Þegar maður skilar af sér útvarpspistli þá er pistillinn sjaldnast alveg fullkláraður – ósjaldan eiga þáttastjórnendur og/eða tæknimenn eftir að framkvæma einhverja galdra, stundum gróflega eftir forskrift og leiðbeiningum sem ég sendi þeim – en stundum kemur einhver óvænt snilld til viðbótar.

Þannig var það í vikunni þegar ég sendi Önnu Marsý hjá Lestinni pistil sem endaði á umfjöllun um Wolka, þar sem ein aðalpersónan er ungur og upprennandi rappari. Þið getið heyrt í rappbandinu hans hérna á mínútu 9.10-9.48. En þar sem lagið er ekki enn formlega komið út og ekki nógu mörg fleiri rapp-atriði í Wolka þá fann Anna þetta prýðilega pólska rapp frá honum O.S.T.R. til að ljúka pistlinum (sjálfsagt af því ég var ekki alveg jafn málglaður og venjulega) – og lagið er þar með auðvitað sjálfkjörið föstudagslag þessa vikuna.

Listamannanafnið O.S.T.R. er dregið af nafni rapparans, sem var skýrður Adam Andrzej Ostrowski. Hann er víst með lærðari röppurum Póllands, lærði á fiðlu í tónlistarakademíunni í Łódź, er hljóðverkfræðingur og plötuframleiðandi, svona til viðbótar við rappið. Er enda úr mikilli tónlistarfjölskyldu og böskaði á götum Łódź til að drýgja tekjurnar á námsárunum.

Alcatraz er einhvers konar hugleiðing í umferðarteppu og textinn fylgir í raun nokkuð nákvæmlega því sem er að gerast í myndbandinu sem fylgir. Hann O.S.T.R. okkar lendir í reiðri konu, dónalegu barni með trúðsgrímu og manni sem dettur af hjólinu sínu. Myndavélin flakkar aðeins á milli bíla, þetta er margradda lag á sinn hátt – og inná milli lýsinga á umferðarteppunni dreymir hann auðvitað um að vera allt annars staðar.

Viðlagið, sem flakkar á milli Alcatraz og Taj Mahal á merkilega vel við bíómynd sem byrjar í pólsku fangelsi en þvælist svo til Vestmanneyja – menn verða svo bara að meta hversu mikil líkindi eru á milli Eyja og Taj Mahal.

Lífið rennur þeim úr greipum þar sem þau sitja þarna í umferðarteppunni, tónlist er það eina sem róar hann í þessum kringumstæðum, á meðan aðrir sækja dramað sem vantar í líf þeirra í umferðarteppunna, virkja eigin vegareiði, á meðan hversdagurinn blandast saman við draumóra rappara sem er orðinn of seinn í stúdíóið út af umferðarteppunni sem hann getur engu breytt um.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd: Autorstwa Błażej Pszczółkowski, CC BY-SA 2.5, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=9097366