Ég hitti Ron Kolm á Medium 43, litlu kaffihúsi litlu kaffihúsi niðrí Žižkov þar sem við lásum báðir upp og gerðum svo vitaskuld heiðarlegan skiptidíl í kjölfarið eins og öll heiðarleg ljóðskáld. Hann fékk Framtíðina og ég fékk Swimming in the Shallow End. En samskiptin voru nú svosem ekki lengri en það, þannig að ég þurfti að njósna á internetinu til að finna ævisöguna.

Þar kemur fram að hann sé 74 ára – já, eða 73 ef hann er fæddur seint á árinu – og virðist hafa unnið ú flestöllum bókabúðum New York-borgar, á milli þess að skrifa og gefa út ljóð og smásögur víða. Þar kemur líka fram að hann sé allt í öllu í senunni, þekki alla, enda var ljóðakvöldið sem við hittumst á upphitun fyrir formlegri lestur seinna í vikunni, hann vildi einfaldlega hitta ljóðskáld úr Prag-senunni í rólegheitum.

En Wikipediu-ævisagan kemur ekki mikið á óvart, af þeirri einföldu ástæðu að ég hafði lesið bókina áður en ég fletti honum upp – og þetta er einfaldlega myndin sem framkallast af honum eftir lestur bókarinnar. Ljóðin virka oft ævisöguleg – og það er einmitt eitt ljóð um bókabúðaárin.

Og þetta er rosalega mikil New York borg, í jákvæðri merkingu, maður finnur lyktina af borginni, sögunni, langt aftur í tímann. Háskinn er oftast meiri í fortíðinni, eins og allir kannast við sem hafa komið til eða hafa pata af sögu borgarinnar síðustu 50 árin, borg sem hefur breyst úr einni mestu glæpaborg Vesturlanda í borg sem flestir geta þvælst um sæmilega öruggir. Nema heimsfaraldur ríki – og þetta er kóf-bók líka, kófið er búið að smita sum ljóðin, eins og vænta mátti, enda New York ein fyrsta stoppistöð veirunnar í nýja heiminum.

Bókin skiptist eiginlega í þrennt; stutt og knöpp ljóð, og svo lengri ljóð sem eru ýmist einhvers konar örsögur úr hversdeginum, minningarbrot, oft nýleg en stundum eldri minningar. Og svo lengri ljóð með óvæntri vendingu í lokin. Og þau eru veikleiki bókarinnar, óvænta vendingin virkar sjaldnast.

Hins vegar eru örsögurnar oft mjög skemmtilegar, bera með sér forvitnilegt andrúm – eina er að oft fannst mér línuskiptin flækjast fyrir – mörg lengri ljóðin hefðu frekar mátt vera prósaljóð, þau eru það í andanum.

Allra best eru þó nokkur örstutt en hnitmiðuð ljóð, hér og þar um bókina. Titilljóðið kemur fyrst, Swimming in the Shallow End, og grunna laugin reynist vera internetið við upphaf vinnudags – þessi grunna laug sem við svömlum í á meðan við vöknum, áður en við hættum okkur á dýpið. En auðvitað kemur fyrir að við svömlum í grunnu lauginni heilu dagana, þegar djúpa laugin virðist aðeins of djúp.

Svo er mögnuð ljóðatvenna fyrir miðri bók – hvort sem það er Kolman eða umbrotsmanninum um að þakka – en það er eitthvað magnað við að sjá ljóðin Covid-19 og 9/11 á sömu opnu, 21. aldar saga New York borgar á einni opnu. Og 9/11 ljóðið magnað í einfaldleika sínum, þau lifa með okkur af því önduðum þeim að okkur. Bókstaflega.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Teikning af Kolm: By Kolmrank – Own work, Public Domain, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=8529856

Ljósmynd af  Kolm: ÁHI