Innflytjendum á Íslandi hefur fjölgað hratt á 21. öldinni. Þeir voru ekki nema rúmlega átta þúsund samkvæmt vef Hagstofunnar í upphafi aldarinnar en telja núna rúmlega 55 þúsund manns. Sögur þeirra eru hægt og rólega að finna sér leið inn í íslenskar kvikmyndir, þótt leikstjórarnir séu enn þá innfæddir – samanber þær tvær íslensku myndir af RIFF sem hér verða teknar til kostanna; Hvunndagshetjur og Wolka.
Heimildamyndin Hvunndagshetjur er fyrsta mynd Magneu B. Valdimarsdóttur í fullri lengd, en hún gerði ansi göldrótta stutta heimildamynd fyrir fáeinum árum, Helgi á Prikinu, um aldraðan fastagest á einu elsta kaffihúsi Reykjavíkur.
Núna er umfjöllunarefnið fjórar konur sem eiga það sameiginlegt að hafa allar komið hingað snemma á öldinni þegar innflytjendur voru enn fámennur hópur, eða jafnvel fyrir aldamót. Þetta eru þær Zineta, Ebru, Karolina og Maria Victoria. Allar tala þær ágætis íslensku – með mjög mismiklum hreim vissulega, en eins og Ebru orðar það á einum stað, ef fólk skilur hana er sigurinn unninn.
Þetta eru skemmtilegar og lífsglaðar konur og mjög ólíkir karakterar. Hin bosníska Zineta er harðjaxlinn í hópnum, hin pólska Karolina fílósóferinn, hinn jamaíska Maria Victoria sú glysgjarna, alltaf með nýja hárkollu, og hin tyrkneska Ebru eins og amma þeir allra, byrjuð að láta sig dreyma um elliárin á tyrkneskri strönd. Þær Maria Victoria og Ebru vinna báðar á leikskóla og gera í upphafi myndar grín að atriði í áramótaskaupinu um erlenda hreiminn sem börnin læra á leikskólunum.
Þær eru allar búnar að koma sér ágætlega fyrir og það eru ekki mikil átök í myndinni, hér eru engar dramatískar senur af Útlendingastofnun og engar sögur um þá stofnun, allavega ekki nema mögulega á milli línanna á stöku stað. Þannig stendur myndin undir nafni, þetta eru konur sem hafa fundið sér sinn hvunndag á Íslandi, tilveru sem er ágætlega hversdagsleg og í sumum tilfellum er það eitt og sér sigur.
Átökin eru mest í fortíðinni og við fáum nasasjón af þeim á köflum. Zineta segir okkur frá Bosníustríðinu og Maria Victoria frá því þegar hún missti foreldra sína ung. Karolina rifjar upp þegar Evrópa var að opnast fyrir íbúum austursins þegar hún var enn á barnsaldri. Það glittir aðeins í átök þegar kófið skellur á, en það verður lúmskt fljótt hluti af hvunndeginum líka.
Sögur kvennanna fjögurra eru hins vegar missterkar. Maður fær ansi magnaða svipmynd af þeim Zinetu og Karolinu en maður kemst aldrei alveg jafn nálægt hinum tveimur, þar er harmurinn faldari, þær eru dulari á sinn hátt, hafa lært þann íslenska sið að sveipa harm sinn íslenskum hressleika. Þannig er veikleiki myndarinnar að vissu leyti innbyggður, þessar svipmyndir af fjórum konum verða mjög misáhugaverðar, stundum saknar maður sterkari þráðs í gegnum myndina.
Allar eru þær þó þrælskemmtilegar, þetta er dýrmæt svipmynd af fjórum lífum og það er óskandi að við fáum fleiri slíkar sögur. Um þá sem eru nýkomnir, um aðra kynslóð innflytjenda og svo framvegis og svo framvegis.
Útlaginn Anna fer til Eyja
Pólverjar eru langstærsti hópur innflytjenda á Íslandi, rúmlega þriðjungur, og maður var búinn að bíða dálítið eftir fyrstu stóru pólsk-íslensku myndinni. Haukur M. Hrafnsson, sem lærði kvikmyndagerð í Póllandi, hefur gert fjári fínar stuttmyndir með pólskum vinkli, bæði allavega eina leikna mynd, Ferðin til Mars, og heimildamyndirnar Ósýnileg mæri og In Touch.
Haukur lærði kvikmyndagerð í kvikmyndaskólanum í Lodz, rétt eins og menn á borð við Krzysztof Kieślowski, Jerzy Skolimowski, Roman Polanski og Andrzej Wajda – og já, rétt eins og Árni Ólafur Ásgeirsson, sem lést sviplega snemma árs, aðeins 49 gamall. Hann hafði þá nýlokið við sína fjórðu mynd í fullri lengd – og hér er hún loks komin, fyrsta stóra pólsk-íslenska leikna myndin, Wolka – og svei mér þá ef þetta er ekki besta mynd Árna.
Við hefjum leika í pólsku fangelsi. Þetta er alvöru helvíti á jörðu og aðalpersónan Anna stimplar sig strax inn sem mesti harðjaxlinn í þessu kvennafangelsi á fyrstu mínútum myndarinnar. Þetta er síðasta nótt Önnu í fangelsinu, frelsið er innan seilingar og skotið þar sem hún ráfar út, böðuð ljóma stórborgarinnar með skýjakljúfa í baksýn sýnir manni vel hversu vel hún finnur skyndilega fyrir því hvað heimurinn er skyndilega stór. Hún er að anda að sér frelsinu, en Wolka þýðir einmitt frelsi á pólsku.
Hún fær tímabundna íbúð og ábendingar um vinnu en við sjáum strax að það eru mikilvægari mál sem Anna þarf að sinna fyrst – og eftir að hafa spurt alla um örlög sinnar gömlu vinkonu Dorotu þá fær hún loksins heimilisfang. Heimilisfang í Vestmanneyjum.
Þannig hefst Íslandsævintýri Önnu um leið og hún er búin að redda sér fölskum skilríkjum. Hún er á leiðinni til sögueyjunnar og þaðan á enn minni eyju. Hún talar vel að merkja enga ensku og hvað þá íslensku, en það skiptir litlu – hún er á leiðinni í sjávarpláss þar sem flestir virðast vera Pólverjar. Barþjónninn á eina bar þorpsins, sem Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikur, er í raun eini íslenski leikarinn sem er hér í virkilega stóru hlutverki.
Orðið Wolka þýðir vel að merkja ekki bara frelsi á pólsku, það getur líka þýtt smáþorp með fjölda nýbúa, nýja byggð, þannig vísar nafnið á sinn hátt óbeint líka til nýlegra pólskra samfélaga á Íslandi.
En aftur að barnum. Heimilisfangið sem Anna er með er löngu úrelt, Dorota er löngu flutt. En hún fær þær upplýsingar á barnum að í bænum búi tvær Dórótur, önnur mjó og hin feit. Hún finnur þá mjóu og býður sér í heimsókn. Þetta er fjögurra manna vísitölufjölskylda, svona á yfirborðinu, en maður skynjar strax að Anna veit öll leyndarmál Dorotu, og einmitt þess vegna vill Dorota helst að hún hypji sig sem fyrst.
Hér vinna Pólverjarnir allir í frystihúsi staðarins og Íslendingarnir sjást varla nema sem sjaldséðir yfirmenn þegar mikið liggur við, eins og þegar þarf að reka pólska millistjórnandann og skipa nýjan. Anna fær fljótlega vinnu í frystihúsinu, og hér er íslenski smábærinn lifandi kominn; hér vinna allir á sama staðnum, fara á sama barinn og búa á sama frímerkinu.
Allt þetta slor minnir kannski einhverja á þekktustu mynd Árna Ólafs, Brim, en í raun er hún þó miklu skyldari fyrstu mynd hans, Blóðböndum. Sú frumraun gerist í Reykjavík góðærisins, órafjarri öllu smábæjarslori og pólskum fangelsum, en fjallar um hvernig hriktir í stoðum hins fullkomna lífs þegar við komumst að því að eldri sonuar hjónanna er rangfeðraður.
Þegar Anna kynnist Tomma, eldri syni þeirra Dorotu og Eryks, þá áttum við okkur strax á að hann hefur ekki fengið að heyra allan sannleikann um eigin fortíð. Hann Tommi er líka helvíti skemmtilega íslenskur og pólskur í senn, hrekklaus draumórasál sem flosnar úr skóla til að rappa og elta drauminn.
Hér hefur sögusviðið verið teiknað upp – en dramað er rétt að byrja. Það sem fylgir í kjölfarið er sannferðugt smábæjardrama, en líka miklu eldra og flóknara uppgjör frá heimalandinu. Anna er harðjaxl en um leið draumóramanneskja, við komumst hægt og rólega nær kjarnanum í henni, stálið í henni er til marks um ástríðu en ekki kaldlyndi. Olga Boladz er hreint mögnuð í aðalhlutverkinu, mjúkur harðjaxl sem setur allt á hvolf í litla smábænum.
Hún vill sannarlega bæta ráð sitt – en ógæfan eltir hana á röndum. Þegar þú hefur framið glæp er heimurinn skyndilega úr gleri og það á sannarlega við um Önnu, minnsta feilspor getur leitt til glötunar.
Leikurinn er almennt til fyrirmyndar – og þar ber sérstaklega að nefna áðurnefnda Olgu sem og Jan Cieciera, sem leikur unglingsstrákinn Tomma af mikilli næmni. En Ísland sjálft á líka stórleik. Hið íslenska bíólandslag er vissulega löngu orðið klisjukennt í sínum Inspired by Iceland ljóma, en hér er eitthvað alveg nýtt á ferðinni – Ísland séð með innlendum gestsaugum, þess sem kom og fór – en í gegnum augu hinnar nýkomnu. Þetta er landslag fullt af drunga og háska, en líka ofboðslegri fegurð, einmanaleika og sumri.
Myndin undirstrikar einfaldlega hversu afskaplega mikið íslensk kvikmyndagerð missti við fráfall Árna Ólafs, hann var nefnilega rétt að byrja. Maður óskar sér meira að segja bæði forspjalls og framhalds af Wolka, bæði langar mig í heila bíómynd úr þessu pólska fangelsi og eins býður endirinn sannarlega upp á forvitnilegt framhald. Þannig skilur þetta lokaverk Árna mann eftir með þá þrá sterkasta að fá að sjá meira.
Pistillinn birtist upphaflega í Lestinni á Rás 1 þann 13. október 2010.