Við lestur Merkingar finnst manni oft eins og að nýjasta netstríðið hafi farið algjörlega úr böndunum og niðurstaðan sé hið dystópíska samfélag sem lýst er í bókinni. Eins og maður sé fastur í Kveik-þætti eða heiftúðugri netumræðu um #metoo, Covid-bólusetningar, slaufunarmenningu eða næsta bitbein samfélagsmiðlanna – og það er til marks um styrk sögunnar að hún gengur merkilega vel upp sem táknsaga fyrir flest deiluefni samtímans. Stundum kinkar maður kolli og stundum íhugar maður hvort þurfi kannski að hugsa ákveðna hluti aðeins betur. 

Bókin gerist í nálægri framtíð, eftir á að giska tuttugu ár, og hamfarahlýnun hefur greinilega haft sín áhrif á umhverfi Reykjavíkur. Bílar eru sjálfkeyrandi, glæpamenn nota heilógrímur og fólk sendir hvort öðru grömm frekar en skilaboð – en þetta er allt í bakgrunninum, hefur annaðhvort ekki haft teljandi áhrif á líf fólks eða það hefur einfaldlega vanist því. Það eru fyrst og fremst framfarir á sviði sálfræði sem valda persónum bókarinnar hugarangri. 

Aðalpersónur bókarinnar eru fjórar og skipta köflum bókarinnar nokkuð jafnt sín á milli, en hver kafli er sagður frá sjónarhóli einnar persónu. Hér hittum við fyrir siðfræðinginn og kennslukonuna Vetur, siðlausa verðbréfasalann Eyju, smákrimmann Tristan og sálfræðinginn Óla, sem sömuleiðis er einn af yfirmönnum SÁL, fyrirtækisins sem er að breyta heiminum með samkenndarprófinu. Þá fær mamma Tristans og kona Óla sinn kaflann hvor, auk þess sem tvær vinkonur, þær Tea og Laíla, skiptast reglulega á bréfum án þess að tengjast hinum persónunum beint. 

Spálíkan fyrir afbrotahneigð

Sálfræðingurinn Óli Tandri er sem sagt helsti talsmaður samkenndarprófsins, prófs sem menn telja að hafi afgerandi spágildi um hvort manneskjur muni brjóta af sér í framtíðinni eða hvort óhætt sé að leyfa þeim að vera innan um annað fólk. Prófið er þungamiðja sögunnar, það er vissulega ekki skylda að taka prófið, enn þá, en sífellt fleiri staðir eru farnir að krefjast þess, sífellt fleiri staðir krefjast þess að fólk sé merkt og upp spretta merkt hverfi – og það standa kosningar fyrir dyrum um hvort prófið verði gert að skyldu. Það er vel að merkja þegar búið að skylda alþingismenn til að taka prófið. 

Þá er prófið víða notað í skólum, þar sem raunverulega er verið að setja krakkana í próf sem sker úr um hvort þeir séu góðar manneskjur. Þótt prófið eigi aðeins að vera til innanhússnota þá gerir Vetur sér grein fyrir að „Þó svo að það sé ólöglegt að birta niðurstöður þeirra núna veit maður aldrei hvort það verður ólöglegt á morgun, og ef það er eitthvað sem hún hefur lært í siðfræðinni, þá er það að framtíðin er svo oft ósammála fortíðinni að það er eiginlega regla.“ 

Hegðun sem eitt sinn var talin góð og gild verður óæskileg á sífellt skemmri tíma – eitthvað sem verðbréfasalinn Eyja skynjar vel. Hún hefur ekki tekið prófið en henni (og lesendum) virðist augljóst að hún muni falla á því, enda lítur hún svo á að skortur hennar á samkennd sé einmitt einn hennar helsti styrkur og ein helsta ástæða þess hversu vel henni gengur í starfi. Hún skynjar að siðblindan sem lengi hefur verið eitt beittasta vopn svívirðilegustu kapítalista heimsins verður bráðum notað til að útiloka hana – og það er ekki einu sinni nóg fyrir hana að haga sér vel og bæta ráð sitt. Hún lærði leikreglurnar sem best hún gat og aðlagaði persónuleikann að þeim – en svo er þeim skyndilega breytt í miðjum leik. 

Heimsmynd góða fólksins 

Þetta er í grunninn saga um góða fólkið og vonda fólkið, þar sem góða fólkið virðist vera að hafa sigur – en maður fer að efast um að þau séu öll svo góð. Þannig er góða fólkið í sögunni, þau Vetur og Óli, alls ekkert sérstaklega viðkunnanlegar manneskjur. 

Þannig er Óli búinn að búa sér til alls kyns réttlætingar fyrir prófinu sínu, sumar ansi þversagnakenndar. Hann varar konuna sína við að þar sem „Hún sé empatísk manneskja og það sé í eðli empatískra manneskja að sjá hið mannlega í öðrum. En hún þurfi að skilja að siðlausa prósentið nýtir sér einmitt það; meðvirkni hennar.“ 

Þannig er samkenndin orðin veikleiki í samskiptum við siðlausa prósentið – og því þarf einfaldlega að útiloka siðlausa prósentið, til að gera veikleika nýju yfirstéttarinnar að styrkleika. Óli segir eiginkonunni Sólveigu að „samkennd og meðaumkun er alveg jafnblindandi og hatur eða hræðsla eða reiði eða ást,“ allt er þetta táragildra sem hinir siðlausu sem ekki ná prófinu leggja fyrir hana, því sé misráðið að vorkenna þeim. 

En Sólveig sér í gegnum hann. Hefur þekkt hann lengi og komið auga á hans stærstu galla, óþol gagnvart ófullkomleika. 

„Yfirstrikunarpenninn er búinn að draga þær fram, eins og lykilsetningar í mörg hundruð blaðsíðna bók: sérhlífni hans og sjálfsréttlæting, óþol hans gagnvart hinu götótta í manneskjunni – ekki bara hegðunarmynstrum og ósiðum, heldur líka þessu smáa og saklausa: kækjum, hljóðum, ávönum. Merkingarskyldan er leið hans til að takast á við eigið óþol.“ 

Hugmyndaátök sögunnar birtast í raun fyrst og fremst í átökum þeirra hjóna og í bréfaskriftum vinkvennana Laíu og Teu. Það er heill vinskapur undir, vinskapur sem á greinilega undir högg að sækja – en um leið er þetta greining á menningarástandi. Hér lýsir Tea því hvert pólaríseringin er komin: 

„Það er nefnilega á þessum andartökum, þegar ég hætti mér inn á gráa svæðið, sem ég finn raunverulega fyrir hinu fullkomna samtalsleysi sem ræður ríkjum í samfélagi okkar. Það er þá sem ég upplifi pólana tvo. Norðurskaut og suðurskaut. Að klofningurinn sé orðinn svo mikill að skautin tala hvort sitt tungumálið. Skautin horfa á sama orðið og leggja hvort sína merkingu í það. Allir benda hver á annan, allir eru þolendur, allir eru gerendur. Fólk þverneitar að hlusta á hina hliðina. Æ oftar sé ég yfirlýsingar frá annars vel gefnum manneskjum þar sem þær segjast ætla að blokka alla sem eru á annarri skoðun en þær sjálfar. Eða þær segja: „Ef þú fylgir þessum málstað mátt þú vinsamlegast afvina mig.“ Mér finnst þetta stórhættuleg hegðun. Að koma sér þannig fyrir að þú heyrir einungis eigin skoðanir, og hlustir aldrei á þá sem eru á öndverðum meiði. Þetta eru óheilindi. Að þykjast gagnrýnin en haga sér svona.“ 

Uppgjöf siðfræðings

Þetta er einn af fjölmörgum köflum í bókinni sem fanga listilega vel þá frústrerandi tilfinningu sem hellist ósjaldan yfir mann á netrápi hversdagsins, þar sem hálf veröldin er orðin óþolandi og hálf brjáluð – og maður sjálfur kannski líka. 

Siðfræðingurinn Vetur er svo einfaldlega búin að gefast upp. Í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi hefur hún gefist upp á að fylgja sannfæringunni. „Það eru fleiri en hún byrjaðir að þegja. Þegja og hlusta, íhuga, skilja báðar hliðar og þora ekki að taka afstöðu af því að afstaða er alhæfing og alhæfing er ofbeldi og þess vegna er betra að hlusta og skilja í stað þess að rífast og reyna að hafa rétt fyrir sér.“

En hún er líka orðin dómhörð og fordómafull gagnvart þeim sem fóta sig illa í þessum nýja veruleika, sem hún treystir sér ekki til þess að standa í lappirnar gagnvart. Fyrirlitningin á þeim sem hafa ekki sömu samkennd og hún birta okkur þversögn þess heims sem prófið skapar. Eins rifjar hún upp samskipti við gamlan kærasta og telur yfirlæti hans til marks um einelti, einelti fortíðar sem er ekki ástæða til að sýna samkennd heldur þvert á móti kveikja kaldrar og ópersónulegrar skýringar á brestum nútíðarinnar. 

Uppreisnarmaður

Loks komum við svo að lykilpersónu bókarinnar, vandræðagemsanum Tristan. Tungutakið sem Fríða skapar honum er eitt mest sannfærandi slangur sem ég hef lesið lengi – og í gegnum slangrið sést glitta í einu aðalpersónuna sem ég myndi ekki fella á samkenndarprófi. Tristan er smákrimmi sem tæmir heilu íbúðirnar falinn undir heilógrímu – en hann kemur úr brotinni fjölskyldu, bróðir hans féll á prófinu og það er ástæðan fyrir því að hann er harðákveðinn í að fara aldrei í þetta próf sem hann fyrirlítur. Móðir hans og systir eru fluttar í merkt hverfi og því getur hann ekki búið hjá þeim án þess að fara í prófið – og allt þetta veldur því að hann flosnar upp úr skóla, á erfitt með að fá sér löglega vinnu eða húsnæði og kappkostar við að safna nógu miklum pening með vafasömum ráðum áður en lögin fara mögulega í gegn í komandi kosningum.

Hann er útlagaskáld sögunnar, þótt hann viti það ekki enn þá. Svona lýsir hann því að skrifa: „Með hverju orði er eins og honum líði aðeins betur og hann heldur áfram þar til hann klárar orðin inni í sér.“ Hann er að vísu að skrifa hótunarbréf – en það er í raun skáldskapur, hann meinar ekkert með þessu, kann ekki að beita ofbeldi – en kann heldur ekki að finna skáldskap sínum annan farveg en raunveruleikann. 

Höfundurinn:

Fríða Ísberg er 28 ára gömul og hefur undanfarin fimm ár sent frá sér ljóðabækurnar Slitförin og Leðurjakkaveður og smásagnasafnið Kláða, en sú síðastnefnda var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Merking er hennar fyrsta skáldsaga – en hún er með aðra skáldsögu í jólabókaflóðinu, Olíu, sem hún skrifar ásamt stöllum sínum í Svikaskáldum, sex kvenna ritlistarkollektívi sem áður hafa gefið út ljóðverkin Ég er ekki að rétta upp hönd, Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín.

Allir fá hjálp – Engum verður gleymt

Hann er fulltrúi hinna óæskilegu, eða eins og Óli orðar það: „Þau eru að byggja upp raunverulegt velferðarsamfélag. Allir fá hjálp. Engum verður gleymt. Ofbeldi verður kæft í fæðingu.“ Með ofbeldi meinar hann í raun ofbeldismenn, án þess að segja það upphátt, ekki einu sinni við sjálfan sig. Og líklegustu ofbeldismennirnir eru unglingstrákar og ungir menn rétt yfir tvítugu, sem með tilkomu prófsins lenda í því sama og blökkumenn víða í Bandaríkjunum mega þola í dag; þar heitir merkingin „racial profiling“ og virkar þannig að hverfi þeirra verða skotmörk lögreglu og tortryggni býr til glæpi, raunverulega og ímyndaða, sem býr svo til meiri tortryggni í endalausum vítahring. 

Eða eins og segir í kosningamyndbandi andstæðinga merkingarinnar: 

„Þegar þú ert búinn að banka ex lengi,“ segir strákur í nýju KALL myndbandi á miðvikudeginum, „og enginn opnar fyrir þér, og þú gerir þér loksins grein fyrir því að enginn er að fara að hleypa þér inn, þá leitarðu bara að glugga til að brjótast inn um. Það er bara þannig.“ 

Samkenndarprófið fer vel að merkja þannig fram að fólk horfir á myndbönd af fólki að gráta og hlæja – til að kanna hvort það smitist af tilfinningum – og horfir svo á myndbönd af fólki að þylja upp harmsögur sínar – viðbrögð eru mæld og skila niðurstöðum á borð við þessa. 

„Tilfinningalegt smit, gleði: Venjuleg viðbrögð.

Tilfinningalegt smit, kærleikur: Venjuleg viðbrögð.

Tilfinningalegt smit, sársauki: Sýnir ekki lágmarksviðbrögð.

Sársauki annarra af sama kyni: Sýnir ekki lágmarksviðbrögð.

Sársauki annarra af öðru kyni: Sýnir ekki lágmarksviðbrögð.

Sársauki annarra af sama kynþætti: Sýnir ekki lágmarksviðbrögð

Sársauki annarra kynþátta: Sýnir ekki lágmarksviðbrögð. 

Niðurstaða: Nær ekki lágmarksviðmiði.“ 

Vandinn er hins vegar að sögur snerta mismikið við okkur, oft óháð persónum og leikendum. Þannig vitrast manni að bókin er í rauninni besta samkenndarpróf sem mannkynið hefur fundið upp á. Í raun eru margradda sögur á borð við þessa hið fullkomna samkenndarpróf – en endurspegla líka galla þess. 

Dystópíubókmenntir

Ein algengasta virkni listaverka er vissulega að kalla fram samkennd – og við lærum sannarlega samkennd af bókum. En við vitum aldrei fyrir víst hvort höfundi hafi mistekist að skapa með manni samkennd, sagt okkur nógu sannferðugar sögur til að finna til með, eða hvort vandinn liggi hjá okkur sjálfum, hvort við séum mögulega ófær um að sýna ákveðnum manneskjum samkennd, út af ólíkum uppruna, lífsskoðunum eða einhverju öðru sem við tengjum ekki við. Þannig verður vandi samkenndarprófs ávallt sá að það er alls óvíst að sálfræðingarnir séu nógu góðir listamenn, að þeim takist að láta okkur finna til með sögupersónum sínum – og eins getur samkennd verið allavega; tilfinningaleg eða vitsmunaleg, hvatvís eða íhugul. 

Þetta er saga sem sækir vissulega í sagnaarf margra lykilverka dystópíubókmenntanna. A Clockwork Orange hefur verið nefnd – þar sem glæpamenn eru læknaðir af siðblindu, en ég kannaðist eiginlega við fleiri hugmyndir frá Philip K. Dick. Í Do Androids Dream of Electric Sheep? – sem flestir þekkja betur undir kvikmyndatitlinum Blade Runner – er samkennd lykilatriði í allri tækni og samkenndarpróf notað til þess að greina á milli vélar og manneskju. Í Minority Report er svo búið að hanna tækni sem getur spáð fyrir um framtíðarglæpi, tækni sem gerir saklaust fólk sekt, vegna vafasamrar framtíðar. Framtíð Dick virkar hins vegar fjarlægari – framtíð Merkingarinnar finnst manni stundum í raun þegar vera komin.

Niðurstaða: Mögnuð og margradda framtíðarhrollvekja, þar sem kunnugleikinn er það óhugnanlegasta. Heimspekilega vekjandi, fantavel stíluð og skapar mörgum og mismunandi persónum sannfærandi og mismunandi stíl í Reykjavík nálægrar framtíðar.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni 26. nóvember 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson