Höfundur heldur á appelsínu sem á stendur titillinn Ég brotna 100% niður. Þetta reynist góð vísbending um efni þriðju ljóðabókar Eydísar Blöndal; auglýsingaslagorð, sem á bæði við um manneskjur og ákveðnar vörur – og niðurbrotið er bæði jákvætt og neikvætt þegar kemur að manneskjum. En þetta er líka auglýsingaslagorð sem höfðar enn sem komið er ekki nema til takmarkaðs hóps, er bæði til marks um magnleysi orðanna og falsið sem fylgir því að þurfa að koma umhverfismálum í tísku. Titillinn sýnir okkur sem vöru, fólk sem þarf að sannfæra um að tortíma ekki sjálfum okkur með því að selja okkur nýja hluti sem eru ekki jafn slæmir og auglýsingavörur gærdagsins.

Bókin sjálf fjallar helst um þetta þrennt; líkama, tilfinningar og hamfarahlýnun – og tengir þessa hluti stundum á ansi snjallan hátt. Það er þó ákveðinn veikleiki margra tilfinningaljóðanna að þau einblína oftast á tilfinninguna, án þess að spá neitt að ráði í upptökunum, sbr. lokaerindi fyrsta ljóðsins, „Uppistöðulón.“

Allt þetta, sársauki og eyðilegging,

fyrir eitthvart fokking gagnlaust drasl sem við hefðum betur sleppt.

En maður saknar stundum að fá að vita aðeins meira um allt þetta gagnlausa drasl, sem er jú kveikja tilfinninganna. Það er raunar komið inná einmitt þetta á sinn hátt í tveimur ljóðunum – á einum stað minnist hún á hvernig „Sem barn gat ég leyft huganum að reika þar til hugsanirnar urðu að einhverju sem er handan þess sem ég get útskýrt“ og í öðru bernskuljóði lýsir hún hvernig mikilvægustu tilfinningarnar eru í raun gleymdar:

Fyrirferðamestu minningarnar eru þær sem maður man ekki. Eitthvað sem er svo stór hluti af þér að þú ert ómóttækileg fyrir innihaldinu. Oftast eru þetta minningar um ekkert – um að gráta sig í svefn, um einmanaleika. Minningar sem smugu inn í blaut beinin og blönduðust mergnum.

Ljóðin reyna oft að lýsa ekkertinu, tilfinningar með löngu gleymd upptök, fljót sem streyma áfram og eru löngu búin að gleyma uppistöðulóninu.

Hér sameinast líka tilfinningarnar líkamanum, þegar þær blandast mergnum – og þetta heldur áfram að vera lykilinn að mörgum ljóðunum, eins og í ljóðinu „Kvenleggur,“ þar sem orðið er tekið í sundur og leggurinn aðskilinn, og í mergnum finnst sársauki kynslóðanna, „afhjúpar sig sem sorgir lítilla stelpna.“

Það eru þó dæmi um að tilfinningin sé tengd betur við upptök og atburði, eins og í „Ég sjálf“ þar sem sjálfið verður bókstaflega allir og allt í kring, öryggismyndavélar og þjónar sem afgreiða og þeir sem renna í gegnum samfélagsmiðlana manns.

Þá er hálfgerð trílógía um kyngervi, sem hefst á ljóðinu „Ofkynjun,“ þar sem orði er aftur skipt upp á snjallan hátt – þetta er jú gervi og næstu ljóð leika sér áfram með þá hugmynd, „Performansinn“ og „Grímurnar,“ ljóð um hvernig við erum oft ennþá að burðast með þau gervi sem okkur voru ásköpuð sem börn.

Bókin kjarnast þó um loftslagsmálin – og jú, það kemur alveg fyrir að loftlagspólitíkin verður banal í ljóðformi. Þannig er til dæmis vegasalt algeng myndlíking, en það vantar aðeins upp á að þessar jafnvægispælingar verði sterkari, því það eru svo sannarlega möguleikar í hugmyndinni sem eru ekki fullnýttar.

Sum hamfarahlýnunarljóðin eru hins vegar ansi sterk. Dæmi um það eru tvö framhaldsljóð um árið 2050, annað er hugleiðing um framtíðina en í hinu er framtíðin þegar mætt. Í því fyrra hugsar ljóðmælandi um þetta fjarlæga ár – þegar hún verður bara 56 ára og veltir fyrir sér hvort enn verði hægt að fara til Tenerife eða út í ísbúð, hvort hversdagsleikinn verði enn til staðar, hvort við getum áfram verðlaunað okkur eða barnabörnin eins og við gerum í dag. Ljóð Eydísar eru öllu lengri í þessari bók en fyrri bókum hennar, og eiginlega mættu þau sum vera ennþá lengri – „2050, 1“ er dæmi um gott ljóð sem hefði getað orðið frábært ef hún hefði leyft sér að halda aðeins lengur áfram, leika sér meira með bestu hugmyndirnar.

Í seinna 2050 ljóðinu er ljóðmælandi svo staddur í framtíðinni sjálfri. Þetta er sterkt ljóð og endurtekur línu úr fyrra ljóði; „við kysstumst á meðan brestirnir bergmáluðu í fjarksa“ – þessir bergmálandi brestir hefðu vel mátt bergmála víðar um bókina – yrðingin verður nefnilega sterkari og kröftugri við endurtekningu, ég vildi vita meira um þessa bresti.

Hamfarahlýnun er málefni kynslóðanna og móðirin og föðurinn birtast okkur sterkt í nokkrum ljóðum bókarinnar. Móðirin er yfirheyrð af barninu í ljóðinu „Hvenær má drepa,“ sem snýst ekki síður um hvenær má bylta – og hvenær byltingunni leyfist að verða blóðug, hvenær verður réttlætanlegt að drepa fyrir umhverfið, fyrir framtíð eigin barna.

Faðirinn er hins vegar farinn og í miðri bók eru tvö gullfalleg erfiljóð um horfin föður. Snemma í bókinni kemur raunar ljóð, „Appelsínubörkur,“ sem maður tengir ekki við föðurinn fyrr en við endurlestur – þegar maður veit hvernig allar þessar appelsínur tengjast föðurnum, sem átti „Appelsínutréð“ sem síðar er ort um. Tréð hefur fylgt honum frá æsku og er í raun lífstré föðursins, alla hans ævi má lesa í örlög trésins sem alltaf fylgir honum.

Besta ljóð bókarinnar er svo næst á eftir, „Pabbi,“ einfalt ljóð um þann einfalda sannleik að á meðan faðirinn muni brotna niður verði plastpokarnir sem hann skildi eftir „ósnertir og eilífir“ í kassa hjá erfingjunum.

Þá átti ljóðið „Draumur“ skilið betri titil, ljóðið er nefnilega ansi mögnuð mynd af martröð þar sem lifandi kjúklingur er sporðrendur og í ljóðinu „Plot Twist“ hugsar maður til baka til teiknimynda bernskunnar þar sem blindan ein bjargar aðalpersónunum frá því að hrapa, ljóð um hvernig við afneitum þeirri sögu sem við erum þó að skrifa – og því hvernig sú saga mun alltaf enda.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson