Við er­um stödd í Ár­nes­sýslu, nán­ar til­tek­ið í Tanga­vík. Smá­bæ sem ein­ung­is er til í skáld­heimi Ein­ars Más Guð­munds­son­ar og hef­ur einnig birst okk­ur í Ís­lensk­um kóng­um og Hunda­dög­um. Það voru þó allt aðr­ar út­gáf­ur bæj­ar­ins en birt­ist okk­ur í Skáld­legri af­brota­fræði – en í lok bók­ar er fram­hald boð­að, þannig að lík­leg­ast mun­um við bráð­um fá að lesa meira um þessa út­gáfu Tanga­vík­ur. Og mögu­lega kom­ast að því hver er að segja okk­ur þessa sögu.

Sögumaður hefur söguna nefnilega á tilvitnun en bætir svo við: „Þannig hefst þessi saga. Svona byrja ég núna.“ Þetta „ég“ sögumanns kemur ítrekað fyrir, þetta er ekki beint hinn alvitri sögumaður, öllu heldur frekar sögumaður sem veit það sem honum hentar. Maður fær á tilfinninguna að hann sitji á skjalasafni eða bókasafni að viða að sér heimildum og vitnar raunar í ótal heimildir, þeir Ari Knudsen og Oddur Benediktsson prestur eru meðal hans lykilheimilda – en allar eru þessar heimildir skáldaðar, þótt vissulega byggi margar þeirra á raunverulegum heimildum. Þannig er rithöfundurinn og grúskið hans ein lykilpersóna bókarinnar – og það er óútreiknanlegt samband, þannig er eins og stundum stoppi skortur á heimildum hann í að fara lengra með suma þræði sögunnar, en oft er hann ekkert að láta það trufla sig.

Þetta er sögumaður sem týnist ítrekað í útúrdúrum og á oft erfitt með að halda sig við eiginlegan ramma sögunnar, sem hann setur sér þó sjálfur. Við stökkvum ósjaldan fram eða aftur í tíma, sem og til annarra svæða á landinu. Hann minnist oft á Jörund hundadagakonung í framhjáhlaupi og undirstrikar þar með textatengslin við Hundadaga. Einn mikilvægasti útúrdúrinn er svo þegar hann rifjar upp Skaftárelda, enda segir sögumaður að það sé „engin leið að skilja þessa tíma ef ekki er minnst á Skaftáreldana, eldsumbrotin sem nefnd eru hér að framan, þegar Íslendingum fækkaði um fimmtung“. Og um leið veltir maður fyrir sér hvað þeir sem munu skrifa sögulegar skáldsögur um nútímann munu líta á sem bráðnauðsynlegar bakgrunnsupplýsingar til að skilja þessa tíma okkar. Hrunið? Kalda stríðið?

Allavega, við endum þó alltaf aftur í Tangavík í upphafi nítjándu aldar. Á glæpaöldinni. „Þessi tími er kallaður upplýsingartíminn, stundum upplýsingaröldin, en líka glæpaöldin. Glæpaöldin er talin hafa staðið í þrjátíu ár, stundum meira, stundum minna.“

Árin þrjátíu eru árin 1800–1830 og henni telst ljúka með síðustu opinberu aftökunni á landinu í Húnavatnssýslu, en sögumaður minnist oft á Húnavatnssýslu sem virðist spegla Árnessýslu, þetta eru höfuðstöðvar glæpa í landinu – önnur svæði Íslands koma sáralítið við sögu, sem líklega þýðir að menn hafi verið öllu löghlýðnari þar. Eina undantekningin er þegar tvær sögupersónur sjá Hafnarfjörð í hillingum, hann er þeirra fyrirheitna land – þar sem önnur lönd eru enn of fjarlæg til þess að dreyma þau.

Þetta er aldarfarslýsing öðru fremur, sem ásamt athyglisbresti sögumanns kemur dálítið niður á persónusköpuninni – þær eru margar og hringsóla dálítið fyrir manni framan af bók, en þegar á líður fara þó nokkrar þeirra að lifna betur við.

Framan af virðist helsta erindi sögunnar að sýna okkur hvernig þessir glæpamenn hafi í raun verið uppreisnarmenn síns tíma, áður en eiginleg uppreisn varð möguleg.

„Þessir afbrotamenn eru stundum kallaðir frumstæðir uppreisnarmenn, primitive rebels, og hefur breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm skrifað um þetta tvær bækur. Primitive Rebels heitir önnur en hin heitir Bandits. Hér eru þær nefndar af handahófi og sýna svo ekki verður um villst að okkar menn á Íslandi voru ekki einir á báti.“

Þessir glæpamenn verða goðsagnakenndir, þeir tóku sér íkónískt hlutverk Che Guevara og Castro á köflum: „Á myndum af þeim, sem voru teiknaðar, minna þeir á byltingarforingja, ótrúlega svalir með bauga undir augunum, liðað svart hár og skegg einsog hugsuðir.“

Sögumaður fer stöku sinnum fram úr sér og ræðir fangelsisvist og aftökur framtíðarinnar, sem er þó í raun efni næsta bindis – þetta bindi nær ekki svo langt. Hann er líka gagnrýninn á eigin (lauslega skálduðu) heimildir. „Réttarskjöl eru oft lítið annað en vitnisburður um sjálf sig, um viðhorf tímans og valdsins, hæðni þess og hroka, um hugmyndafræðina sem byggt er á,“ segir sögumaður okkur og kjarnar þetta síðar með orðunum: „Þannig tók valdið til orða.“

En þetta er íslenskur smábær og auðvitað er líka nóg af fátækt og slori – með persónum á borð við Óla blinda, Siggu sægarp og draugum sem urðu úti. En tímarnir eru að breytast. „Mótþróinn var hluti af nýja tímanum, frelsið sem allir fundu fyrir en enginn skildi.“

Franska byltingin er þarna tiltölulega nýskeð – og hún fóstraði byltingar víða um heim, en sums staðar var jarðvegurinn ekki alveg tilbúinn fyrir byltingu – og þá birtist hún bara öðruvísi. Þetta barst með skipum til Íslands, hálfpartinn óvart, með dagblöðunum og bókunum sem bárust með skipum ásamt öðrum helstu nauðsynjavörum.

„Fram að þessu voru það bara Danir og þá aðallega danskir kaupmenn sem gátu talist borgarar í sama skilningi og þeir sem voru að ryðja sér til rúms víða um heim og voru að gjörbreyta öllu samfélaginu og heiminum sem logaði í óeirðum og uppþotum. Þó voru kaupmennirnir sjálfir langt frá því að vera uppreisnarmenn, en með verslun og viðskiptum fylgdu frelsishugmyndir og frjálsræði í öllum samskiptum.“

Draugar og ambáttir

Já, konungsveldin voru að falla, umbreytast – heimurinn var að þróast í átt að kapítalisma nútímans. Sem þýddi auðvitað að þetta frelsi yrði seint allra. Það voru ekki öreigarnir sem stunduðu gripdeildir, glæpabyltingarmennirnir voru miðstéttarmenn. „Það er nefnilega áhugavert við þessa tíma að glæpamennirnir voru alls ekki þeir fátækustu á svæðinu. Þvert á móti. Þeir fátækustu höfðu sjaldan þor og dug til afbrota.“

Og það er dálítið eins og sögumaður hverfi frá upphaflegu erindi sínu – að rissa upp svipmynd af glæpamönnum sem byltingarhetjum. Því smám saman fer athygli hans að beinast meira og meira að öreigunum, sem þessir glæpamenn níðast á, rétt eins og annað miðstéttar- og hástéttarfólk gerir. Það er eins og sögumaður átti sig á því að þessar byltingar í frelsisátt snerti fyrst líf þeirra sem þegar voru háttsettir – og seytlar svo, oft löturhægt, niður þjóðfélagsstigann. Þeir fátæku kynnast frelsinu síðast – ef þeir kynnast því yfir höfuð.

Þegar á líður fer maður að skynja tvo öreiga verksins sem hinar raunverulegu aðalpersónur, þau Jónu Jónsdóttur og Eirík Traustason. Byrjum á henni Jónu. Hún „var sögð hressileg að sjá og raunar gullfalleg, ekki síst þegar sólargeislarnir féllu í gegnum svart hárið og andlitið bar í birtuna“.

En þetta er ekki upphafið að ástarsögu bókarinnar, heldur er þarna verið að lýsa munaðarlausri stúlku sem er komið í vist hjá Óla blinda sem unglingsstúlku. Með því telur Ellert hreppstjóri sig hafa unnið mikið góðverk – en hjá Óla fær Jóna það óformlega hlutverk að vera í raun ambátt hans og kynlífsþræll. Það er ýjað að þessu í fyrstu, en svo verður þetta skýrara og skýrara – og það er dálítið eins og sögumaður þurfi að hafa fyrir því að hætta að tala um atvikið eins og annálar nítjándu aldarinnar gera og byrja að tala um hana eins og upplýstur 21. aldar maður. Þær hugmyndir og sú hugmyndafræði sem við erum vön var einfaldlega ekki til staðar fyrir hana Jónu, hún þurfti að semja sína uppreisn alveg upp á nýtt.

„Þessum spurningum varð hún að svara en hverju átti hún að svara þegar enginn orðaforði náði yfir líf hennar og tilfinningar, að minnsta kosti ekki sá orðaforði sem ríkjandi var þarna á svæðinu og í landinu og heiminum.“

Þetta kjarnar raunar ákveðinn megintilgang með þessum kynjótta sögumanni, hann er að takast á við heimildirnar – að reyna að vera trúr þeim en sömuleiðis gagnrýninn á þær og túlka þær með sínu nútímanefi. En það er stundum erfitt þegar fortíðin er búin að ritskoða ýmislegt sem nútíminn er forvitinn um – ef fortíðinni þótti á annað borð þess virði að festa þá hluti á blað, hluti eins og örlög munaðarleysingja. Þannig er glíma sögumanns að vera trúr bæði nútíð og fortíð og vera sanngjarn gagnvart báðum tímum.

Það er líka ekki alveg ómögulegt að sögumaður sé nútímamaður og nítjándu aldar maður í senn. Það er örlítil vísbending um að hann sé hreinlega draugur. „Þeim fylgdi draugur pilts sem kom flakkandi austan úr sýslum og okkur er mjög hugleikinn af því að við vitum hver pilturinn var, hann Eiríkur Traustason sem hér leikur lausum hala.“

Það er óljóst hvort hann leiki lausum hala á síðum bókarinnar eða við lyklaborðið – en kemur mögulega í ljós í framhaldinu. En þótt hann sé kynntur snemma til leiks verður hann meiri lykilpersóna þegar líður á bókina. Hann er kynntur til sögunnar sem unglingspiltur sem kemst við illan leik til Tangavíkur, þar sem Karl nokkur, seinna uppnefndur Drauga-Karl, vísar honum frá – þannig að hann verður úti. Og Eiríkur ásækir vitaskuld Karl og öll hans afkvæmi allar götur síðan, þar á meðal Siggu sægarp.

Framan af halda draugarnir sig að mestu til hlés, það má jafnvel afskrifa þá sem bábilju – en þegar á líður taka þeir sér sífellt meira pláss og verða hægt og rólega að samfélagi.

„Á flakki sínu um dulheima kynntist Eiríkur Halldóru Sturludóttur, Drauga-Dóru, stúlkunni sem Ellert hafði úthýst og bjó í hesthúsinu hjá þeim hjónum. Þau höfðu kynnst í bátkríli sem lá í fjörunni og tóku strax upp samband sem þróaðist og varð æ villtara.“

Og kannski eru þetta frægari draugar en nöfnin benda til?

„Hún var líka kölluð Tangavíkur-Dóra og á þessum árum fékk Eiríkur nafnið Víkurósmóri og þau voru stundum kölluð Móri og Skotta og urðu efni í margar sögur sem sumar hafa lifað en aðrar ekki og sumar aldrei verið sagðar.“

Manni dettur jafnvel í hug að hér gæti verið vísir að draugaævintýrum í ætt við þau sem Gunnar Theódór Eggertsson segir frá í Drauga-Dísu og framhaldsbókum hennar – en mig grunar nú samt að þessi sagnabálkur Einars Más verði á endanum öllu jarðbundnari.

Draugar geta líka verið tímanna tákn fyrir geðsjúkdóma og aðra hluti sem einnig vantaði orðaforða fyrir á þessum tíma. Hér birtist okkur örlítill vísir að því hvernig Englar alheimsins hefði getað orðið draugasaga ef hún hefði gerst hálfri annarri öld fyrr.

„Það mætti alveg eins nefna þunglyndi Friðriks og draugana sem ásóttu hann og trufluðu allt þeirra samlífi, hans og konunnar, hvort heldur þeir komu að utan eða bjuggu innra með  honum. Draugar voru draugar, sama hvaðan þeir komu.“

Mest vona ég þó að næsta bindi leyfi okkur að kynnast Jónu Jónsdóttur betur. Um leið og hún nær sjálf að kynnast sjálfri sér betur, finna orðaforðann um eigið líf. Þegar líður á bók fer hún þó að kynnast öðru fólki en Óla blinda og sjá betur að það eru aðrir möguleikar í lífinu.

„Og þeim kom vel saman Antoni Olsen og Jónu Jónsdóttur, þau voru vinir, góðir vinir, að svo miklu leyti sem hægt var að tala um vináttu innan um allt þetta ískalda grjót og fuglagargið í fjörunni og fiskinn og slorið.

Jú, auðvitað þreifst þarna vinátta, en hún var háð lögmálum kulda og vosbúðar og drauga og jarðskjálfta sem skóku allt með reglulegu millibili og áttu sér þá skýringu að vættir og tröll voru að elskast í iðrum jarðar, höfðu þar samfarir, og í þau fáu skipti sem fjör færðist í leikinn þá komu jarðskjálftar.“

Niðurstaða: Heillandi aldarfarslýsing sem framan af er kannski full losaraleg á köflum og persónusköpunin kemst ekki á almennilegt flug fyrr en líður á söguna. En manni leiðist aldrei með þessum kynjótta sögumanni þótt oft mætti hann kafa dýpra.
Einar Már Guðmundsson hefur skrifað 14 skáldsögur, 8 ljóðabækur, 2 smásagnasöfn, 2 barnabækur og 3 greinasöfn á rúmlega 40 ára rithöfundarferli. Hann vann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Engla alheimsins og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Hundadaga. Þá hefur hann unnið með Friðriki Þór Friðrikssyni að kvikmyndahandritum mynda á borð við Börn náttúrunnar og Engla alheimsins.

Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 22. desember 2021.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson