upprennandi siðleysingi. Sem út af fyrir sig er frekar eintóna saga, en það athyglisverða er hvernig hún vélar Mayu í að gerast samsek í því að níðast á Elenu, þriðju stelpunni, sem Jönu virðist mjög í nöp við – og mann grunar að ástæðan sé einfaldlega öfund.

Dina Duma, leikstýra Systrabanda – mynd: ÁHI

Það er auðvelt að hugsa sem svo að Mayu skorti kjark, að hana skorti hugrekki til að standa uppi í hárinu á Jönu, og það er vissulega rétt – en um leið er rétt að muna að hún er bara unglingsstelpa sem er að kljást við skilnað foreldranna á meðan helsta rándýr skólalóðarinnar hefur heljartak á henni. Og þannig snýst spenna myndarinnar einfaldlega um það hvort Maya nái að finna hugrekkið í tæka tíð til að stoppa óargadýrið vinkonu sína áður en hún gerir eitthvað óafturkræft.

En ég er auðvitað aðallega búinn að lýsa plottinu hingað til. Það er rétt að minnast líka á það að myndin gerist í einu fátækasta landi Evrópu og sýnir okkur gráma landsins sem og fegurðina með oft magnaðri myndatöku. Báðar eru stelpurnar í sundliðinu og senur í ánni og sundlauginni eru einfaldlega gullfallegar. En svo er hellingur hér af unglingapartíum og vinkona mín sem hafði ekki komið til Makedóníu velti ítrekað fyrir sér hvenær myndin ætti að gerast. Jú, krakkarnir voru með farsíma – og net-einelti er stór hluti af sögunni – en af símunum slepptum var þetta eins og partí í Reykvísku úthverfi 1987. En þjóðir heimsins þróast mishratt, sums staðar stendur tíminn nánast í stað, þegar umheimurinn nánast gleymir þér. Og einhvers staðar í Makedóníu er enn hægt að upplifa klassískt íslenskt unglingapartí frá 1987, gott ef það er ekki verið að kvikmynda Makedónsku útgáfuna af Skyttunum í næstu götu.

Pistillinn birtist upphaflega í Lestinni á Rás 1 þann 8. október 2010.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson